Öll eldumst við! Ekki þarf að orðlengja um það. En hvað ber ellin í skauti sér? Ég segi fyrir mína parta að ég hafði ekki leitt hugann sérstaklega að því fyrr en nýlega og ég gerði það vegna þess að hjá því verður einfaldlega ekki komist standi maður á annað borð í þeim sporum sem ég stend nú í, m.ö.o. er ég tilneyddur að leiða hugann að mínum eigin efri árum þessa dagana. Þannig er málum háttað að ég verð að vinna meðfram náminu til að ná endum saman í lífsgæðakapphlaupinu og ég réði mig því í vinnu á einu af öldrunar- og hjúkrunarheimilum borgarinnar.
Ég vil hvorki fara að þreyta lesendur með því að fjölyrða um þær þjóðfélagsbreytingar sem leitt hafa af sér uppskiptingu stórfjölskyldunnar og yfirfærslu ellinnar frá heimilunum inn á stofnanir, né íþyngja þeim með laga- og reglugerðahjali um skyldur og réttindi sjúklinga en þó vil ég að það komi fram að samkvæmt þeim lögum eiga sjúklingar rétt á ,,fullkomnustu þjónustu sem völ er á“ og einnig það að sá einstaklingur sem er vistmaður á fyrrnefndri stofnun er samkvæmt laganna skilgreiningu sjúklingur óháð heilsufari hans frá degi til dags.
Vistmenn á svona stofnunum eru þó mjög misjafnlega á vegi staddir heilsufarslega og ein og sama stofnunin getur haft á sínum snærum allt frá þjónustuíbúðum til líknardeilda og jafnvel lokaðar deildir fyrir heilabilaða eða geðsjúka einstaklinga. Þannig að ljóst má vera að þarfir vistmanna eru mjög misjafnar bæði milli deilda og svo innan þeirra. Ég hef unnið á tveim mjög ólíkum deildum, annars vegar á hjúkrunardeild og hins vegar á heilabilunardeild þar sem ég vinn núna. Munurinn felst aðallega í því að á hjúkrunardeild eru vistmenn rúmliggjandi að mestu leyti og þurfa aðstoð við allar sínar þarfir.
Á heilabilunardeild eru hins vegar nánast allir vistmenn á fótum og margir hverjir eru að einhverju leyti sjálfbjarga eða þurfa minni aðstoð en á hjúkrunardeild með flestar þarfir s.s. að borða, fara á klósettið, klæða sig og hátta sig en eru nokkuð langt leiddir af ýmsum heilabilunum, mislangt þó. Sá maður yrði seint tilnefndur til Nóbelsverðlauna í hagfræði sem héldi því fram að elliheimili væru arðbærar stofnanir og þjóðhagslega hagkvæm fyrirbæri. Staðreyndin er sú að það er bara kostnaður sem að þessu hlýst. Sá póll hefur augljóslega verið tekinn í hæðina að spara og þetta varð mér ljóst strax og ég hóf störf á elliheimilinu og þá fyrst í því hversu undirmannaðar vaktirnar eru yfirleitt, sérstaklega ef veita ætti vistmönnum ,,fullkomnustu þjónustu sem völ er á“.
Til að myndskýra hvernig þessi sparnaðarstefna okkar sem erum ,,virkir þjóðfélagsþegnar“ birtist ætla ég að greina frá tveimur dæmum, einu af hvorri deild sem ég hef unnuð á. Á hjúkrunardeildinni lá maður þegar ég byrjaði að vinna sem mér var sagt að væri gersamlega út úr heiminum, blindur á báðum augum um nokkurt skeið, einungis með takmarkaða heyrn á hægra eyra og sennilegast með Alzheimer-sjúkdóminn. Ég trúði því! En eftir að hafa unnið þarna í nokkrar vikur komst ég að því að vel var hægt að tala við manninn.
Hann var hreint ekki með Alzheimersjúkdóminn. Hins vegar hafði maðurinn verið einangraður frá umheiminum í nokkur ár, hvorki heyrt né séð og ekki átt samskipti við nokkurn mann. Lokaður inní sjálfum sér. Hvað mundir þú gera ef svona væri fyrir þér komið? Ég veit að ég mundi fara mjög svipað að og sá gamli. Hann hafði ofan að fyrir sjálfum sér; talaði oft mikið við sjálfan sig og stundum hafði hann augljóslega gesti og bauð þeim auðvitað gistingu. Í eitt skipti var hann í göngum í leit að kindum upp á heiði og viðhafði þá tilheyrandi lófaklapp, hróp og blístur. Stundum æpti hann bara æ,æ,æ,æ eða hjálp, hjálp! Og ef maður kom og kallaði í eyrað á honum og spurði hvað væri að, svaraði hann oftast bara: ,,HA“, að mér? Ég veit það nú ekki!!
Hann kunni nánast öll þau sönglög sem nöfnum tjáir að nefna og sungin hafa verið á mannamótum hérlendis og ef maður fór hátt og skýrt með fyrstu línuna úr t.d. vísum Íslendinga í eyrað á honum söng hann það undantekningarlaust allt til enda, öll erindin! Auk þess mundi hann kennitöluna sína, hann var ekki kalkaðri en svo. Herbergisfélagi mannsins kunni þessum ,,hamagangi“ illa, sérstaklega á nóttunni því hann gat lítið sem ekkert sofið þær nætur sem sá blindi og heyrnadaufi átti annríkt.
Bar hann kvartanir sínar upp við starfsfólkið á deildinni og vænti þess að ráðin yrði á þessu bót. Hann sagði mér að hann skildi vel hvers vegna maðurinn léti svona en hann ætti nú samt sem áður heimtingu á því að fá svefnfrið um nætur. Hvernig var svo málið leyst? Ákveðið var að gefa þeim blinda svefnlyf, róandi lyf og sterk verkjalyf með kvöldkaffinu til að gera honum nú ævikvöldið sem bærilegast. Dag einn kom ég með heyrnatól í vinnuna og spurði þann gamla hvort hann vildi fá heyrnartólin lánuð svo hann gæti hlustað á útvarpið.
Hann svaraði því til að ,,það væri óþarfi fyrir mig að gera mér rellu út af honum, en hann þakkaði mikið vel fyrir allt sem gert væri fyrir hann hér“. Ég tengdi heyrnatólin, stillti á Gufuna og hækkaði í botn. Hann varð heldur betur hissa þegar hann heyrði stefið á undan fréttunum og hlustaði af mikilli athygli á þá furðuatburði sem fréttnæmir voru þann daginn og ekki leiddist honum heldur að heyra íslenskan sönglagaþátt síðar sama dag.
Þetta var einn af þeim dögum sem hann var til friðs. Hitt dæmið er af heilabilunardeildinni. Sá vistmaður sem þar á í hlut gerist nú nokkuð aldraður en hann er fæddur 1906 og verður því 99 ára síðar á árinu. Hann er haukfránn og léttari á sér en gengur og gerist þegar menn nálgast tírætt en heyrir illa og aðeins með hægra eyranu. Hann á það til þegar honum leiðist að príla upp í gluggakistur eða upp á stóla til að gægjast út því hann er fremur lávaxinn. Stundum er hann ljúfur sem lamb og gerir allt sem honum er sagt en stundum verður hann önugur og viðskotaillur og hefur þá hátt og skipar heilabiluðu sambýlisfólki sínu fyrir verkum en hann vann áður sem verkstjóri.
Aðrir vistmenn ná margir hverjir samhengi í nokkur augnablik og æsast allir við dónaskapinn í kallinum og ef ekki er gripið í taumana fljótlega getur allt farið í bál á brand og allir vistmennirnir eru orðnir taugaveiklaðir og æstir og muna ekki hvers vegna. Nokkrir svipaðir vistmenn eru á deildinni og vitað er um gott fyrirbyggjandi ráð við þessum geðsveiflum þeirra en það er að fara með þá í göngutúr. En því miður gefst sjaldan færi á að stunda þá iðju sökum þess að maður getur ekki leyft sér að fara út af deildinni þegar á vakt eru kannski 3-4 starfsmenn en 22 vistmenn. Í þau fáu skipti sem farið hefur verið með fólkið í stuttan göngutúr í hverfinu hefur árangurinn ekki látið á sér standa.
sefur betur þ.e.a.s. það vaknar síður á nóttunni, það borðar betur, er rólegra og glaðlyndara og einnig þarf sjaldnar að grípa til róandi lyfja til að það sé viðráðanlegra. Að mínu mati þyrftu að vera 2-3 starfsmenn um hverja 5 vistmenn á svona deild ef nálgast ætti það markmið að veita þessum sjúklingum fullkomnustu þjónustu sem völ er á. Ég veit það af eigin raun að starfsfólkinu tekst með naumindum að veita fólkinu lágmarksumönnun sem það þarf og sáralítið umfram það enda ekki mannskapur til annars. Ég er annað slagið spurður hvort ég sé að vinna og ef svo er, þá hvar? Ég svara því þá til að ég vinni á elliheimili og það skal aldrei bregðast að fólk spyr þá um hæl og eins og undir rós: Hva? Ertu þá að skeina og svoleiðis? ,,Já“ segi ég. Fólkið veit þá ekki alveg hvað á að segja næst, en af svipbrigðunum er augljóst um hvað það hugsar.
Heyrnartólin sem ég minntist á hér áðan átti ég ekki sjálfur heldur yngri bróðir vinar míns og bjó fjölskyldan stutt frá elliheimilinu. Ég hafði beðið hann um að fá þau lánuð áður en ég fór í vinnuna og hann gerði það. Svo hringir litli strákurinn í mig seinna um daginn og spyr mig hvort ég ætli nokkuð að setja heyrnatólin á gamalt fólk. Ég svaraði játandi en þá bað hann mig að sótthreinsa þau áður en ég skilaði þeim og ég lofaði því. Svo virðist vera sem kúkur og farsóttir séu það fyrsta sem fólki kemur til hugar þegar það hugsar um gamalt fólk og elliheimili og gæti það útskýrt að hluta hvers vegna svo margir vistmenn hafa því sem næst verið yfirgefnir af ættingjum sínum og afkomendum, þá einkum og sér í lagi þeim yngri.
Það heyrir til undantekninga ef ættingjar eru duglegir að heimsækja öldruð skyldmenni sín. Ég hef hvorki þeirri þekkingu né reynslu til að dreifa sem þarf til að fara fagmannlega ofan í saumana á málefnum aldraðra en tel samt að ég hafi með þessum skrifum mínum staðið fyrir nokkurs konar jafningjafræðslu og vonandi vakið einhvern til umhugsunar um sín eldri ár eða það sem er aðeins nær okkur í tíma að sum okkar koma til með að þurfa að koma foreldrum sínum fyrir á svona stofnun! Hvernig umönnun og þjónustu viljum við að foreldrar okkar fái eða við sjálf þegar þar að kemur? Og síðast en ekki síst, hvað má það kosta? Hluti af þessari grein var birt í stúdentablaði Morgunblaðsins síðastliðið vor, en er hér birt í fullri lengd með leyfi höfundar.
Friðrik Rúnar Garðarsson 2005
Flokkar:Reynslusögur