Líf okkar allra á að byggjast á því „góða, fagra og sanna. “Heilinn með sín viðhorfaforrit getur skapað formin en tilfinningar, næmni, reynsla, ímyndun, innsæi er eitthvað, sem erfitt er að mæla vísindalega, einfaldlega af því að vitundin hlýðir ekki hinum stöðluðu lögmálum efnisheimsins. Tenging huga og hjarta: að samþykkja í hugum okkar, það sem við höldum, að sé rétt, samrýma það skynjun / innsæi hjartans, hvað sé rétt eða satt.
Vitur maður sagði eitt sinn: „ Lengsta leiðin, sem þú ferð á ævinni, er frá heila til hjarta“. Sumir þurfa sífellt að skilgreina allt, rökræða og beita þekkingu sinni, stundum óvægið ef egóið er stórt. Sumir velta vöngum, íhuga frá mörgum hliðum og enn aðrir eiga viðtal við sinn innri mann og náttúruna. Upplifun: persónuleg skynjun á því sem er að gerast. Allt, sem þú veitir athygli, vex. Athyglin viðheldur veruleika þínum. Veruleikinn skapast af viðhorfum. Viðhorfin skapast af reynslu, áföllum, innrætingu, kennslu, mötun.
Hugur okkar, taugakerfi og ónæmiskerfi eru öll samtengd og hafa bein áhrif á úrlestur erfðaefnisins. Upplifun er það, sem líkaminn skynjar, upplifun er bænin, fullvissan og traustið um það, að þú verðir bænheyrður, náir markmiði þínu eða verðir frískur. Tvær megin tilfinningar búa innra með okkur, en þær eru kærleikur og ótti. Viðhorfin til þeirra eru það tungumál, sem skammtafræði líkama okkar túlkar sem veruleika.
Sé trúin / sannfæringin nægilega sterk og árveknin / einbeitni mikil margfaldar það árangur þinn í lífinu. Vísindarannsóknir síðustu ára sýna okkur hve hugsunin, viðhorfin, matur og tenging hins innra við náttúruna og annað fólk hefur mikið að segja.
Tilfinningagreindin ræður miklu um það, hve vel okkur tekst að umgangast hvert annað, lifa í jafnvægi í samfélagi okkar. Þessa greind má þjálfa afar vel á lífsleiðinni, svo framarlega sem við lærum nauðsynlegar aðferðir til þess, séum kærleiksrík, víðsýn, sýnum tillitssemi, samkennd og fáanleg til þess að skipta um skoðun.
Ég óska þér velfarnaðar á lífsleiðinni með einlægri von um, að þú ræktir hæfileika þinn til gagnrýnnar hugsunar í kærleika og samkennd, gleði og hugarró.
Gunnar Rafn Jónsson læknir
Flokkar:Hugur og sál