Frá því að yngri sonur minn fæddist, eftir tæplega átta mánaða meðgöngu, fyrir nær réttum 28 árum, hef ég allar götur síðan haft áhuga á meðhöndlun ungbarna. Ég verð þó að teljast áhugamaður á þessu sviði, þó svo ég hafi starfað svolítið með börnum á síðari aldursstigum. Þegar sonur minn fæddist var það altíða að fyrirburar væru lagðir í vöggu rétt eins og önnur börn og þá á bakið. Sonur okkar þurfti ekki súrefni við þannig að meðhöndlun hans var í engu frábrugðin meðhöndlun þeirra barna sem notið höfðu eðlilegs meðgöngutíma.
Við gerðum okkur ljóst að enn vantaði uppá að barnið hefði náð sama þroskastigi og börn sem höfðu verið fulla níu mánuði í móðurkviði. Þó minnist ég uppörvandi orða ljósmóðurinnar, sem sagði; ,,að þrátt fyrir smæð drengsins við fæðingu ætti hann eftir að verða rúmlega í meðallagi hár“, þetta þóttist hún sjá á beinabyggingu drengsins. Hún hafði rétt fyrir sér, það gekk eftir. Fyrstu vikurnar var hann ósköp smár og brothættur, en hann bar vel fyrir sig hendur og fætur. Ég minnist þess að við hugsuðum hvernig við gætum bætt honum upp stuttan tíma í jóðlífi.
Auðvitað gátum við verið með hann stöðugt í vatni, en slíkt var of tímafrekt. Um þetta leyti barst í hendur okkar grein um rannsóknir Frakka á fyrirburum og tilraunum þeirra til að vega upp á móti stuttri veru í móðurkviði. Rannsóknir þeirra gáfu til kynna að það sem sammerkt var með nánast öllum fyrirburum, var skert jafnvægisskyn og minni hreyfigeta, þetta ætti sér eðlilegar skýringar, þar sem þeir hefðu ekki jafnlangan æfingatíma í móðurkviði og önnur börn. Til að vega þetta upp höfðu Frakkar gert tilraunir með að strengja þunnar kálfshúðir á ramma og setja á þetta rafvædda skynjara.
Í rammann lögðu þeir svo fyrirburann og þegar barnið hreyfði sig hið minnsta, brást ramminn við með því að hann hallaði á móti hreyfingu barnsins. Þannig var því haldið á stöðugri hreyfingu. Frakkarnir komust að því að jafnframt því að jafnvægisskyn barnsins þroskaðist hraðar við þessar aðfarir þá tók fyrirburinn jafnframt stórstígum framförum í öðrum þroska. Sum sé við lásum það úr þessu að rétt væri að hnuðlast svolítið með brotthættan son okkar. Ég tók uppá því að halda á honum þannig að hann lá á maganum á framhandlegg mínum með andlitið á milli þumalfingurs og vísifingurs, þannig að það vísaði fram.
Ég kallaði þessa stellingu „legið á trjágrein“ síðan snéri ég svolítið uppá handlegginn þannig að hann valt til beggja hliða, en gætti þess jafnframt að halda við búk drengsins þannig að hann dytti ekki af „trjágreininni“- þetta líkaði honum stórvel. Eins sveiflaði ég honum með því að halda um ökklana og lét hann hanga niður, þetta féll honum ekki síður. Þessi æfing þróaðist svo síðar út í það að fá strák til að standa í lófa mínum eitt augnablik. Við hjónin vorum á því að sonur okkur styrktist mjög við þetta atlæti og hann tók stórstígum framförum.
Til gamans má geta þess að þessi sonur okkar er ballettdansari við Konunglegu óperuna í Stokkhólmi. Undanfarinn áratug hef ég meðal annars starfað við það að fara með tónlistarprógrömm í grunnskóla landsins. Ég hef og farið um endilangan Noregi í sama tilgangi. Oft er það svo að börnin taka þátt í þessum uppákomum, ýmist með því að syngja, spila eða dansa með okkur. Oftar en ekki hef ég tekið eftir því hvað börn hafa misþroskað hreyfiskyn og hvað jafnvægiskennd þeirra er misjöfn, þótt þau séu ámóta af líkamlegum burðum að öðru leyti. Oftar en ekki hef ég rætt þetta við kennara og spurt þá hvort verið geti að fylgni sé á milli skertrar hreyfigetu, jafnvægisleysis og lélegs sjálfsmats.
Kennararnir viðurkenndu í flestum tilfellum að þeir hefðu aldrei hugsað út í það, en þegar ég gekk á þá með þessa spurningu var ekki laust við að þetta gengi eftir í mörgum tilfellum. Nú verður það að segjast að hingað til veit ég ekki til þess að gerðar hafi verið rannsóknir á þessu í okkar samfélagi. Það breytir þó ekki þeim grun mínum, að börn sem hafa skert jafnvægisskyn, sem eru sífellt að reka sig utan í, missa hluti og oftar en ekki fylgir þessu takmörkuð hreyfigeta, eigi eðli málsins samkvæmt, erfiðari tilveru, sem getur valdið veikri sjálfsmynd. Mikil orka og einbeiting fer hreinlega í að hreyfa sig. Má ætla að þetta komi niður á sjálfsmynd og það sem oft fylgir í kjölfarið; er minni einbeiting til náms, leikja og til eðlilegra samskipta við jafnaldra. Hvað er til ráða? Er ekki leikfimikennsla í öllum skólum og nægir hún ekki til að leiða börnin til þroskaðri hreyfigetu? Ekki neita ég því að leikfimi og öll hreyfing er af því góða. En það má bæta heilmiklu við almenna leikfimi.
Talandi um þennan sérstaka vanda, sem ég held að hrjái æ fleiri börn í dag og kemur þá fyrst upp í hugann, almennur áhugi, jafnvel mjög ungra barna á tölvum, sem hefur í för með sér meiri kyrrsetu framan við tölvur en gott getur talist. Af þessum sökum er mikilvægt að bregðast við með afgerandi hætti. Hér held ég að listgreinarnar geti hjálpað til. Þar nefni ég td. dansinn, þá tónlistariðkun og leiklist. Í þessum greinum fæst einstaklingurinn samtímis við afar mikilvæga ,,tvennd“, sem að mínu mati þjálfar hreyfi- og jafnvægisgetu betur en margt annað. Hér á ég við það sem gerist þegar ungmenni dansar, þá vinnur hugur og líkami saman, einstaklingurinn tekur við tónfalli og lærir hreyfingar eftir því. Það sama á við þegar tónlist er iðkuð, þá tileinkar hugurinn sér tónlistina og hendur og jafnvel fætur vinna jafnframt með. Í leiklistinni reynir enn frekar á, þar sem viðkomandi fer með lærðan texta og þarf jafnframt að hreyfa sig eðlilega með, aðhafast eitthvað líkamlega um leið og hann talar um heima og geima.
Við samhæfingu og þjálfun hugar og líkama margeflist sjálfsmynd viðkomandi einstaklings. Hann styrkist í margvíslegri merkingu og við tvenndariðkun reynum við á bæði vinstra og hægra heilahvel samtímis. Það þroskar hreyfigetuna og um leið jafnvægisskyn og ég held því fram að þessir þættir tengist mjög sjálfsmati einstaklingsins og ef gripið er inní líf ungs fólks sem býr við takmarkað jafnvægisskyn nógu snemma, má afstýra vandamálum sem ég tel að geti leitt af slíku ef ekkert er aðhafst. Nú verður því ekki haldið fram að hér sé byggt á rannsóknum heldur aðeins vangaveltum leikmanns sem e.t.v. er vert að huga að. Því miður er of lítið gert af slíku í okkar samfélagi. Sérstaklega er það athyglisvert hve lítið er lagt uppúr rannsóknum á hegðunarmynstri og ástandi barna á skólaskyldualdri. Það er skoðun mín að til þess að byggja upp betra samfélag verðum við að stórauka rannsóknir á ástandi barna okkar á öllum stigum. Í börnum okkar er framtíð samfélagsins fólgin og í almennri samræðu um bætt samfélag ættum við að huga betur að þessum þáttum, börnum okkar og framtíðinni til góða.
Höfundur: Egill Ólafsson, hljómlistamaður.
Flokkar:Greinar