Joð

Joð er frumefni með efnatáknið I og sætistöluna 53 í lotukerfinu. það er öllum spendýrum lífsnauðsynlegt og joðskortur getur leitt af sér ýmsa kvilla. Sérstaklega er joðskortur alvarlegur ófrískum konum og getur leitt til þess að greindarvísitala barna þeirra verði 10 til 15 einingum lægri en ella hefði verið.   

Joð er nauðsynlegt skjaldkirtlinum til að geta framleitt hormón sem kennt er við hann og skjaldkirtillinn hefur oft verið kallaður stýrikirtill (e. mastergland) því hann stjórnar eða styður við starfsemi allra annarra innkirtla mannslíkamans. Ráðlagður dagskammtur (RDS) af Joði hér á landi er 150 míkrógrömm (mcg) á dag fyrir fullorðna en 175 mcg fyrir barnshafandi konur og 200 mcg fyrir konur með barn á brjósti.

Í Bandaíkjunum eru sömu tölur 150, 220 og 290 og í Bretlandi eru þær 150, 200 og 200. Í báðum samanburðarlöndunum eru starfandi læknar sem halda því fram að ráðlagður dagskammtur af Joði sé allt of lítill og í raun sé með honum verið að stuðla að joðskorti. Hinn uppgefni ráðlagði dagskammtur geti hugsanlega dugað fyrir skjalkirtilinn en vanmeti gróflega að allir aðrir kirtlar líkamans þurfi Joð og reyndar allar frumur hans í einhverjum mæli. Joð kemur aðallega úr sjávarfangi. Því lengra sem komið er frá sjó þeim mun minna er af joði í jarðvegi.

Vitað er að Japanir neyta mjög mikils af sjávarfangi og rannsóknir sýna að þeir innbyrði að meðaltali 10 til 15 mg. af Joði með fæðu sinni. Heilbrigðisyfirvöld í Japan miða efri mörk ráðlagðrar joðneyslu við 3 mg. (3.000 mcg) en þau vita vel að eftir því er ekki farið og það virðist ekki hafa nein skaðleg áhrif. Ráðlagður dagskammtur af Joði er þannig 20 sinnum stærri í Japan en í Bandaríkjunum og reyndar hér á landi líka fyrir alla nema ófrískar konur og fyrir konur með barn á brjósti er hann liðlega 10 sinnum stærri.

Joðskortur getur valdið margs konar kvillum og margir þeirra eru ranglega greindir sem eitthvað annað vegna vanþekkingar lækna á mikilvægi joðs fyrir mannslíkamann.

Dr. Ken D. Berry MD er læknir sem starfar í Tennessee í Bandaríkjunum. (drberry.com). Hann er mikilvirkur á samfélagsmiðlum og heldur m.a. úti YouTube rás þar sem hann gefur út vikulega pistla um heilsufars- og næringarmál. Hann er félagi í The American Academy of Family Physicians. Dr. Berry hefur verið gagnrýninn á starfshætti lækna í landi sínu og gaf m.a. út bók sem hann nefndi Lies my doctor told me. Hann hefur gefið út þrjá pistla um joð á YouTube rás sinni, mikilvægi þess fyrir mannslíkamann, fæðu sem er rík af joði, hættu sem stafar af joðskorti og kvilla sem geta fylgt honum.

Hann telur upp níu einkenni sem geta bent til joðskorts. Hann tekur reyndar fram að greiningin geti verið önnur nema þegar um er að ræða bólginn skjaldkyrtil (e: Goiter) en dæmigerð einkenni sem geti bent til joðskorts séu síþreyta, óútskýrð þyngdaraukning, kolvetnafíkn, hárlos, hand- og fótkuldi, þunglyndi, húðþurrkur, heilaþoka og minnisleysi. Hann segir að kvilli sem lýsir sér sem krónískur hand- og fótkuldi hverfi við að taka 1-3 mg. af Joði.

Vefjagigt (e:fibromyalgia) segir hann að sé oft ranglega greind en sé í raun joðskortur. Sama sé að segja um kvilla sem kallaður er trefjaveiki í brjóstum kvenna (e:fibrocystic breast pain). Skv. vefsíðu Mayoclinic.org er orsök þess kvilla óþekkt. Dr. Berry heldur því fram að orsökin sé joðskortur og segir að við að auka daglega neyslu Joðs upp í 1-3 mg á dag hverfi einkenni kvillans. Hann segir reyndar að allir sem hafa eðlilega nýrnastarfsemi geti tekið 1-3 mg. af Joði á dag án þess að taka neina heilsufarslega áhættu.

Joð má taka inn sem fæðubótarefni t.d. með þaratöflum en þari er mjög ríkur af joði. Það má líka taka inn í fljótandi formi og nota þá dropateljara en hver dropi inniheldur u.þ.b. eitt mg. af joði. Joð er sótthreinsandi.

Breski læknirinn Dr. Sarah Myhill MD (drmyhill.co.uk) hefur fjallað mikið um þennan eiginleika í skrifum sínum, m.a. á YouTube rásinni LifeTheBasicManual. Dr. Myhill útskrifaðist með láði frá Middlesex Hospital Medical School árið 1981. Hún rekur eigin lækningastofu í Wales þar sem hún býr. Dr. Myhill og lækningaaðferðir hennar hafa verið mjög umdeildar enda óhefðbundnar. Hún sagði sig úr bresku læknasamtökunum eftir að tvisvar hafði verið kvartað við hana undan því hve fáa lyfseðla hún skrifaði þrátt fyrir mikinn fjölda skjólstæðinga sem skráður væri hjá henni. Tilgangur minn er ekki að afgreiða pillur svaraði hún heldur að halda skjólstæðingum mínum heilbrigðum og ef þeir veikjast, að lækna þá.

Dr. Myhill segir að allir Vesturlandabúar þurfi að taka vel valin og vönduð fæðubótarefni. Ástæðan sé sú að í fæðu Vesturlandabúa vanti mörg nauðsynleg næringarefni vegna þess að þeim sé ekki skilað aftur í jarðveginn sem jurtir séu ræktaðar í. Hvort sem jurtanna sé neytt eða þær gefnar dýrum sem síðan er neytt sé niðurstaðan sú sama og valdi því að ónæmiskerfið veikist með tilheyrandi sýkingarhættu. Við sýkingu sé grundvallaratriði að bregðast strax við og hún ráðleggur mjög stóra skammta af C vítamíni og sé sýkingin í öndunarvegi ráðleggur hún inntöku á joði með því að sniffa það í gegn um saltpípu með grófu Himalaya salti enda drepi joð allar bakteríur og veirur í öndunarvegi og lungum.

Greinarhöfundur hefur reynt þessa meðferð við algengri veirusýkingu og getur staðfest að
einkenni sýkingarinnar hurfu með öllu á nokkrum dögum.

Útdráttur (200) Í Bretlandi og BNA eru starfandi læknar sem telja að yfirvöld stuðli í raun að joðskorti sem getur haft í för með sér margvíslega kvilla og sé hættulegur barnshafandi konum og ófæddum börnum þeirra.

Höfundur: Oddur Einarsson cand.theol og stjórnsýslufræðingur MPA  og áhugamaður um næringarfræði.



Flokkar:Næring

Flokkar/Tögg,

%d bloggers like this: