NLP – leið til að bæta líf sitt

NLP er atferlisfræði sem greinir mynstur í hegðun manna og samskiptum með það að markmiði að hjálpa fólki að ná betri árangri í samskiptum. Mér finnst gagnlegt að líta á NLP bæði sem hugsunarhátt og verkfærasett fyrir einstakling til að bæta samskipti sín, bæði samskipti sín við aðra – og ekki síður samskipti sín við sjálfan sig. Hugmyndir og aðferðir NLP eru mikið notaðar í viðskiptalífinu og í stjórnun, og þær má nýta með góðum árangri á flestum sviðum mannlegra samskipta. NLP nýtist venjulegu fólki sem þarf á hverjum degi að takast á við margvísleg viðfangsefni sem misjafnlega gengur að höndla.

  • N stendur fyrir Neuro og vísar bæði til ósýnilegra hugsanaferla og sýnilegra líkamlegra viðbragða við hugmyndum, orðum og atvikum. Líkami og hugur eru ein heild.
  • L stendur fyrir Linguistic og vísar til þess hvernig við notum tungumálið til að koma skipulagi á hugsanir okkar og til að hafa samskipti við aðra.
  • P stendur fyrir Programming og vísar til þess hvernig við veljum að skipuleggja hugmyndir okkar, hugsanir og gerðir til að ná árangri.

Höfundar NLP eru tveir, þeir Richard Bandler, sálfræðingur, og John Grinder, málvísindamaður, sérfræðingur í málmyndunarfræði. Þeir kynntust á sjöunda áratug síðustu aldar í háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu þar sem Bandler var enn nemandi og Grinder kennari. Það sem þeir Bandler og Grinder tóku sér fyrir hendur var að rannsaka þrjá þerapista sem voru á þessum tíma þekktir fyrir að ná algjörlega einstökum árangri í þerapíu. Um var að ræða Virginiu Satir fjölskylduráðgjafa, Fritz Perls Gestalt þerapista og Milton H. Erickson geðlækni sem notaði dáleiðslu í lækningaskyni. Það sem vakti fyrir þeim Bandler og Grinder var að komast að því hvað það var sem gerði þessa þrjá þerapista svo framúrskarandi árangursríka. Þótt þerapistarnir þrír væru mjög ólíkir að flestu leyti reyndust þeir meðhöndla skjólstæðinga sína eftir mjög áþekkum mynstrum. Og þeir Bandler og Grinder greindu þessi mynstur og gerðu líkan af þeim til að aðrir þerapistar gætu lært þau og fært sér í nyt. Grunnhugmyndin er sú að hægt sé að greina mynstur í því hvernig fólk nálgast viðfangsefni sín – og með því að greina mynstrin hjá þeim sem ná einstökum árangri á sínum sviðum, og gera líkan af þeim mynstrum, getum við, meðalmennin, lært að nálgast viðfangsefni okkar á árangursríkari hátt.

Ef við myndum líkja heila okkar við tölvu þá væru hugsanir okkar og gerðir sambærilegar við hugbúnaðinn og oftast er hægt er að uppfæra hugbúnaðinn án þess að skipta um tölvu! Auðvitað erum við alltaf að uppfæra hugbúnaðinn og NLP er öflug leið til þess að gera það á markvissan hátt.

 

Meðal forsendna eða útgangspunkta NLP vil ég nefna eftirtalda þrjá:

1. Það að vera fær um að breyta því hvernig við upplifum og vinnum úr veruleikanum er oft mikilvægara en það að breyta veruleikanum sjálfum. Áherslan er á upplifun og úrvinnslu, hvernig við nýtum okkur það sem við upplifum. Því, eins og ameríski kennarinn minn sagði: „Fortíðin, eins og við munum hana, átti sér hvort sem er aldrei stað,“ og átti við að fortíðin sem við munum er úrvinnsla okkar og túlkun á einhverju sem gerðist.

2. Hver einstaklingur býr yfir þeim úrræðum sem hann/hún þarf til að breyta lífi sínu.

3. Ef það sem þú ert að gera ber ekki þann árangur sem þú vilt, reyndu þá eitthvað annað!

Í NLP er unnið mikið með myndmál, að sjá fyrir sér, að breyta ímyndum, að virkja öll svið skynjunar til að ná árangri, að myndgera tilfinningar til að geta betur unnið með þær og láta undirvitundina vinna með sér við að ná árangri.

Í NLP er einblínt á árangur og nútíð og framtíðina – og alls ekki dvalið við gömul mistök og vonbrigði – þvert á móti forðumst við að velta okkur upp úr gömlum leiðindum heldur losum við okkur við hamlandi afleiðingar þeirra.

Ástæðan fyrir því að ég fór að kynna mér NLP var sú að ég fann fyrir mikilli þörf á að endurnýja mig í starfi. Ég er íslenskufræðingur, sérfræðingur í sjálfsævisögum kvenna, íslenskukennari í menntaskóla og höfundur kennslubóka.

Mér finnst raunar fagþekking kennara algjör forsenda fyrir því að hægt sé að ímynda sér að ná árangri í kennslu og ég myndi aldrei gera lítið úr mikilvægi fagþekkingar kennara. En samt fann ég ekki þörf fyrir að bæta við mig formlegri menntun í íslensku – enda í ævilangri símenntun á því sviði!

Ég fann hins vegar að mig langaði að finna nýjar leiðir til að nálgast kennarastarfið, nýjar leiðir til að hvetja nemendur, hjálpa þeim að setja sér raunhæf markmið í náminu og finna leiðir til að ná markmiðunum. Sömuleiðis langaði mig að halda áfram að þróa hugmyndir um lækningamátt þess að skrifa um eigið líf, en ég lít svo á að allar sjálfsævisögur séu að minnsta kosti öðrum þræði sjálfshjálparbækur höfundanna, það að skrifa um eigið líf hafi í sér fólginn mikinn græðandi mátt.

Svo ég fór að líta í kring um mig – og þá datt ég fljótlega niður á NLP. Það var ekki síst áhersla NLP á tungumálið sem ég féll fyrir og þar nýtist bakgrunnur minn í textagreiningu og túlkun vel. Ég byrjaði á að fara á námskeið hér í Reykjavík, hjá Kára Eyþórssyni sem hefur langa reynslu sem NLP-leiðbeinandi. Og til að bæta við mig fór ég svo til Kaliforníu, en NLP er auðvitað ættað þaðan eins og svo margt í óhefðbundna geiranum! Þar lærði ég hjá tveimur kennurum, amerískum og hollenskum. Þau starfa í samvinnu við Richard Bandler.

Eins og ég tók fram í upphafi lít ég ekki svo á að ég geti læknað kvilla fólks. Það eina sem ég geri er að leiðbeina fólki við að hjálpa sér sjálft við að gera það sem það langar að gera til að bæta líf sitt á þann hátt sem það vill.

 

Að lokum langar mig að nefna nokkur dæmi um breytingar sem aðferðir NLP duga vel til að koma á.

1. NLP er gott tæki til að styrkja jákvæða sjálfsmynd. Mjög mörgum veitir ekki af því og geta notið mun árangursríkara og skemmtilegra lífs með jákvæðari sjálfsmynd.

2. NLP er gott verkfæri til að ná tökum á eigin þyngd, til dæmis með því að losa sig við ósiði tengda áti og tileinka sér mataræði sem við vitum að er hollt og árangursríkt, þótt vitneskjan ein dugi ekki alltaf til að breyta mataræðinu.

3. NLP er árangursríkt til að bæta samskipti við aðra, oft kemur til dæmis upp þörf fyrir að bæta samskipti við unglinginn á heimilinu og margir upplifa núning í samskiptum á vinnustað, til dæmis milli undirmanna og yfirmanna.

4. NLP er öflugt tæki til að losa um og losna við neikvæðar tilfinningar sem tengjast upplifun í fortíðinni og sem gera okkur erfitt fyrir í nútíðinni.

5. NLP er gott að nota til að draga úr hamlandi kvíða.

6. NLP er gagnlegt til að vinna úr innri togstreitu sem veldur því oft að það er ekki hægt að taka ákvörðun. Dæmi um slíka togstreitu gæti verið: Hluti af mér vill flytja út á land þar sem ég veit að lífið er rólegra og það er auðveldara að vera með börn, en að vissu leyti langar mig til að vera áfram í Reykjavík og taka þátt í því sem borgin býður uppá. Eða hluti af mér vill skipta um vinnu og prófa eitthvað nýtt – meðan hluti af mér þorir ekki að sleppa örygginu. Viðkomandi geta talið upp kosti og galla beggja valkostanna en NLP getur hjálpað við að taka rétta ákvörðun og halda áfram.

7. NLP reynist vel til að losa sig við fóbíur sem draga úr lífsgæðum manns.

Ég vona að þetta stutta yfirlit hafi gefið lesendum einhverja hugmynd um aðferðir og möguleika NLP.

Grein frá árinu 2010 höfundur :  Ragnheiður Richter    Netfang: rar@mh.is



Flokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , , , , ,

%d bloggers like this: