Eru ýmis ósýnileg svið ógn heilsunni?

Viðtal við Þorstein Guðlaugsson árið 1999
Margir þekkja sögu spákvistanna þegar menn leituðu vatns í jörð með pílviðargreinum. Og trúlega hafa einhverjir lesið um það í dagblöðunum fyrir um tveimur árum, þegar maður fann með tveimur stálprjónum stað fyrir borholu austur á Böðmóðsstöðum í Laugardal og upp kom yfir 100 gráðu heitt vatn. Sá sem á prjónunum hélt heitir Þorsteinn Guðlaugsson, og notar þá líka til að finna strauma frá rafmagni, jarðárum, gervihnattadiskum, ljósleiðurum, GSM-símum og móðurstöðvum þeirra. Að hans sögn eru þessi ósýnilegu svið hinir mestu heilsuspillar. Í eftirfarandi viðtali sagðist Þorsteini svo frá:

Upphaf þess að ég fór að kynna mér áhrif rafsegulsviðs var að okkur hjónunum leið ekki vel í húsinu okkar, og fengum því Brynjólf Snorrason frá Akureyri til kanna hvort orsökin væri af völdum rafsegulsviðs. Brynjólfur var þá orðinn þekktur fyrir rannsóknir sínar á rafsegulsviði. Í framhaldi af þessu fór ég sjálfur að skoða þessi mál, og fólk fór að leita til mín í vandræðum sínum. Ég komst að því, að margir áttu við svipaðan vanda að etja. Þegar ég byrjaði fyrir 12 árum voru það aðallega jarðárur og rafsegulsvið sem við var að fást. En nú er viðfangsefnið orðið stærra og flóknara með tilkomu GSM síma, gervihnattadiska og ljósleiðara. Fjöldi fólks kvartar undan mikilli vanlíðan, bæði líkamlegri og andlegri, sem beint má rekja til þessara umhverfisþátta. Um getur verið að ræða svefntruflanir, minnisleysi, svitaköst, pirring í fótum, vöðvaverki, höfuðverk, verki frá stoðkerfi, síþreytu og margt fleira.

Ég er ekki sammála Geislavörnum ríkisins sem gefa út vottorð um að sendistöðvar GSM-símakerfisins sendi enga geisla frá sér. Ég held að vandinn sé sá, að þeir eigi ekki nógu nákvæma mæla til að nema þessar bylgjur. Erlendis er verið að rannsaka þessi GSM-síma mengunarmál og dómsmál hefur unnist í Bandaríkjunum vegna krabbameins aftan við eyra manns, sem rakið var til notkunar á GSM- síma. Einnig er talið, að krabbamein sem lögreglumenn í Bandaríkjunum hafa fengið í lærin, megi rekja til umferðarhraðamæla sem hengdir eru við belti og hanga niður á læri. Eftir mínum mælingum kemur mikið svið frá sendistöðvum GSM-símakerfisins, einnig frá gervihnattadiskum.

Þetta eru ekki endilega rafsegulsvið í hefðbundnum skilningi þess orðs en einhverskonar svið er þarna á ferðinni. Kvartanir fjölda fólks um ýmsa krankleika sem batna þegar búið er að hefta þessi svið er sönnun þess. Dæmi eru um að fólk hefur fengið síendurtekin hjartaköst af völdum sviðs frá þessum sendum. Þó að læknar hafi rannsakað einstaklingana í bak og fyrir hefur ekkert fundist að þeim. Vanalega hætta hjartaköstin þegar viðkomandi er kominn út úr húsinu. Það er mjög alvarlegt mál að dæmi séu um að slíkum sendistöðvum sé komið fyrir á þaki íbúðablokka og nái þannig að spilla heilsu fjölda fólks, einnig þeirra sem búa í næsta nágrenni og sendingarnar ná til.

Hefur áhrif á allt lífríkið
Hvort sem fólk kýs að kalla þetta strauma, bylgjur eða svið þá er það öruggt að með einum eða öðrum hætti hefur þetta áhrif á allt lífríkið. Ég hef margar sannanir fyrir því og get nefnt mörg dæmi þar um. Fyrir utan að hafa lagað gróðurskilyrði í mínum eigin matjurtagarði, get ég nefnt garð hjá garðyrkjubónda austur í Mýrdal. Hann varð fyrir búsifjum vegna þess hve illa spratt í hluta garðsins. Hann var búinn að láta rannsaka jarðsýni bæði innanlands og utan, en ekkert fannst athugavert. Þegar ég hafði mælt garðinn komst ég að því að þarna var jarðáru um að kenna. Eftir að ég gerði viðhlítandi ráðstafanir grær alls staðar jafnvel í garðinum. Norður í Húnavatnssýslu var bóndi svo slæmur af gigt, að hann komst varla fram úr rúminu á morgnana.

Yfir veturinn var hann með líflömbin í fjárhúsi heima á hlaði. Þegar hann leitaði eftir aðstoð, hafði það gerst mörg undanfarin ár á hverjum vetri að fætur fjögurra til átta lamba lömuðust. Eftir að ég var búin að finna út að þetta var af völdum jarðáru og sviðs frá mastri sem á voru sjónvarpssendar, gat ég ráðið bót á þessu. Heilsa bóndans batnaði og ekkert lamb hefur lamast þau tvö ár sem liðin eru síðan. Síendurtekin júgurbólga er algeng í fjósum þar sem þessi svið ná að trufla. Eftir að fjósin hafa verið löguð hefur frumutala mjólkurinnar orðið eðlileg aftur. Á einum bænum horfði til mikilla vandræða vegna þess að kýrnar beiddu ekki og var bóndinn í þann mund að bregða búi vegna þessa.

En eftir að komist var fyrir ástæðuna sem var rafsegulsviðsmengun í fjósinu komst allt í lag. Skemmtilegt atvik kom fyrir á sveitabæ þar sem ég hafði lagað íbúðarhús og var svo fenginn til að koma nokkrum mánuðum seinna til að athuga fjósið. Húsfreyjan var barnshafandi og segir þegar ég kem. „Ég veit ekki nema að ég rukki þig um barnsmeðlag.“ Að sjálfsögðu vildi ég vita af hverju? Segir hún mér þá að þau hjónin hafi verið búin að reyna í tíu ár án árangurs að eignast barn. En þegar ég hafi verið búinn að lagað húsið hafi barnið komið. Trúlega var það ástæðan fyrir ósk bóndans um að laga fjósið. Þekkt er úr fréttum hvernig Brynjólfur Snorrason hefur lagað fiskeldisstöð hérlendis, þar sem allt var á heljarþröm vegna rafsegulsviðsmengunar.

Hvað ber að varast?
Eftir að ég áttaði mig á því að upphersla í rafmagnstöflum getur komið í veg fyrir svona svið í húsum hefur verið nokkuð auðvelt að koma í veg fyrir að heimilistæki sendi frá sér óæskilegar bylgjur, nema örbylgjuofnar. Þeir eru alltaf varhugaverðir og þarf sérstakar aðferðir til að koma í veg fyrir það. Ef tengingar losna í rafmagnstöflum orsakar það mikið svið frá töflunum. Rafvirkjar viðurkenna það að los víra í rafmagnstöflu getur valdið íkveikju.

Nú er það orðin skylda hjá Rafmagnsveitunni og reglugerð fyrir því að tengja á milli hitavatns- og kaldavatnslagna við byggingu húsa. Fólk í eldri húsum, þar sem slíkt hefur ekki verið gert, ætti að tengja á milli hita- og kaldavatnsinntaka í húsum sínum. Nota má óeinangraðan rafmagnsvír til þess. Þannig er hægt að jarðtengja hitakerfi hússins og koma í veg fyrir að frá ofnum leiði rafssvið. Járn getur hlaðist upp af rafsviði og er einnig mjög móttækilegt fyrir bylgjum sem gervihnattadiskar og GSM-síma sendistöðvar senda frá sér. Þess eru mörg dæmi að fólk sem sefur í járnrúmum verði vart við óþægindi vegna þessa. Gormar í rúmdýnum geta hlaðist upp og valdið veikindum hjá fólki.

Mér hefur sýnst að ekki sé sama hvaða efni séu í rúmdýnunum, sum efni framkalli óæskileg svið komist þau í snertingu við gormana. Skrítið er það, að stundum myndast orkusvið sem valda óþægindum þegar teygju-frotte-lökin eru sett yfir sumar rúmdýnur. Járnrúm og gormadýnur (spring dýnur) er í sumum tilfellum hægt að jarðtengja og komast þannig fyrir vandann. Vert er að minnast á, hve mikið rafsegulsvið myndast oft af vatnsrúmum. Hitaleiðarinn í þeim sendir oft mikið frá sér, og hefur valdið verk hjá mörgum að sofa í vatnsrúmum.

Í framhaldi af þessu vil ég minnast á gerviefni í fötum sem oft er erfitt að vara sig á. Svið getur mælst frá einstaka samsettum fataefnum, sem veldur stundum óþægindum. Ég hef rekið mig á, að margt skrítið getur komið fram sem mann óraði ekki fyrir. Eitt sinn fór systir mín með uppáhalds skóna sína í viðgerð og lét setja undir þá nýjar hælplötur, sem sýndust eins í útliti og þær sem höfðu verið fyrir. En nú brá svo við að henni leið illa í skónum og gat ekki notað þá. Hún spurði mig ráða, og ég gat mælt ákveðna leiðni frá þeim. Ég ráðlagði henni því að biðja skósmiðinn að setja hælplötur úr samskonar efni og væri í sólunum. Skósmiðurinn hló að henni, en gerði samt eins og hún bað um. Eftir breytinguna var allt í lagi með skóna.

Ekki má gleyma að minnast á uppstoppuðu barnaleikföngin með gerviefnunum, sem hafa um árabil valdið svefntruflunum og lasleika hjá mörgum börnum. Fylling margra þessara leikfanga virðist vera eins og móttakari fyrir bylgjur þær og strauma sem um hefur verið rætt. Börn eru næm fyrir rafsegulsviði, sum virðast heyra hátíðnihljóð, önnur sjá eitthvað sem þau hræðast. Einn lítill drengur vildi ekki vera í herberginu sínu, sagði að það væri ljótur karl upp á vegg. Hann hætti að sjá ljóta karlinn, þegar búið var að laga óæskileg svið í húsinu. Austur á Selfossi var 19 mánaða gamalt barn sem ekki hafði sofið heila nótt frá fæðingu, og átt í veikindum sem læknar fundu engin ráð við. Þegar ég athugaði húsið kom í ljós að orsökin var þríþætt. Þar voru jarðárur, rafsegulsvið og bylgjur frá gervihnattardiski. Eftir að þetta var allt lagað hefur barnið sofið á hverri nóttu og heilsast vel. Einnig geta rafsegulsvið sem myndast í bílum haft slæm áhrif á börn.

Með hverju er lagað?
Sérstök efnasamsetning sem ég er búinn að finna upp og steypi í hólka úr ryðfríu stáli, upphefur þessa jarðgeisla. Gegn geislum frá gervihnattadiskum og frá GSM-símasendum nota ég sérstakar spólur úr koparvír. Oft er hægt að komast fyrir þessa geisla í álklæddum húsum með því að jarðtengja álklæðninguna, en það kemur ekki í veg fyrir að rafsvið myndist innandyra, ef rafmagnstöflurnar eru óupphertar. Þau eru merkileg þessi svið. Ég er búinn að reyna mörg efni og margar aðferðir gegn þeim, sem hafa dugað í stuttan tíma, endingin er ekki nógu góð. En nú held ég að ég sé búinn að finna efnasamsetningu sem dugar gegn þessu til lengri tíma.

Skráð af Ingibjörgu Sigfúsdóttur árið 1999

 



Flokkar:Umhverfið

%d bloggers like this: