Streita – vinur í raun!

,,Streita hefur fengið ansi neikvæða umfjöllun og það er kannski eðlilegt því viðvarandi streita getur haft mjög óæskileg áhrif á heilsu. Hafa þarf þó í huga að streita er aðferð líkamans til að bregðast við áreiti og hún er okkur lífeðlisfræðilega lífsnauðsynleg til að takast á við áskoranir lífsins. Við vöknum upp ef við verðum fyrir dálítilli spennu og einbeiting eykst. Það kemur aukin orka í líkamann og við verðum tilbúin til að takast á við hlutina. Ef líkaminn væri ekki búinn þessu viðvörunar- og viðbragðskerfi myndum við sennilega ekki lifa fæðingu af, né færum á fætur á morgnana“.

Þetta segir Kristín Sigurðardóttir slysa-og bráðalæknir um jákvæðar og neikvæðar hliðar streitu. Hér í framhaldi mun hún fræða okkur um áhrif álags og hvíldar og útskýra hvernig við getum aukið virkni hormónsins Oxytoxin.  Gefum Kristínu orðið:

,,Við vorum ekki sköpuð til að vera stöðugt streitt og í ógnarástandi. Það er okkur ekki hollt að streitukerfi líkamans sé virkt langtímum saman. Ef slíkt ástand er stöðugt þreytumst við, einbeiting tapast og hugsun getur orðið erfið og óskýr. Sumir fá líkamleg einkenni, t.d. höfuðverki og vöðvabólgur og áhyggjur geta farið að aukast með hættu á kulnun, kvíða og þunglyndi. Eins og það er gott að hjartslátturinn örvist þegar við þurfum að hlaupa, þá finnum við fyrir því ef hann er viðvarandi, sérstaklega ef við erum í kyrrstöðu eða hvíld. Þá getum við farið að finna fyrir ýmsum einkennum, s.s. ónotum í brjósti og hjartsláttartruflunum, einkennum oföndunar, meltingartruflunum, magaverkjum, ristilkrampa, niðurangi, tíðum þvaglátum og vöðvaspennu.

Allt snýst þetta um jafnvægi

Í upphafi var þetta viðbragðskerfi ætlað okkur til að takast á við líkamlegar ógnir á meðan við veiddum til matar eða þurftum að flýja undan ógnum. Þegar kerfið fer í gang fær líkaminn aukinn kraft og hann gerir sig kláran til að hlaupa í burtu, verja sig eða gera árás. En slíkt ástand átti aðeins að vara í stuttan tíma á meðan verið var að veiða dýrið. Hvíldin kom á eftir og fólst í því að borða bráðina, slaka á og jafnvel fjölga mannkyninu. Þannig er nauðsynlegt að hvíla eftir spennu til að endurnæring geti átt sér stað í líkamanum. Það er algjört grundvallaratriði að virða líkamann, gefa honum hvíld og leyfa honum að endurnærast. Nú eru vísbendingar um aðsvefninn sé ekki bara hvíld þar sem ekkert er að gerast, heldur fari mikil vinna fram í líkamanum á meðan við sofum, m.a. uppbygging og viðgerðir. Börn þurfa aukinn svefn því þau vaxa og dafna á meðan þau sofa. Allt snýst þetta um jafnvægi.

Ytri streituvaldar

Sumt í umhverfi okkar getum við ráðið við og breytt en öðru ekki. Að sjálfsögðu reynum við að bæta úr því sem er í kringum okkur og veldur okkur streitu en ef það er ekki hægt, hjálpar það engum að það valdi okkur endalausri vanlíðan.

Innri streituvaldar

Þeir geta verið margvíslegir,  m.a. viðhorf, fullkomnunarárátta eða innri togstreita, sem þarf að skoða og breyta svo að það dragi okkur ekki niður.

Langvarandi streita bælir ónæmiskerfið og gerir okkur viðkvæmari fyrir sýkingum. Vísbendingar eru um að erfiðara sé að verjast sjúkdómum ef ónæmiskerfið er bælt. Hvað streituna varðar þá er talið að hún sé einn af áhættuþáttum fyrir ekki einungis hjarta- og æðasjúkdóma, heldur líka framgang krabbameina og sjálfsónæmissjúkdóma. Oft koma veikindi í kjölfar langvarandi streitu og álags. Margir þekkja líklega af eigin reynslu að veikjast eftir mikla vinnutörn eða álag.

Krydd lífsins

Hans Seyle, faðir streitufræðinnar á 20. öld, opinberaði fyrstur þessi streitukerfi og áttaði sig á hvað þau eru mikilvæg fyrir okkur. Fyrst beindust rannsóknir hans að líkamlegum áhrifum streitu, að ,,berjast og flýja” (fight and flight). Seyle talaði líkaum jákvæð áhrif streitunnar. Í seinni tíð hefur rannsóknum fjölgað á andlegum og félagslegum áhrifum streituviðbragða og er þá farið að tala um að „gæta og vingast“ (tend and befriend). Virðist streituhormónið oxytoxin koma þar skemmtilega við sögu en það hefur áhrif á hegðun og veitir vellíðan.

Líkaminn framleiðir Oxytoxin

Hingað til hefur fólk jafnvel ekki vitað að þetta er raunverulegt streituhormón og bara talað um adrenalín, kortisól  o.s.frv.  Á síðustu tíu til tuttugu árum hafa verið að kom fram mjög skemmtilegar vísbendingar um að oxytoxin hormón fari af stað um leið og hin streituhormónin og sé partur af streituviðbragðinu. Ég held að fræðin hafi verið dálítið karllæg og vanrækt þetta hormón svolítið. Að það hafi bara verið talið eitthvað kvenhormón sem kæmi einungis við sögu við fæðingu og brjóstagjöf. Raunin er sú að þetta er mjög mikilvægt hormón sem bjargar lífi kvenna við barnsfæðingar, vegna þess að það veldur samdrætti í legi. Annars gæti konum blætt út. Nú hefur komið í ljós að við streitu losnar oxytoxin og eru vísbendingar um að það geti hjálpað okkur að þola streituástand betur.

Áhrif oxytoxins á líkamann.

Oxytoxin virðist hafa bólgueyðandi áhrif og geta aukið gróanda. Það eru vísbendingar um að það slaki á æðum og æðakerfi í streituástandi. Jafnvel hafa fundist móttakarar fyrir því í hjartanu. Nýjustu getgátur um það eru að oxytoxin verji líkamann í streituástandi. Um leið og streituástand byrjar sendir líkaminn út hormón og virkjar kerfið til að takast á við áskorunina. Kerfið sendir líka hormón af stað til að hjálpa okkur og verjast álagi og síðan til að hjálpa okkur að jafna okkur eftir átökin. Hversu snjallt er það?

Vertu mannlegur og vertu vinur. Það bætir heiminn og oxytoxin eykst.

Oxytoxin losnar við brjóstagjöf, snertingu, hjúfrun eða nærveru og eykst með því að faðma, kyssa, snerta og strjúka. Þetta hormón virðist ekki bara vera að verja líkamann í álagsástandi heldur hvetur okkur líka til að hjálpa öðrum og einnig að sækja okkur hjálp. Í mínum huga er það hluti af því að vera mennskur (human) og búa í samfélagi manna að hjálpa öðrum. Svo hefur komið í ljós að með því að hjálpa öðrum getum við ekki aðeins bætt ástandið, heldur þolum við sjálf streituástand betur. Svo virðist sem við sjálf framleiðum þá enn meira oxytoxin. Virkilega frábær keðjuverkun!  Á ensku er talað um ,,tend and befriend“ eða að gæta og vingast en það eykur stuðning og samkennd. Það er ekki bara mikilvægt heldur einnig mannbætandi“.

Viðmælandinn: Kristín Sigurðardóttir er slysa- og bráðalæknir. Hún hefur sinnt læknisstörfum víða í heiminum ásamt kennslu og fræðslu. Með tímanum hefur hún æ meira beint kröftum sínum að heilsueflingu og forvörnum. Nú tekur hún þátt í meðvitundarvakningu hópa og fyrirtækja  í samvinnu við Gyðu Dröfn Tryggvadóttur, lýðheilsufræðing og Margréti Alice Birgisdóttur NLP og heilsumarkþjálfa. Slóðin er: http://www.aheildinalitid.is , Á heildina litið er einnig á Fésbók.

 



Flokkar:Annað, Ýmislegt

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: