Náttúrleg aðferð til skipulagningar barneigna

,,Natural Family Planning“ eða „Náttúruleg aðferð til skipulagningar barneigna“ er aðferð sem hefur verið þekkt síðan um 1950, en á undanförnum árum hafa vinsældir þessarar aðferðar stöðugt aukist þar sem fleiri og fleiri konur og pör eru óánægð með þær hefðbundnu getnaðarvarnir sem boðið er upp á. Hefðbundnar getnaðarvarnir byggja á þeirri hugmynd að parið sé stöðugt frjósamt, og að getnaðarvarnir skuli notaðar stöðugt til að koma í veg fyrir getnað.  Það að nota getnaðavarnir stöðugt er vissulega áhrifaríkt, en mörgum getnaðavörnum fylgir viss heilbrigðisáhætta og oft draga getnaðarvarnirnar úr ánægju ástarlífsins

Vegna þessara þátta þá eru mörg pör farin að leita nýrra leiða, og leita að möguleikum til að varna eða skipuleggja barneignir sínar. ,,Fer-tility Awareness Method“ eða“ meðvituð frjósemi“ byggir á þeirri hugmynd að ef parið og þá sérstaklega konan er meðvituð um tíðahring sinn og lærir að þekkja þær líkamlegu breytingar sem eiga sér stað í kringum egglos, þá sé hægt að varna getnaði með því að nota getnaðarvarnir einungis á því tímabili sem konan veit að hún er frjó, og ekki þurfi að nota þær blint allan tíman.

Það krefst töluverðrar vinnu og þolinmæði af hendi konunnar að læra inn á tíðahring sinn. Hún þarf að mæla líkamshitann á sama tíma á hverjum morgni, hún þarf að fylgjast með útferðinni og breytingum sem verða á henni. Eftir nokkra mánuði, þegar konan er farin að sjá reglu á tíðahringnum og einkennunum sem fylgja egglosinu, þarf hún bara að mæla sig dagana í kring um egglosið og þetta verður minnamál. Nauðsynlegt er að nota getnaðarvarnir allan tímann fyrstu mánuðina eða þangað til að konan er búin að læra á tíðahringinn sinn, en einungis er hægt að nota verjur eða hettu, þar sem pillan og lykkjan hafa áhrif á tíðahringinn og einkenni hans.    Það að vera meðvituð um tíðahring sinn og einkenni hans auðveldar konunni ekki einungis að þekkja frjóu tímabilin sín, heldur lærir hún að þekkja líkama sinn betur og verður meðvitaðri um ef einhverjar óvanalegar breytingar eiga sér stað.

Kona sem þekkir líkama sinn vel verður fyrr vör við óeðlilegar breytingar í brjóstum, blæðingum og útferð, og oft á tíðum getur slík líkamleg meðvitund komið í veg fyrir að sjúkdómar nái að þróast og getur jafnvel bjargað lífi konunnar. Margir halda að eina aðferðin til að finna út hvenær konan er frjó sé að nota ,,almanaks „aðferðina svokölluð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að tímabilið milli eggloss og blæðinga er alls ekki 14 dagar hjá öllum konum. Sumar hafa blæðingar 10 dögum eftir egglos, aðrar 16 dögum seinna. Konan getur því alls ekki vitað hvað langt líður á milli hjá henni og þar afleiðandi hvenær hún er frjó, nema hún hafi fylgst nákvæmlega með einkennum tíðahringsins og skráð þau.

,,Meðvituð frjósemi“ byggir á eftirfarandi atriðum:
1. Mæling á líkamshita. Konan mælir sig á hverjum morgni á hérumbil sama tíma með sérstökum hitamæli sem hefur nákvæman skala, og skráir líkamshitann í sérstaka töflu. Hún mun verða vör við hækkun á líkamshita þegar egglos á sér stað og hitinn mun haldast hár fram að blæðingum en þá lækkar hann. Til að forðast getnað, þá forðast parið að hafa óvarðar samfarir fyrstu þrjá dagana þegar hitinn hækkar.

2. Athugun á útferð. Samband breytinga á slími og frjósemi hefur verið rannsökuð af mörgum, en einna helst af læknunum John og Evelyn Billings, en þau kortlögðu hvernig slímmyndun í leghálsi og leggöngum breytist í tíðahringnum, og hvernig hægt er að þekkja frjósöm og ófrjósöm tímabil. Þessi aðferð er einnig þekkt sem „Billings“ aðferðin. Þegar ekkert egg er þroskað eða tilbúið fyrir frjógun þá er leghálsinn lokaður með slímtappa sem er myndaður úr þykku límkenndu hvítu slími. Þegar þessi tegund er af slími, þá hefur konan litla sem enga útferð.

Þegar egg er tilbúið til frjógvunar þá leysist slímtappinn í leghálsinum upp og annars konar slím er framleitt. Þetta slím er þynnra og líkist hrárri eggjahvítu, það er blautt, glært, teygjanlegt og mjög sleipt. Þetta slím hjálpar sæðisfrumunum að synda upp í legið, og vegna þess að það er meira basískt þá gerir það umhverfið lífvænlegra fyrir sáðfrumumar. Þegar þessar tvær aðferðir eru notaðar saman þá fæst mjög nákvæm mynd af tíðahringnum eða frjósemishringnum, sem væri kannski skemmtilegra að kalla hann, og konan eða parið í sameiningu læra að þekkja frjósöm tímabil konunnar og hvenær getnaður gæti átt sér stað. Þessum greinarstúf er ekki ætlað að kenna „Meðvitaða frjósemi“ heldur einungis gefa smá nasasjón af þessari aðferð. Höfundur getur veitt frekari upplýsingar og séð um að útvega frekara lesefni ef þess er óskað.

Heimildir:
Lesefni fra The Natural Family Planning Centre.   Billings E.L., Billings J.J., et al.  Symptoms and hormonal changes accompanying ovulation. Lancet. 1972; 1:282. Rice P.J., Lanctot C.A., Garcia-Devesa C., Effectiveness of the sympto-thennal method of natural family planning; An intemational study. Int. Fert. 1981; 26:222-230.

Höfundur: Þórunn Björnsdóttir ostiópai  skrifað árið 1996



Flokkar:Fjölskylda og börn

%d