Mataræði og vímuefnaneysla

Það var árið 1980 að ég fór á mitt fyrsta matreiðslunámskeið í heilsufæði í Kaupmannahöfn. Þetta var námskeið í Makróbíótískri matargerð þar sem kennt var að elda úr baunum og hýðishrísgrjónum og þara og búa til Tófú og nota allskonar hráefni sem bar undarleg nöfn. En stór þáttur í þessu öllu saman var heimspekin á bak við matargerðina. Macrobiotic = stórt líf. Mér fannst þessi heimspeki vera mjög áhugaverð. Þar er mikið talað um Yin – hið útvíkkandi afl og Yang – hið samandragandi afl. Í mataræðisþættinum var teiknuð mynd upp á töflu þar sem þessi heimsspeki var útskýrð með mataræðið í huga. Þar var sagt að allur matur hefði bæði þessi öfl í sér, bara í mismiklu mæli.

Yin – Jafnvægi – Yang
Við byrjum á yin = útvíkkandi þættinum og byrjum að telja upp það sem er mest útvíkkandi og svo fer það minnkandi: Eiturlyf – lyf – áfengi – vín – sígarettur – kaffi -sykur – jurtate – þurrkaðir ávextir- krydd – Svo teljum við upp það sem er í hvað mestu jafnvægi: ávextir – ber – grænmeti -heilt korn -baunir – spírur – tofu – hnetur og möndlur – fræ -þari Svo sá samandragandi, við byrjum á því sem er minnst samandragandi og svo eykst það: mjólkurvörur- ostar – fiskur – reyktur fiskur – ljóst kjöt -dökkt kjöt – egg – salt, Heimsspekin sagði að best væri að sá matur sem við neyttum dagsdaglega væri sem mest úr jafnvægisflokknum. Það myndi síðan hjálpa okkur að ráða við löngun í ýmsa óhollustu hvort heldur væri matur eða áfengi .

Því líkaminn væri svo fullkominn að hann leitaðist alltaf við að mynda jafnvægi sjálfur. Ef við værum t.d. að borða mikið kjöt myndi það ósjálfrátt kalla á áfengi eða sykur.

Samanber nautasteik og rauðvín. Þá væri líkaminn að mynda jafnvægi en það jafnvægi væri í smá öfgum og því ekki eiginlegt jafnvægi heldur væri boltanum kastað öfganna á milli til að mynda jafnvægi. Því væri lang best að hafa 90% af fæðunni úr jafnvægis flokknum. En hér skal skýrt tekið fram að þetta er mikil einföldun á þessari annars yfirgripsmiklu heimspeki því margir aðrir þættir spila hér inn í svo sem aldur og kyn og árstím og athafnarsemi og landfræðileg staðsetning og margt fleira. Það sem kemur upp í huga mér í dag er að það ágæta fólk sem hélt þetta námskeið voru hjón sem höfðu verið hippar af lífi og sál og verið í óhóflegri neyslu á ýmsum vímugjöfum.

Þau vildu snúa blaðinu við, sem þau og gerðu með hjálp ýmissa atriða. Eitt af því sem þeim fannst spila stórt hlutverk var mataræðið. Ef þið þekkið einhvern sem hefur farið í áfengis og/eða vímuefnameðferð, þá spyrjið hann svona til fróðleiks og skemmtunar hvernig þetta hafi verið inni á meðferðarstöðinni. Ég hef gert mínar rannsóknir og þær sína að þegar eiturlyf eða lyf og áfengi /vín er tekið af fólki, þ.e. þegar við fjarlægjum mesta yin´ið úr lífi þess þá sækir það í það sem kemur næst á eftir. og það eru sígarettur og kaffi og sykur.

Ef við síðan skoðum hvernig mataræði unglings er í dag þá sé ég að mikið er um gosþamb og sykurát og neyslu á svo kölluðu skyndibitafæði sem er mikið unnið og inniheldur skammvinna orku. Það sem svo virðist oft gerast er að þau þurfa meira og leita því í næsta þátt fyrir ofan sem eru sígarettur og vín o.s.frv. Ég rakst á grein í blaði fyrir mörgum árum þar sem sagði af ,,vandræðaunglingum í Bretlandi“ sem voru dæmdir til að skipta um mataræði og borða heilsufæði.

Hér er ég bara svolítið að leika mér að klæða þessa heimsspeki um ,,stórt líf“ í föt vímuefnaneyslu og hvað svo sem til er í þessu þá er það mín reynsla að þessar mataræðisleiðbeiningar virka sé þeim fylgt eftir. Sjálf breytti ég um mataræði 1980 og hef fylgt þessum meginreglum eftir í lífi mínu allar götur síðan og er ég blessunarlega laus við allt vímugefandi yin úr lífi mínu meira að segja kaffi og hvítan sykur og það sem ég er þakklátust fyrir er að þetta er algjörlega átakalaust. Mér er ljúft frá að segja að ég er með nokkra menntaskólapilta í föstu fæði hjá mér á Grænum Kosti og sé ég að þar er þessi heimspeki að virka hvort sem það er tilviljun eða ekki. Foreldrar tökum ábyrgð og verum góðar fyrirmyndir. Gangi ykkur allt í haginn

Grænmetispizza: botn:
4 dl spelt eða heilhveiti
3- 4 tsk lyftiduf (vínsteinslyftiduft frá YGGDRASIL)
1/2 – 1 tsk salt
ca 2 dl ab-mjólk eða sojajógúrt og /eða volgt vatn.

Mjöl, lyftiduft og salt er blandað saman í skál, ab-mjókin er hrærð útí, ef deigið er of blautt er smá mjöli bætt útí, ef það er of þurrt er meiri vökva bætt útí – það á aðvera líkt og eyrnaspepill viðkomu. Deigið er síðan flatt út, sett í smurt form og forbakað við ca 200°C í 5 mín.
Fylling:
Tómatmauk (fæst t.d. lífrænn í Yggdrasil) gulrætur eða eitthvað annað grænmeti, sólþurrkaðir tómatar, ólífur, smá salt, ítölsk kryddblanda frá pottagöldrum, rifinn sojaostur. Setjið á pizzabotninn það sem ykkur finnst gott og girnilegt og bakið áfram í ca 10 mín.

Couscous salat – einfalt, fljótlegt og gott
2 b (400gr) cous cous
2 b (500ml) sjóðandi vatn
1 gerlaus grænmetisteningur
úr heilsubúð
1 rauð paprika
1 gul paprika
2 tómatar
1 rauðlaukur
100 gr ólífur
200 gr fetaostur
6-7 sólþurrkaðir tómatar
salatsósa:
3 msk ólífuolía
1 msk sítrónusafi
1 hvítlauksrif, marið
smá ferskt timian eða þurrkað

Leysið grænmetisteninginn upp í sjóðandi vatni, setjið couscousið í hitaþolna skál og hellið vatninu yfir, fínt að setja lok yfir. Skerið grænmetið í fallega passlega munnbita og setjið í stóra skál, blandið couscousinu útí grænmetið. Hristið salatsósuna saman og hellið henni yfir salatið. Þetta getur verið heil máltíð í sjálfu sér t.d. með góðu speltbrauði eða sem meðlæti t.d í staðinn fyrir hrísgrjón með grænmeti eða fiski eða kjöti. Hvað langar þig í?

Hnetubuff
2 b soðin hýðishrísgrjón
100 gr heslihnetuflögur – þurrristaðar á pönnu
100 gr tófú – hellið vatninu frá og léttkreistið mesta
vatnið úr með eldhúspappír
1 tsk salt
1 tsk cuminduft
1 tsk karrý
2 msk tómatpúrré eða sólþurrkaðir tómatar
1/8 tsk cayennepipar
rasp
malaðar hnetur og/eða möndlur
haframjöl
Öllu hrært saman í hrærivél,- mótið lítil buff og veltið upp úr raspi,- steikt á pönnu úr smá ólífuolíu ca 3-4 mín hvor hlið eða þar til buffið hefur fengið á sig gylltan lit. Borið fram með grænu salati og couscous salati.

Hummus eða kjúklingabaunakæfa
3 dl kjúklingabaunir, lagðar í bleyti í 12 klst., eru soðnar í 2 klst með ca 5 cm strimli af kombuþara (beltisþara) Einnig er hægt að nota kjúklingabaunir úr dós
2 msk sítrónusafi
2 msk appelsínusafi
1/2 dl tahini (sesamsmjör sem fæst í heilsubúðum)
2 hvítlauksrif
2 msk tamari sojasósa
1/2 tsk sjávarsalt
cayennepipar af hnífsoddi
1-2 msk ferskur kóríander eða steinselja

Allt sett í matvinnsluvél. Soðið af kjúklingabaununum er notað til að þynna ef að með þarf. Ef kæfan verður of þunn er gott að láta smá sólkjarnafræ eða haframjöl útí til að þykkja. Hægt er að nota hvaða baunir sem í staðinn fyrir kjúklingabaunirnar og heitir það þá Baunakæfa. Einnig er upplagt að prufa aðrar kryddblöndur.

Spelt-pönnubrauð
300 gr spelt eða heilhveiti
2 msk sesamfræ
1 tsk salt
1/2 dl ólífuolía
150 – 175 ml heitt vatn

Blandið saman þurrefnum í skál og nuddið olíunni inní speltið,- bætið vatninu útí,- lítið í einu og hnoðið þar til deigið er mjúkt viðkomu,- einnig er hægt að hræra þetta í hrærivél,- mun auðveldara. Deiginu er skipt í 8 hluta,- hverjum hluta er síðan rúllað út þar til hann er ca. 15-20 cm í ummál,- hitið pönnu og steikið brauðin á þurri heitri pönnu,- ca. 30-40 sek á hvorri hlið eða þar til þau eru orðin gegnum steikt,- tilbúnu brauðin eru sett inn í rakt stykki til þess að þau harðni ekki,- einnig er hægt að baka brauðin í ofni og eru þau
bökuð við ca 250°c í ca 1 mín á hvorri hlið,- gott með hummus og grænmetissalati.

Grænt og gott salat
1 poki græn og góð salatblanda t.d. með klettasalati
1/2 agúrka, skorin í ská strimla
1 avókadó, afhýddur og skorinn í ca 1 cm bita
10 kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
10 grænar ólífur
1 lítill rauðlaukur, skorinn í tvennt og síðan í þunna strimla
25 gr pecanhnetur, þurrristaðar á pönnu
100 gr marinerað tófú – léttsteikt á wok-pönnu –
salatsósa
3 msk ólífuolía
1 msk sítrónusafi
1 tsk sinnep
smá salt og gróftmalaður svartur pipar
ca 10 basilblöð, smátt söxuð
Skolið og þerrið salatið og setjið í skál,- skerið grænmetið eins og lýst og setjið útí ásamt restinni af uppskriftinni,- hægt er að kaupa tófúið tilbúið marinerað en einnig er hægt að hella yfir það 2 msk tamari sojasósu og láta það standa í 15 mín og léttsteikja það svo á pönnunni- salatsósan: allt er sett í krukku með loki og hrist saman og hellt yfir salatið,- þetta er gott bæði eitt og sér og líka með kjöti og fiski og hummus og brauði. – verði ykkur að góðu

Algjört nammi gott fyrir stóra og smáa
1 b blandaðar hnetur
2 stykki hrískökur
ca 15 döðlur
ca 15 aprikósur
50 gr carobella
1 banani
1/2 tsk vanilluduft -hægt að nota vanilludropamylsna úr: smá ristuðu kókosmjöli smá ristuð sesamfræ,- setjið hneturnar og hrískökurnar í matvinnsluvélina og malið frekar fínt,- skerið döðlurnar og aprikósurnar í frekar litla bita og setjið út í matvinnsluvélina,- setjið carobellað í pott og mýkið það smá og setjið síðan útí,- skerið bananann í litla bita og setjið útí ásamt vanilluduftinu,- blandið öllu saman þar til það límist vel saman,- skiptið þessu í ca 8 parta og rúllið flottar lengjur

Milli mála hristingur
2 dl ananas í bitum
2 bananar í bitum
3 dl ab-mjólk eða sojajógúrt – hér er einnig hægt að nota mjúkt -soft- tófú smá ferskur engifer – afhýddur í pínulitlum bitum smá fersk mynta, setjið eldhúsblað í sigti og látið leka af abmjólkinni
í ca 1 klst til að þykkja hana,- allt sett í blandara og blandað, njótið – þessi er frábær bæði sem morgunmatur, hádegishressing, millimála gott og kvöldhressing

Appelsínu og mangó ís
4 appelsínur
4 bananar
1 flaska af mangóogeplasafa – fæst í Yggdrasil og

Heilsuhúsinu eða 1 dl af frosnu appelsínuþykkni frá McCain smá ferskt appelsínukjöt smá þeyttur rjómi eða sojarjómi ef þið viljið,- appelsínurnar eru skornar í tvennt og safinn kreistur úr þeim og tómu appelsínuhelmingarnir eru geymdir,- bananarnir eru settir í blandarann ásamt mangósafanum og smávegis af appelsínukjöti,- ef þið notið þeyttan rjóma þá blandið honum varlega samanvið,- setjið blönduna aftur í appelsínurnar og frystið,- skreytið með hugmyndafluginu,- þennan ís er líka hægt að setja í íspinnabox og er þetta tilvalið að eiga sem eftirmiðdagshressinu fyrir fólk á öllum aldri

Höfundur: Sólveig Eyríksdóttir 2003



Flokkar:Uppskriftir

%d bloggers like this: