Skortur á D-vítamíni eykur löngun í áhrif ópíóíða – fæðubótarefni veitir mótstöðu gegn fíkn

Þann 11. júni 2021 birti Almenna sjúkrahúsið í Massachusetts á síðunni ,,Science Advances“, athygliverðar niðurstöður úr nýrri rannsókn sem benda til þess að minnka megi ópíóíðfíkn með því að auka inntöku D-vítamíns. David E. Fisher, læknir og doktor og forstöðumaður rannsóknarstofu ,,MGH’s Cutaneous Biology Research (CBRC)“, lögðu grunninn að núverandi rannsókn. Árið 2007 fundu Fisher og teymi hans að útsetning fyrir útfjólubláum geislum (UV), sérstaklega forminu sem kallast UVB, veldur því að húðin framleiðir hormónið endorfín (sem er efnafræðilega skylt morfíni, heróíni og öðrum ópíóíðum) virkjar sömu viðtaka í heilanum.

Í síðari rannsókn Fisher kom í ljós að útsetning fyrir útfjólubláum geislum hækkar endorfínmagn í músum sem sýna síðan hegðun í samræmi við ópíóíðfíkn. Endorfín er stundum kallað „vellíðunar“ hormón vegna þess að það framkallar tilfinningu fyrir mildri vellíðan. Rannsóknir hafa bent til þess að sumir þrói hvöt til sólbaða og sæki sólbaðsstofur sem speglar hegðun ópíóíðfíkla. Fisher og samstarfsmenn hans giskuðu á að fólk leitaði í UVB geisla vegna þess að það ósjálfrátt þrái endorfín. Mótsögn er í slíku atferli þar sem of mikið sólarljós er aðalorsök fyrir húðkrabbameini, hrukkum og öðrum húðskaða.

Ein af skýringum þess að fólk og dýr leita í sólarljós telur Fisher að UV-geislun sé nauðsynleg til framleiðslu á D-vítamíni, sem líkaminn getur ekki mótað af sjálfu sér. D-vítamín stuðlar að upptöku kalsíums, sem er nauðsynlegt til að byggja upp bein. Í fornöld þegar ættkvíslir manna fluttu norður á bóginn gæti hafa verið þörf á þróunarbreytingu til að knýja þá til að stíga út úr hellunum í sólskinið. Annars hefðu lítil börn látist úr langvarandi skorti á D-vítamíni.

Tilgáta Fisher og félaga er sú að sólarleit sé knúin fram af D-vítamínskorti, með það að markmiði að auka nýmyndun hormónsins til að lifa af og að skortur á D-vítamíni geti einnig gert líkamann næmari fyrir áhrifum ópíóíða og hugsanlega stuðlað að fíkn. Markmið rannsóknarinnar var að skilja samband D-vítamínmerkja í líkamanum og UV-leitandi og ópíóíð-hegðunar.

Fisher og Kemény læknir og doktor í húðsjúkdómafræði við MGH. tóku þverfagleg teymi frá nokkrum stofnunum. Í einum hópi rannsóknarinnar báru þeir saman rannsóknarstofumýs við mýs sem skorti D-vítamín (annaðhvort með sérstakri ræktun eða með því að fjarlægja D-vítamín úr fæði þeirra). Þeir komust að því að með því að breyta D-vítamíngildum breyttist ávanabindandi hegðun. Þegar mýsnar fenu hóflega skammta af morfíni, héldu þær mýs sem skorti D-vítamín áfram að leita að lyfinu, sem var sjaldgæfari hegðun hjá venjulegum músum. Þegar morfín var tekið út var líklegra að mýs með lágt D-vítamíngildi fengju fráhvarfseinkenni.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að morfín virkaði á skilvirkari hátt sem verkjalyf hjá músum sem skorti D-vítamín – það er að segja að ópíóíð sýndi ýkt viðbrögð hjá þessum músum. Það væri áhyggjuefni ef menn ættu í hlut. Dæmi: Sjúkingur sem fer í skurðaðgerð og fær morfín til verkjastillingar eftir aðgerð en skortir D-vítamíni, gæti orðið fyrir ofsafengnum áhrifum morfínsins og líklegra væri að viðkomandi yrði háður því.

Gögn rannsóknarstofuninnar sem bentu til þess að D-vítamínskortur auki ávanabindandi hegðun voru studd með greiningum á heilsufarsskrám. Ein skráin sýndi að sjúklingar með lágt D-vítamíngildi voru 50 prósent líklegri til að nota ópíóíð en þeir sem höfðu eðlilegt magn D- vítamíns og sjúklingar sem skorti mikið D-vítamín voru 90 prósent líklegri. Önnur greining leiddi í ljós að sjúklingar sem greindust með ópíóíðanotkun (OUD) voru líklegri en aðrir til að skorta D-vítamín.

Þegar leiðrétt var D-vítamínmagn sem var ábótavant í músunum snerist ópíóíðsvörun þeirra við og urðu eðlileg. Hjá mönnum er útbreiddur skortur á D-vítamíni sem hægt er að meðhöndla með fæðubótarefnum með litlum tilkostnaði á öruggan og auðveldan hátt. Þó að frekari rannsókna sé þörf, telur Fisher að meðhöndlun D-vítamínskorts geti boðið upp á nýja leið til að draga úr hættu á fíkn og geti eflt núverandi meðferðir gegn röskuninni. Niðurstöðurnar benda til þess að nú sé tækifæri til að hafa áhrif á ópíóíðafaraldurinn.

Fyrirsögn frumgreinarinnar er: Vitamin D Deficiency Strongly Exaggerates the Craving for and Effects of Opioids – Supplements May Help Combat Addiction. Slóðin er: https://scitechdaily.com/vitamin-d-deficiency-strongly-exaggerates-the-craving-for-and-effects-of-opioids-supplements-may-help-combat-addiction/

Þýtt, stytt og endursagt: Ingibjörg Sigfúsdóttir 13.6.21



Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , ,

%d