Ég fór í sextugsafmæli vinkonu minnar rétt fyrir jólin, þar sem borðin voru sigin af gómsætum kræsingum. Þegar ég var búin að hrúga á diskinn minn ýmsu, sem ég neyti ekki daglega og rétt að byrja að spæna það í mig, kom Kristín Friðriksdóttir og settist hjá mér. Hún spurði hvort ég hefði einhvern tíman prófað að drekka heimapressaða grænmetis- og ávaxtasafa mér til heilsubótar. Nei það hafði ég ekki gert og átti ekki einu sinni safapressu. Hún fór þá að fræða mig á því hve slíkir safar væru búnir að gera henni gott. Hún sagðist hafa unnið í vaktavinnu árum saman og það reyndi afar mikið á heilsuna. Fyrir þremur árum byrjaði hún að pressa sér ávaxtasafa og fann strax að þeir gerðu henni gott. Nokkru seinna byrjaði hún einnig að nota grænmeti í safana.
Árangurinn sýndi sig fljótt með bættri líðan, sem enn þá varð betri er hún fór að pressa safa úr hveitigrasi sem hún keypti í Lambhaga og einnig er hægt að fá í Heilsuhúsinu. Kristín ráðlagði mér eindregið að prófa safana sjálf og bauðst til að koma heim til mín með safapressuna sína til að kenna mér handtökin. Yfir jólahátíðina velti ég fyrir mér hvort ég ætti að þiggja boð Kristínar. Ég varð alveg undrandi á nýársdag, þegar ég fékk ótvíræða ábendingu um að það skyldi ég gera. Þá kom bréf frá vinkonu minni sem býr í Portúgal, hún sagði að í byrjun september hafi þau hjónin ákveðið að breyta neysluvenjum sínum og hætt að borða kjöt nema kjúklingakjöt stöku sinnum, einnig hafi þau hætt að drekka kaffi, bjór og gos, en drykkju mikið vatn í staðinn. Flest brauð væru líka á bannlista.
Í staðinn borðuðu þau lífrænt ræktað grænmeti og heimapressaðan grænmetis og ávaxtasafa úr appelsínum, gulrótum, engifer, brokkáli, spínati og rauðrófum. Hún sagði það hafa verið eins og við manninn mælt að stuttu eftir mataræðisbreytinguna hafi nánast horfið af henni húðsár sökum psoriasis, sem hefur þjáð hana frá ungaaldri. Einnig sagði hún að maðurinn hennar sem hefði tekið inn lyf gegn sykursýki og of háum blóðþrýstingi, hefði fjórum mánuðum eftir fæðisbreytinguna ekki lengur þurft á lyfjum að halda. Sjón þeirra beggja væri betri nú en áður.
Safinn pressaður
Kristín kom ásamt móður sinni Maríu Árnadóttur með safapressu og hakkavél til að kenna mér handtökin. Hún byrjaði á því að bursta og hreinsa vel grænmetið, sem hún pressaði með hýðinu. Skar það svo niður í passlegar lengjur fyrir vélina. Kristín notar svipaðar tegundir og vinkona mín en segir að fólk hafi um margt að velja. Í þetta skipti valdi hún:
1 poka af gulrótum,
1 rauðrófu,
1 gúrku,
1. stöngul af sellerý,
1. lítinn bút af engiferrót,
1. epli,
brúsk af steinselju,
brúsk af spínati,
1/2vatnsmelónu.
Þegar hún var búin að pressa safann úr þessu öllu sem var á meira en tveggja lítra flösku, tóku þær mæðgur til við að hakka hveitigrasið og pressa svo úr því safann. Fengist hafa sérstakar kvarnir sem ráða við að pressa safa úr grasi, en voru uppseldar um þetta leyti. Venjulegar safapressur ráða ekki við að pressa gras.
Læknaðist af síþreytu
Kristín lánaði mér bókina; ,,The Juice Ladys Guide to Juicing for Health, eftir Cherie Calbom. Tölvuslóðin http://www.penguinputnam.com er gefin upp í bókinni.“ Bókin gefur margvíslegar upplýsingar, t.d. segir hvaða efni eru í hverri jurt og hvaða þarf að forðast varðandi hvern sjúkdóm. Leiðbeiningar eru um hvaða tegundir virka best gegn hverjum sjúkdómi. Höfundurinn átti við veikindi að stríða frá barnæsku. Þegar hún var um þrítugt var hún búin að vera illa haldin af síþreytu í mörg ár en fékk enga úrlausn hjá læknum.
Enginn þeirra lækna sem hún leitaði til spurði hana á hverju hún nærðist. En hún segist sjá það nú að næring hennar á þessum tíma hafi verið svo óhollt að hún hefði hæglega getað drepið heilbrigða, stælta górillu. Hún segist hafa elskað alslags ruslfæði eins og sælgæti, gosdrykki, ís, feitan- og saltan mat. Hún leiddi ekki hugann að því að samhengi væri með næringu og heilsufari. Enda uppskar hún þráláta síþreytu, sem líktist óendanlegri flensu með viðvarandi verkjum. Svo kom að því að hún rankaði við sér og minnkaði sætindindaneysluna og henni leið betur.
Frænka hennar ráðlagði henni að taka inn vítamín og steinefni. Þá merkti hún samstundis aukna orku. Síðan rakst hún á bók í heilsuvöruverslun. Kenningar bókarinnar bentu afdráttarlaust til að Cherie neytti rangrar fæðu og að líkami hennar þarfnaðist heilnæmrar fæðu. Sagt var nauðsynlegt að hreinsa út öll eiturefni sem hlaðist hefðu upp í líkamanum og bent á grænmetisföstu. Þar sem Cherie var á þeim tíma orðin óvinnufær vegna þreytu ákvað hún að eyða þremur mánuðum í að prófa kenningar bókarinnar. Hún byrjaði á fimm daga grænmetisföstu. Eftir það valdi hún sér heilnæmt fæði eins og lífrænt ræktað grænmeti, salat, korn með hýði, fisk, kjúklinga og egg. Árangurinn að þremur mánuðum liðnum var stórkostlegur.
Henni hafði aldrei á ævinni liðið eins vel. Þrátt fyrir að hún lofaði og prísaði þennan kúr sem bestu aðferð til heilsubótar sóttu neysluvenjur hennar í gamla farið og smátt og smátt fóru gömlu sjúkdómarnir að þjá hana. Þá gerði hún sér grein fyrir að hún yrði að breyta um lífsstíl. Þaðan í frá hefur hún alfarið haldið sig að hrásöfunum og heilnæmu fæði og nú spyr fólk hana hvaðan hún fái alla þá orku sem hún býr yfir. Þessi umbreyting á heilsu Cherie var til þess að hún fékk löngun til að láta aðra njóta reynslu sinnar. Hún fór í nám og varð master í næringarfræði því að hún vildi vera fær um að gefa fólki réttar leiðbeiningar. Áður en náminu lauk var hún farin að vinna við að kynna gagnsemi hrárra grænmetissafa og nú er hún þekkt sem ,,djús konan“ (the jucie lady)………
Höfundur: Ingibjörg Sigfúsdóttir viðmælandi Kristín Friðriksdóttir
Flokkar:Næring