Uppskriftir úr kókoshnetum

Ungar kókoshnetur
Þegar ég kom til Puerto Rico í fyrsta skipti á heilsustofnunina sem dr. Ann Wigmore stofnsetti þá vakti athygli mína risastór ker eða kassi fullur af grænum kókoshnetum. Þessi kassi var staðsettur í einu horninu á garðinum umhverfis stofnunina. Við kassann var afsagaður trjábútur sem var notaður sem borð og stór sveðja hékk í keðju sem var fest við kassann. Á kassann var líka skrúfað tréglas sem var fullt af endurunnum sogrörum. Strax fyrsta daginn á námskeiðinu var okkur uppálagt að vera dugleg að fá okkur kókoshnetur helst 2-3 á dag.

Mér fannst þetta ótrúlega góð hugmynd, það einasta var að ég var frekar klaufaleg við að opna hneturnar. Ég fékk barnsföður minn til að opna kókoshneturnar fyrir mig og gekk alsæl um staðinn og sogaði upp í mig þennan himneska vökva í gegnum endurunnið rörið. Mörgum árum síðar var ég í morgunsjónvarpinu að kynna young coconut fyrir landanum. Ég hafði suðað í hr. Hagkaup, sem flutti inn lítinn gám af fagurgrænum ungum hnetum og ég var æst í leyfa landanum að njóta með okkur. En svo kom að því að opna gripinn, ég hafði tekið með mér sveðju og vúúpppsss þetta var ekki alveg að ganga upp hjá mér.

Til að bjarga mér tekur annar þáttarstjórnandinn, karlmaðurinn við sveðjunni og hnetunni. Það vill ekki betur til en að hann rennur eitthvað til með sveðjuna á frekar sleipu hýðinu og var millimetra frá því að skera sig á púls. Eftir það hringdi ég í hr. Hagkaup og bað hann um að velja þessar hvítu í framtíðinni, þær grænu væru víst fyrir innfædda.

Grænu kókoshneturnar eru ungar
Þegar kókoshnetan vex á trjánum er hún græn. Þannig er hún oftast þegar hún er skorin niður úr trjánum Þar sem miklar trefjar og hýði eru utan um hnetuna, þá er hún ,,rökuð“ og eftir stendur hvít hneta sem frekar auðvelt er að opna þegar við höfum lært það. Ef hún er ekki skorin niður, þá fær hún að þroskast á trjánum og smá saman breytir hún um lit, trefjarnar þorna upp og hún fær brúnan lit. Þannig könnumst við flest við kókoshnetur.

Þegar hún er orðin brún og fullþroskuð þá dettur hún sjálf til jarðar. Munurinn á ungri kókoshnetu og brúnni er þó nokkur. Kjötið í þessari ungu er mjúkt og hlaupkennt. Það er auðvelt að skafa það með skeið innan úr hnetunni og nota í matargerð. Það er mikið notað í hráfæði, bæði í sjeika, ís, deserta, núðlur, sósur o.fl. o.fl. Einnig er kaldpressaða kókosolían unnin úr ungu mjúku kókoskjöti. Kjötið innan úr brúnu hnetunni er alveg hart og þurrt og er það oftast rifið og við þekkjum það sem kókosmjöl.

Kókosmjólk ekki sama og kókosvatn
Það eru margir sem halda að vökvinn innan í kókoshnetunni sé það sem við þekkjum sem kókosmjólk. Svo er ekki því vökvinn innan í kókoshnetunni heitir kókosvatn. Innan í ungu hnetunni er vatnið sætt og ferskt en í þeirri brúnu er það orðið svolítið ramt. Upprunaleg kókosmjólk er þegar við blöndum saman vatni og kjöti innan úr ungri kókoshnetu. Kókosmjólkin eins og við þekkjum hana í dag er búin til úr kókosmjöli og heitu vatni.

Það eru til nokkrar aðferðir við að búa hana til. Ein er sú að kókosmjölið er lagt í bleyti í sjóðandi heitt vatn í um 30 mín. Vatnið bara rétt flýtur yfir mjölið. Þetta er síðan sett í blandara & blandað vel saman (alveg í 5-7 mín – gott að taka smá pásu til að kæla blandarann) og endað með að sigta í gegnum grisju eða þéttriðið sigti. Hægt er að endurtaka þetta, setja smá sjóðandi vatn á kókosmjölið sem eftir er og láta það síðan aftur í blandarann og í gegnum grisjuna/sigtið. Þá vitum við hvernig búa á til kókosmjólk.

Stútfull af frábærri næringu
Á sanskrít er kókospálminn kallaður ,,kalpa vriksha“ sem þýðir lífsins tré eða ,,tréð sem sér okkur fyrir öllu því sem við þurfum til að lifa.“ Unga kókoshnetan er stútfull af frábærri næringu fyrir kropp og koll. David Wolfe segir í bók sinni ,,Eating for beauty“ að unga kókoshnetan sé sá matur sem fólk getur lifað á hvað lengst ef það borðar ekkert annað. Kókosvatnið er alveg sótthreinsað. Það er í raun og veru regnvatn sem fer í gegnum ótrúlega fína síu sem eru mörg lög af trefjum áður en það kemst inn í innsta kjarnann á hnetunni.

Vatnið úr ungri kókoshnetu hefur svipaða eiginleika og blóðvökvinn. Blóðvökvinn er 55% af blóði mannsins. Restin eða 45% er blóðrauðinn (hemoglobin) sem er í eðli sínu samsvarandi blaðgrænunni (chlorophyll) hjá plöntunum. Þegar við drekkum vökva sem er 55% kókosvatn og 45% safi úr grænu laufi þá erum við að gera kroppnum mjög gott. Ég hvet ykkur til að vera dugleg að gera tilraunir með ungu kókoshneturnar. Ef ykkur vex í augum að eiga við hnetuna þá getið þið keypt ykkur kókosvatn á fernu sem kemur í staðinn fyrir kókosvatnið innan í hnetunni. Þá þurfið þið ekkert að gera annað en að skrúfa tappann af…

Uppruni:
Ung kókoshnetur eru ræktaðar í hitabeltisloftslagi í Malasíu og S-Asíu. Kjötið í ungri kókoshnetu er sætt, mjúkt og hlaupkennt. Vatnið er sætt og þunnt og afar næringarríkt.

Hvernig notað:
Aðallega notað hrátt bæði kjötið og vatnið til að nýta sem best ensímin og góðu fituna. Mikið notað í allskonar hristinga, orkudrykki, ís og eftirrétti. Þegar ung kókoshneta er valin er best að velja þungar og massífar hnetur sem eru fullar af vökva. Hægt er að fá bæði rakaðar (hvítar) og órakaðar (grænar) hnetur, þær hvítu eru mikið meðfærilegri og auðveldara að opna þær. Næringarupplýsingar: Kalk, kopar, fosfór, B og C vítamín, fita, protein, járn.

Uppskriftir Pina Colada
1 ung kókoshneta, kjöt og vatn
200g ferskur ananas
2 cm biti fersk engiferrót
1 msk agavesýróp
1/2 tsk vanilluduft
opnið kókoshnetuna, hellið vatninu í blandara og skafið kjötið innan úr hnetunni með skeið og setjið útí og blandið saman. Afhýðið ananasinn og skerið í bita og setjið útí ásamt engiferrót, agavesýrópi og vanilludufti. Blandið þar til þetta er orðið silkimjúkt. Þessi er frábær svona nýblandaður eða eftir að hafa staðið í smá stund í kælinum.

Kókoshnetu og berjaís
Kjöt innan úr 1 ungri kókoshnetu
2 bananar
5 dl frosin bláber
1-2 msk agavesýróp – má sleppa
Setjið kókoskjöt og banana í matvinnsluvél og blandið þar til verður silkimjúkt. Bætið frosnum bláberjum útí og blandið smá stund. Bætið smá agave útí ef ykkur finnst ísinn mega vera sætari. Ísinn er tilbúinn núna en má líka setja í frysti.

Kókosvatn og spínat = tær snilld
250 ml kókosvatn
100g spínat
Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt. Þennan er best að drekka sem fyrst því hannhefur átt til að skilja sig.

Ofurfæði – Superfoods
Það allra heitasta í heilsuheiminum þessa dagana er svokallað ofurfæði eða ,,superfoods“. Þetta er hráefni sem hefur meiri næringu en gengur og gerist. Við eigum fullt af flottu ofurfæði hér á landi og höfum verið að nota það sem eðlilegan hluta af okkar mataræði í gegnum aldirnar. Íslenskt ofurfæði er m.a. söl, fjallagrös, krækiber, aðalbláber, ný fíflablöð og njólablöð. Með auknu aðgengi að upplýsingum og aukinni fræðslu þá er alltaf að skjóta upp kollinum nýtt og nýtt ,,ofurfæði“. Margt af þessu virkar ótrúlega framandi og skrýtið, en er í raun og veru bara flott hráefni sem hefur verið notað í gegnum aldirnar víðsvegar á jarðarkringlunni. T.d. hafa ,,gojiberin“ verið notuð af húsmæðrum í ýmsum löndum Asíu á svipaðan hátt og við höfum nota krækiberin okkar.

Það er alltaf svolítið krúttlegt að okkur finnast ber eins og ,,gojiber“ skrýtin og efumst jafnvel um ágæti þeirra því að þau eru ekki partur af okkar matarmenningu. En þegar við höfum kynnst þeim og prófað þau þá skiptum við gjarnan um skoðun. Þannig er það með flesta hluti. Aðgengi að upplýsingum og uppskriftum hjálpar okkur til að viðhalda fjölbreytileikanum í fæðunni. Hér hef ég opnað mína ,,prívat“ uppskriftabók og langar að gefa ykkur nokkrar uppskriftir sem allar myndu flokkast undir ofurfæði og hráfæði. Ég hvet ykkur til að vera dugleg að gera tilraunir í eldhúsinu ykkar og aðlaga þessar uppskriftir að ykkar bragðlaukum. Hikið ekki við að gera ykkar eigin útgáfur.

Gojiberjamjólk
1 1/4 dl gojiber
5 dl vatn
1 msk hvítt tahini (eða möndlusmjör)
1 msk agavesýróp
smá himalaya/sjávarsalt
nokkrir klakar
Grófmalið berin í matvinnsluvél eða kryddkvörn. Setjið síðan í blandara með restinni af uppskriftinni og blandið í 1-2 mín.

Hampfræjamjólk
1 dl lífræn hampfræ
3- 4 dl vatn
1 msk agavesýróp eða 2-3 döðlur
nokkur korn af himalaya/sjávarsalti
nokkrir klakar
Leggið fræin í bleyti yfir nótt eða í um 6-8 klst. setjið í sigti og skolið og fjarlægið hýði sem hefur losnað. Setjið síðan fræin í blandara ásamt restinni af uppskriftinni og blandið í 2-3 mín eða þar til þetta er orðið alveg kekkjalaust, sigtið og berið fram. Prófið að setja sigtaða mjólkina aftur í blandara með 1 msk maca + 1 msk hreint kakóduft 1 msk agave útí ásamt nokkrum klökum og blandið þessu saman – ótrúlega góð súkkulaðimjólk.

Sesammjólk
3/4 dl lífræn sesamfræ
2-3 brasilíuhnetur eða 6-8 möndlur
5 dl kókosvatn
1 msk agavesýróp eða 2-3 döðlur
nokkrir klakar
Setjið allt í blandara og blandið í 2-3 mín eða þar til þetta er orðið silkimjúkt. Sigtið og berið fram.

Kornsafi – rejuvelac
5 dl hveitikorn eða kamútkornLeggið kornið í bleyti yfir nótt í 4x meira vatn, hellið vatninu af og skolið kornið, setjið tjullefni fyrir opið á krukkunni og snúið henni á hvolf þannig að allt vatnið leki af. Skolið kornið 2svar á dag og snúið krukkunni alltaf á hvolf þegar búið er að skola kornið. Þegar spírurnar sem koma út úr korninu eru orðnar um 1 cm langar þá setjið þið þær í tóma krukku og setjið rúmlega helmingi meira vatn útí. Lokið krukkunni með tjullefni og látið standa á frekar dimmum stað í um 3 sólarhringa. Þá er safinn tilbúinn, honum er tapað á flöskur sem eru geymdar tappalausar í ísskápnum. Hægt er að nota spírurnar aftur með því að setja vatn á og láta standa í 2 sólarhringa. Þá er vökvanum tappaði á flöskur og spírunum hent. Þennan safa sagði dr. Ann Wigmore vera leyndarmálið á bak við eilífa æsku.

Kasjújógúrt
5 dl kasjúhnetur, útbleyttar
5 dl kornsafi (eða kókosvatn)
smá agavesýróp ef vill
1/2 tsk vanilluduft
Setjið kasjúhnetur og kornsafa í blandara og blandið þar til þetta er orðið alveg silkimjúkt. Setið þessa blöndu í glerkrukku eða skál og látið standa við stofuhita í 8-12 klst. Geymist í kæli. Ef þið viljið hafa jógúrtið sætt þá er best að setja vanilluduft og agavesýróp útí og setja þetta síðan í kæli. Geymist í loftþéttu íláti í allt að viku í kæli. Frábært í alls konar salatdressingar, kaldar sósur, deserta, sjeika og súpur. Eða eitt og sér sem jógúrt.

Súkkulaðibúðingur
11/2 avókadó, afhýtt og steinhreinsað
1 1/2 dl kókosvatn (eða vatn)
5-6 döðlur, smátt skornar
2 msk kakóduft
1 msk macaduft (má sleppa)
1 msk agavesýróp
1/2 tsk vanilluduft
smá himalayasalt
1-2 msk lífrænt appelsínu eða sítrónuhýði, ef vill en má sleppa
Allt sett í matvinnsluvél og blandað vel saman. Þegar þetta hefur maukast í matvinnsluvélinni þá er gott að setja þetta í blandarann svo að þetta verði alveg silkimjúkt

Bananabrauð
4 bananar
4 dl sólblómafræ, lögð í bleyti í 2-4 klst
2 dl sesamfræ, lögð í bleyti í 2-4 klst
1 dl möluð kakó nibs
1 dl malaðar möndlur
1/2 dl fínt möluð hörfræ
1 dl döðlur, smátt saxaðar
1 msk agavesýróp
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið saman, smyrjið deiginu á þurrkofnsblað, þessi uppskrift fer á 2 blöð, notið spaða eða sleikju til að dreifa deiginu jafnt yfir blöðin. Setjið í þurrk-ofninn og þurrkið við 105°F í 8-10 klst. snúið þessu við og haldið áfram að þurrka í um 4 klst. Gangi ykkur sem allra best.

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir árið 2008Flokkar:Uppskriftir

%d bloggers like this: