Fjölbreytt notkun jurta

Almenn notkun jurta til heilsubótar og lækninga hefur aukist mjög síðustu árin. Margir hafa í gegnum tíðina treyst á og nýtt sér lækningamátt jurtanna meðan aðrir töldu það hjátrú og bábiljur. En nú eru vísindamenn að staðfesta eiginleika margra jurta með háþróaðri tækni, sem gefur þessari merku fræðigrein byr undir báða vængi og þykir mér persónulega mjög spennandi að fylgjast með því. Hér áður fyrr var notagildi jurtanna mjög margþætt og hef ég oft gleymt mér við að grúska í gömlum bókum og bæklingum sem geyma þann fróðleik. Ég ætla svona til gamans að hafa sumt af því hér eftir í þeirri trú að fleiri hafi gaman af. Tek ég þá mið af þeirri árstíð sem nú er og þá hvað fólk gæti átt í fórum sínum eða hvað er hægt að verða sér úti um á þessum árstíma.

Silfurlögur: Aðalbláber og bláber notuðu gullsmiðir í Þrándheimi til að sjóða silfrið í svo það fengi sinn rétta hvíta lit (B.H.). Enga uppskrift hef ég fundið, en trúlega er það bolli af berjum í lítra af vatni og soðið smástund og gildir þá einu hvort berin eru ný eða þurrkuð. Minna þarf þó af berjunum ef þau eru þurrkuð.

Leðurolía: Rússar gerðu svokallað viðsmjör af berki birkisins. Pottur er fylltur af gömlum berki og börkurinn látinn standa upp á endann. Þar yfir er látinn hlemmur með gati og pottinum svo hvolft yfir leirpönnu. Mór var síðan settur í kring svo að gufuna legði ekki út. Þá var kyntur eldur í kringum pottinn og þá rann olían í gegnum gatið á hlemminum og ofan í leirpönnuna. Áhersla er lögð á að börkurinn sé gamall því að nýr gagni ekki. Góð lykt er sögð af olíunni. Þetta er að sjálfsögðu ekki gert inni, en t.d. í bakgarðinum, en það er aftur verra með móinn. Ég læt aðra um að upphugsa hvað gæti komið í staðinn fyrir hann, en það er örugglega hægt að finna út úr því. Kopargrænku á að vera hægt að ná af með því að sjóða stykkið ásamt gorkúlum (Fungus campanulatus), (B.H.).

Reykelsi: Enn er hægt að ná sér í einihríslur. Reykurinn sem kemur af brenndum eini, einiberjum og trénu sjálfu var áður notaður til að hreinsa loft í bæjum. Lyktin er góð, jafnvel jólaleg og þar að auki var sú trú að reykurinn hefði góð áhrif á höfuðþyngsli eða höfuðverk. Einnig var einir brenndur til varnar farsóttum.

Gerir tennur hvítar: Jarðaberjasafi gerir tennurnar hvítar og fallegar, ef hann er látinn verka í 5 – 10 mínútur og síðan á að þvo tennurnar úr volgu vatni, sem í er lítið eitt af uppleystum matarsóda (Á.H.B.). Jurtalitun var almenn og fást mjög fallegir litir þannig. Blek var aðallega búið til úr jurtum, t.d. sortulyngi. Körfur voru fléttaðar úr jarðlægum hríslum. Arfafræin eru góð í hænsnafóður. Þangið var af sumum notað fyrir áburð á tún og garða, en þá eftir að hafa fúlnað yfir veturinn. Reynitrésrætur eru mjög góðar til að skera út litla smáhluti. Þó nokkrar íslensku jurtanna eru góðar til að krydda mat með, sérstaklega lambakjötið, gæsina og rjúpuna. Jurtir voru notaðar nýjar til matar t.d. í salöt og súpur. Þjóðtrúin á líka sinn sess í jurtaflórunni og þar er vægast sagt skemmtileg lesning.

Svona mætti lengi telja, en ég læt hér staðar numið og vona að einhverjir hafi haft gaman af. Heimildir þessar fékk ég úr Riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal og Íslenskri Flóru eftir Ágúst H. Bjarnason. Tilgangurinn með þessum skrifum er að sjálfsögðu ekki að gefa tæmandi yfirlit yfir hina ýmsu nytsemi jurtanna, heldur aðeins smá mynd af því til hve margra hluta þær voru notaðar. Trúlega hefur margt glatast, en það væri ómaksins vert fyrir þá sem geyma slíka vitneskju að koma henni á framfæri. Ekki endilega vegna notagildisins, heldur er þetta hluti af arfleifð okkar sem ég tel að megi alls ekki glatast.

Höfundur: Rannveig Haraldsdóttir, Urðargötu 26, Patreksfirði gustaf@islandia.is



Flokkar:Jurtir

%d bloggers like this: