Rætt við Guðnýju Arnbergsdóttur um árulestur
Oft höfum við séð auglýsingar um að lesið sé úr áru fólks. Þessir aðilar segjast sjá liti og orkublik annarra. Flestir þeirra munu aðeins treysta á eigið innsæi og dulræna hæfileika. Orkublikið sem umlýkur líkamann kallast ára og myndast af rafbylgjum sem líkaminn sendir frá sér. Á seinni árum hefur færst í vöxt að notaðar séu myndavélar í þessum tilgangi. Kirlian ljósmyndtækni hefur nú verið notuð í heiminum í marga áratugi. Tölvutækni nútímans hefur auðveldað og gert þessa tækni markvissari.
Rannsóknir á rafsegulsviði líkamans hafa leitt í ljós að mæla má orkusvið líkamans sveiflast á mismunandi tíðni og hraða. Til að mynda þessa útgeislun verður að nota myndavél sem mælir sveifluvídd orkusviðsins, greina hana niður og umbreyta henni í liti sem samsvara tíðni orkusviðsins. Litir orkubliksins geta verið breytilegir frá einum tíma til annars, þó eru sjaldnast miklar breytingar á stuttu tímabili, nema þegar breyting verður á hugarástandi. T.d. verður rauður litur áberandi sé viðkomandi reiður eða í æstu skapi, en rauður litur getur líka merkt mikið úthald, orku og mikla skapsmuni til að koma á breytingum.
Þannig segja árulitirnir til um okkar andlega orkusvið og skapandi eiginleika. Fyrir fimmtán árum fór Guðný á sýningu í Bandaríkjunum og sá þar myndavél til að taka myndir af áru fólks. Sjálf hafði hún frá ungaaldri verið gædd þeim eiginleika að sjá liti og blik í kringum fólk. Myndavélin vakti því strax áhuga hennar, þó trúði hún því varla að vélin væri eins fullkomin og sölumaðurinn tjáði henni. Hún lét taka mynd af sér en fannst ekki ein mynd sanna neitt svo hún fór aftur stuttu seinna í aðra myndatöku til að reyna að átta sig á hvort eitthvað væri að marka þetta. Í seinna skiptið hitti hún konu á staðnum sem var nokkuð við skál. Sú sagðist vera að koma í þriðja skipti í sömu erindagjörðum og nú vildi hún sjá hvort munur væri á myndum af sér ölvaðri og þeim tveimur myndum sem teknar höfðu verið teknar af henni áður allsgáðri. Guðný var undrandi þegar hún sá myndir konunnar því að þær voru töluvert ólíkar.
Fyrri myndirnar sýndu fjólubláa og græna liti sem bera vott um dulræna eiginleika og andlegan þroska. En á þriðju myndinni bar mikið á rauðum lit sem getur táknað reiði og æsing. Þetta sannfærði Guðnýju um að myndavélin væri trúverðug og fór hún heim með sjöundu vélina sem framleidd var af þessari gerð. Guðný segir flesta koma bara af forvitni í svona myndatöku en stundum sé hægt að hjálpa fólki með því að benda á að litirnir í áru þess sýni að það hafi hæfileika til verka sem það hefur ekki áttað sig á.
Komið hefur fyrir eftir árulestur að sumir hafi getað virkjað þessa duldu hæfileika þegar þeim hefur verið bent á þá eiginleika sem þeir búa yfir. Myndirnar eru teknar af efrihluta líkamans niður fyrir sólarplexus og til að útskýra fyrir mér hve orkublik fólks getur verið ólíkt, sýndi Guðný mér myndir af fjórum manneskjum sem allar voru með afar ólíka útgeislun. Í kringum eina þeirra var mikið fjólublátt blik. Um aðra voru áberandi rauðir litir. Þriðja var með bæði græna og bláa liti. En sú fjórða með mest ráðandi gulan lit. Guðný túlkar litina samkvæmt kenningum Edgars Casey.
Rauður: Ásamt því sem áður hefur komið fram bendir hann á lífskraft og líkamlega heilsu..Appelsínugulur: Litur lækningamáttarins. Ef mikið er um litinn er það tákn um náttúrulækningamátt viðkomandi og einnig getur hann þýtt að sá sé að bæta heilsu sína. Gulur: Er tákn um persónulegan styrk eða visku og greind. Grænn: Tákn um náin tengsl líkama og sálar. Einnig um aukinn þroska eða breytingar í náinni framtíð. Blár: Ber vott um mikla ákveðni og ríka sköpunargáfu. Er oft til marks um sköpunargleði. Fjólublár: Sýnir dulræna hæfileika og gefur til kynna að andlegt ástand viðkomandi sé líklega að breytast. Hvítur: Hvítt merkir þroskaða manneskju, sem hefur hæfileika til að beina orku sinni á þann veg sem hann vill, hvort sem er innan eða utan líkamans. Guðný hefur ásamt manni sínum Ægi Bessasyni rekið Heilsubúðina á Reykjavíkurvegi 62 síðastliðin 20 ár. ………
I.S. 2004