Sojavörur- neysla þeirra – Sorgarsaga um áróður – heilsutjón og áhættuþætti tengda sojaneyslu

Þýtt og endursagt úr grein S. Fallon & M.G.
Áróðursstarfsemin sem hefur skapað kraftaverkasölu á sojaafurðum er stórfurðuleg í ljósi þess að fyrir nokkrum áratugum var sojabaunin talin óhæf til matar – jafnvel í Asíu. Á tímum Chou ættarveldisins (1134-246 f.kr.) var sojabaunin tilnefnd ein af fimm heilögum korntegundum ásamt byggi, hveiti, hirsi og hrísgrjónum. Samt sem áður gefur gamalt myndletur sem táknar sojajurtina til kynna að hún hafi ekki verið notuð til matar, því myndletrið sem táknar hinar korntegundirnar sýna mynd af fræjum og uppbyggingu stilka plantnanna, en myndletrið fyrir sojajurtina leggur áherslu á rót hennar. Landbúnaðarrit frá þeim tíma greinir oft frá sojajurtinni og þætti hennar í víxlræktun. Það virðist sem hún hafi verið notuð til að laga köfnunarefnishlutfall jarðvegsins. Sojajurtin var ekki notuð til matar fyrr en menn uppgötvuðu gerjunaraðferðir, sem var einhvern tíma á valdatíma Chou ættarinnar.

Fyrstu matartegundir gerðar úr sojaplöntunni voru tempeh, natto, miso og sojasósa. Seinna uppgötvuðu vísindamenn að hægt var að búa til hlaupkennt efni með því að nota steinefnablöndur í mauksoðnar sojabaunir og úr varð tofu eða baunahlaup. Þaðan breiddist það síðan um Asíu. Kínverjar borðuðu ekki ógerjaðar sojabaunir eins og aðrar baunategundir eins og t.d. linsubaunir af því að sojabaunin inniheldur eiturefni eða ,,næringarleysur.“ Fyrst á lista þeirra eiturefna eru sterkar ensím tálmanir sem hindra virkni trypsíns og annarra ensíma sem við þörfnumst til að melta prótín. Þetta eru stórar prótínfellingar sem verða ekki óvirkar við venjulega eldun. Þær geta valdið alvarlegum magavandamálum, hindrað meltingu prótína og krónískum vandamálum varðandi upptöku amínósýra. Í tilraunadýrum ollu hindranir á virkni trypsíns stækkun briskirtilsins ásamt öðrum briskirtilssjúkdómum, ásamt krabbameini. Sojabaunir innihalda einnig efni sem veldur því að rauðar blóðfrumur hlaupa í kekki.

Rottuungar sem voru aldir á sojabaunum sem innihéldu þessi efni hættu að stækka
Þau efni sem valda hömlun á vexti eru gerð óvirk við gerjun, þess vegna byrjuðu Kínverjar ekki að borða þessar baunir fyrr en eftir að þeir lærðu að gerja þær. Í tofu eru þessir ensím hindrarar fleiri í vökvanum en hleypta hlutanum, en samt verður eitthvað af þeim eftir í hlaupinu. Sojajurtin inniheldur líka efni sem hamla virkni skjaldkirtilsins. Auk þess er stór hluti sojauppskerunnar í dag genabreytt og er einna mest menguð af skordýraeitri. Sojajurtin inniheldur hátt hlutfall plöntusýru (phytic acid) sem finnst í hýði allra fræja. Þetta er efni sem getur hindrað upptöku steinefna í meltingarveginum. Það er mikið til af rituðu efni um plöntusýrur þó að það sé ekki mikið talað um það. Vísindamenn eru almennt sammála um það að mikil neysla kornmetis í vanþróuðum löndum sé að valda steinefnaskorti í fólki þar, þrátt fyrir að jurtirnar sem vaxi þar innihaldi mikið af steinefnum.

Plöntusýran veldur því að steinefnin nýtast ekki

Sé hlaup eins og t.d. tofu borðað ásamt kjöti minnka áhrif plöntusýranna á steinefnaupptöku líkamans. Japanir borða tofu og miso með fiskisoði sem er mjög steinefnaríkt og borða yfirleitt kjöt eða fisk á eftir. Grænmetisætur sem borða tofu og baunamauk í staðinn fyrir kjöt eiga á hættu alvarlegan steinefnaskort. Afleiðingar skorts á magnesíumi, kalsíumi og járni eru vel þekktar, en ekki þær sem skortur á sinki veldur. Sink er kallað greindarsteinefnið af því að myndun og virkni heilans og taugakerfisins er mjög háð því. Það á þátt í efnasmíði prótíns og í myndun kollagens, límgjafa sem er aðalstuðningsprótín húðar, sina, beina, brjósks og stoðvefja.

á líka sinn þátt í stjórnun blóðsykurs og verndar þannig gegn sykursýki og er þess einnig þörf til þess að halda æxlunarkerfinu heilbrigðu. Sink er lykilþáttur í ótal nauðsynlegum ensímum og einnig í ónæmiskerfinu. Plöntusýran í sojajurtinni hindrar upptöku líkamans á sinki sérstaklega. Skortur á sinki getur valdið „svífandi“ (spacy) tilfinningu sem sumar grænmetisætur gætu haldið að væri sú sem er upplifuð í tengslum við andlega vakningu (spiritual enlightenment). Mjólkurneysla er talin ástæða þess að önnur kynslóð Japana í Ameríku verði hærri en forfeður þeirra frá Japan. Sumir vísindamenn halda því fram að minna magn plöntusýra í amerísku fæði sé raunverulega ástæðan, hvað svo sem annað vantar í þá fæðu. Þeir benda á að bæði asísk og amerísk börn sem fá ekki nógu mikið af kjöti eða fiski til að vega á móti fæði sem inniheldur mikið af plöntusýrum fái frekar beinkröm, verði minni að vexti og þjáist af öðrum vaxtarkvillum.

Sojaprótín

Framleiðendur sojavara hafa unnið hörðum höndum að því að ná úr þeim þessum næringarleysum, sérstaklega úr sojaprótíni (soy protein isolate) sem er aðalefnið í flestöllum sojavörum sem líkja eftir mjólkur- og kjötvörum, þar á meðal þurrmjólkurdufti ætlað ungabörnum og sumum tegundum sojamjólkur. Sojaprótín er ekki eitthvað sem þú getur búið til í eldhúsinu heima hjá þér. Framleiðslan á sér stað í stóru atvinnuhúsnæði þar sem blandað er í gruggugt mauk sojabauna, basískri upplausn sem á að fjarlægja trefjarnar úr því, síðan látið botnfalla og skilið að með sýruþvotti og að lokum gert hlutlaust með basískri upplausn. Sýruþvottur í áltönkum veldur því að álið leysist upp og það finnst í háu hlutfalli í vörunni. Hlaupið sem verður til úr þessu er síðan þurrkað með heitum blæstri til þess að búa til úr því prótínríkt duft. Loka niðurlæging á upphaflegu sojaplöntunni er síðan háþrýsti, hita, útpressun á sojaprótíninu til þess að fá út úr því samsett grænmetis prótín (textured vegetable protein) Mikið af trypsínhindrunar efnunum er hægt að ná úr með mikilli hitun en ekki nærri því öllu. Háhitameðferð í framleiðsluferlinu hefur þá óheppilegu hliðarverkun að eyðileggja nánast allt annað prótín í vörunni þannig að lítið næringargildi er eftir í henni.

Dýr sem gefið er sojafæði
þurfa þess vegna viðbótar lysín (amínósýra nauðsynleg til vaxtar) með til þess að vaxa eðlilega. Fjöldi gerviefna eins og MSG (monosodium glutamat) er síðan bætt við sojaprótínið til þess að dylja sterka „bauna“ bragðið sem er af því og til að líkja eftir bragðinu sem er af kjöti. Þrátt fyrir allt er sojaprótín mikið notað í mötuneytum skóla (í USA) í bökunarvörum, megrunardrykkjum og skyndibitamat. Þessar vörur eru mikið auglýstar í þriðjaheims löndum og mynda uppistöðu í mörgum fæðupökkum sem er verið að gefa til þessara landa, þrátt fyrir lélegar niðurstöður fæðutegunda. Sem dæmi er rannsókn sem heitir Næringargildi fæðutilrauna á dýrum. Þar hefur sojaiðnaðurinn verið styrktaraðili að ýmsum rannsóknum sem áttu að sýna að sojaprótín væri hægt að nota til manneldis. Einnig var gerð rannsókn á börnum á leikskólaaldri, (Ralston Purina Company var styrktaraðilinn). Þar var hópi næringarsnauðra barna frá mið Ameríku gefið hefðbundið gott fæði sem innihélt bæði mjólk og kjötvörur og þannig komið til betri heilsu. Síðan var þeim gefinn sykurbættur sojaprótíndrykkur, í staðinn fyrir hefðbundna matinn, í tvær vikur.

Allt köfnunarefni sem kom inn í og fór út úr líkama þeirra var síðan mælt á þann hátt að þau voru viktuð nakin á hverjum morgni og allur saur og æla sem kom frá þeim safnað saman til greiningar. Rannsóknaraðilar komust að þeirri niðurstöðu að börnin héldu köfnunarefnisjafnvægi og að vöxtur þeirra væri ,,nægilegur“ þannig að tilraunin var talin árangursrík. Hvort börnin væru raunverulega heilbrigð á þessu fæði eða gætu verið það í lengri tíma er allt annar handleggur. Rannsóknaraðilar skráðu það niður að börnin köstuðu upp ,,öðru hverju“, oftast eftir máltíð; að helmingur þeirra þjáðist af mildum niðurgangi á tímabilum; að sum þeirra fengu sýkingar í öndunarfæri; og að önnur þjáðust af útbrotum og hita. Það skal sérstaklega tekið fram að sojavörur voru ekki notaðar til þess að koma börnunum afturtil heilbrigðis, heldur vítamínbættu þeir sykurbætta sojadrykkinn með vítamínum sem finnast almennt ekki í sojaafurðum, A, D og B12, járni, joði og sinki.

Að markaðssetja hina fullkomnu fæðu
Framfarir í tækni gera það mögulegt að búa til einangrað sojaprótín úr því sem var einu sinni talið úrgangur og breyta síðan því sem bragðast hryllilega í vörur sem mannkynið getur neytt. Bragðefni, rotvarnarefni, sætuefni, þeytiefni og gervinæringarefni hafa breytt sojaprótíni, ljóta andarunga fæðuframleiðenda, í nýjaldar Öskubusku. Ævintýrafæðan hefur ekki verið auglýst svo mikið fyrir fegurðina heldur kosti sína. Hér áður fyrr voru sojavörur seldar sem viðbót við kjöt og sem staðgengill fyrir kjöt, söluáætlun sem mistókst að skapa nauðsynlega eftirspurn eftir vörunni.

Iðnaðurinn breytti um söluaðferð
„Fljótvirkasta aðferð til þess að fá vöru samþykkta hjá almenningi sem ekki á mikla peninga,“ sagði talsmaður úr iðnaðinum, „er að fá þá efnameiri til þess að neyta hennar vegna hennar eigin verðleika“. Sojavörur eru nú seldar þeim þjóðfélagshópi sem er betur settur fjárhagslega, ekki sem ódýr, fátækrafæða heldur sem kraftaverkaefni sem kemur í veg fyrir hjartasjúkdóma og krabbamein, losar þig við svitaköst, byggir upp sterk bein og heldur þér síungum. Samkeppnisvaran – kjöt, mjólk, ostur, smjör og egg – hafa verið gerð að óæti í leiðinni af sömu stofnunum. Soja kemur í stað kjöts og mjólkur hjá nýrri kynslóð dyggðugra grænmetisæta.

Markaðssetning kostar peninga
Sérstaklega þegar hana þarf að styðja með „rannsóknum“, en það er nægt fjármagn á boðstólum. Skattálagning á sojabaunum er eitt til eitt og hálft prósent af markaðsverðinu og eru allir sojabaunaframleiðendur tilskipaðir til að borga. Samtals gerir þetta um 80.000 milljónir amerískra dollara á ári sem eru notaðir til að styrkja stöðu sojabauna á markaðnum innanlands og utan. Fylkisráð frá sjö fylkjum Bandaríkjanna sjá iðnaðinum fyrir 2.5 milljónum dollara í viðbót fyrir ,,rannsóknum“ Einkafyrirtæki eins og Archer Daniels Midland láta líka sitt af hendi rakna. Það fyrirtæki eyddi 9 milljónum dollara í auglýsingar á einu ári. Almannatengslafyrirtæki hjálpa til við að koma rannsóknarverkefnum í blöðin og lögfræðifyrirtæki hjálpa til við að ná fram hagstæðum reglugerðum frá ríkinu. Sjóðir fjármagna vinnslufyrirtæki fyrir sojaafurðir utan Bandaríkjanna og fríverslun sér um að sojabaunirnar flæði til þeirra í miklu magni. Krafan um sífellt meira af sojavörum hefur verið vægðarlaus og náð um allan hnöttinn. Sojaprótín finnst nú í flestöllum brauðum sem eru seld í stórverslunum. Það er verið að nota það til þess að breyta tortilla, sem er undirstöðufæða mexíkóbúa, í eitthvað „super tortilla“ sem á að vera aukning á næringu fyrir þá 20 milljónir Mexíkana sem búa við sára fátækt.

Auglýsingar á nýju sojaprótínríku brauði frá Allied Bakeries í Bretlandi beina spjótum sínum að konum á breytingarskeiðinu sem vilja losna við svitakóf sem fylgir þessu skeiði í lífi þeirra. Þar seljast um 250.000 slík brauð á viku. Sojaiðnaðurinn réði Norman Robert Associates almannatengslafyrirtæki, til þess að ,,koma meira af sojavörum inn í matseðla skólanna“. Ameríska landbúnaðarráðuneytið svaraði því með því að afnema 30 prósenta takmarkið sem var á sojavörum í hádegisverðum skólabarna. NuMenu efnisskráin leyfir ótakmarkaða notkun sojavara í máltíðum skólabarna. Með því að bæta sojavörum í hamborgara, taco og lasagna geta næringarfræðingar náð fituinnihaldi máltíðanna niður fyrir 30% af kalóríuinnihaldi þeirra og þannig mætt kröfum ríkisins. Með sojabættum fæðutegundum fá nemendur meira af næringarefnum og minna af kólesteróli og fitu. Sojamjólk hefur gefið af sér mesta gróðann, rokið úr 2 milljón dollurum árið 1980 í 300 milljónir dollara í USA í fyrra. Nýlegar framfarir í framleiðslu hafa umbreytt gráum, þunnum, bitrum asískum vökva sem bragðast eins og baunir, í vöru sem Vesturlandabúar geta sætt sig við – sem bragðast eins og mjólkurhristingur. Vinnslukraftaverk, góðar pakkningar, gífurlegar auglýsingaherferðir og markaðstækni sem leggur áherslu á heilsubætandi áhrif sojavörunnar er ástæða þess að sala þess eykst til allra aldurshópa. Sem dæmi hafa skýrslur sem segja sojavörur koma í veg fyrir blöðruhálskirtilskrabbamein gert þær fýsilegar til neyslu hjá miðaldra karlmönnum.

Ameríka í dag, heimurinn á morgun!
Sala á sojamjólk hefur aukist í Kanada, jafnvel þó hún kosti tvisvar sinnum meira en kúamjólkin. Sojabaunaverksmiðjur spretta upp á ólíklegustu stöðum eins og t.d. Kenya. Jafnvel í Kína, þar sem sojavörur eru fátækrafæða og þar sem fólk vill meira af kjöti, (ekki tofu) hefur verið boðist til þess að setja upp verksmiðjur til framleiðslu á sojavörum frekar en að þróa vestræn beitilönd fyrir grasætur.

Staðhæfing um heilsubót, véfengd
Þann 25. okt. 1999 samþykkti Fæðu- og lyfjaeftirlit USA að leyfa þá staðhæfingu að vara sem innihéldi 6.25 gr. af sojaprótíni í hverjum skammti mætti merkja með ,,lágt fituinnihald og kólesteról.“ Morgunkorn, bökunarvörur, skyndimatur, drykkir og kjöt staðgenglar mátti nú selja með merkingum sem lýstu góðum áhrifum þess á hjarta- og æðakerfið svo fremi sem það innihélt eina kúfaða teskeið af sojaprótíni í hverjum 100 gr. skammti. Besta leiðin til þess að selja vöru sem er óholl er auðvitað sú að halda því fram að hún sé holl. Aðdragandi þess að sojaafurðir urðu samþykktar af fæðu- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna var langur og strangur og innihélt rannsóknir gerðar á yfir 40 rannsóknarstofum síðastliðin 20 ár. Upphaflega var beðið um að fá að selja sojavörur sem heilsufæði vegna jurtaestrogens sem sojajurtin er svo rík af. Einhversstaðar í kerfinu var þessu breytt í fullyrðingu þess efnis að sojajurtin væri holl vegna prótínsins, sennilega vegna þess að margir vísindamenn höfðu lagt inn skýrslur þess efnis að jurtaestrogen væri eiturefni. Einnig hafði fæðueftirlitið fengið skýrslu frá breska ríkinu um jurtaestrogen og hversu gagnslaust það væri og um hugsanlegar aukaverkaniraf neyslu þess.

Jurtaestrogen (phytoestrogens): undralyf eða eitur?
Við fæðingu er karlfugl hitabeltisfugla grábrúnn eins og kvenfuglinn en fær ,,liti sína“ á kynþroskaaldrinum, einhverntíma á bilinu 9 – 24 mánaða. Árið 1991 keyptu Richard og Valerie James, fuglaræktunarfólk í Nýja Sjálandi, nýtt fóður handa fuglunum sínum -fóður byggt að mestu á sojaprótíni. Eftir að þau breyttu um fóður fóru fuglarnir að fá „litina sína“ eftir nokkra mánuði. Einn framleiðandi fóðursins staðhæfði að þetta væri kostur fóðursins, Því miður minnkaði frjósemi fuglanna á nokkrum árum með bráðþroska þeirra. Það fæddust andvana og vanskapaðir ungar, fuglar dóu fyrir aldur fram (sérstaklega kvenfuglar) og afleiðingin varð sú að stöðugt fækkaði í stofninum. Fuglarnir þjáðust af vansköpun í goggi og beinum, fengu skjaldkirtilsstækkun, ónæmissjúkdóma og urðu árásargjarnir.

Líkskoðun leiddi í ljós að meltingarfæri þeirra voru að eyðast upp. Vandamál fuglanna líktust mörgum af vandamálum sem hjónin höfðu orðið vör við hjá börnum þeirra sem höfðu verið alin á sojamjólkurdufti. Forviða og reið réðu Richard og Valerie eiturefnasérfræðing, dr. Fitzpatrick til þess að rannsaka þetta nánar. Rannsóknir hans leiddu í ljós að sojaneysla hefur verið tengd ýmsum kvillum, þar á meðal ófrjósemi, aukinni krabbameinsmyndun og barnablóðleysi. Auk þess fannst í gömlum skýrslum að genistein (ein tegund jurtaestrogens) í sojavörum valdi röskun í innkirtilsstarfsemi dýra. dr. Fitzpatrik rannsakaði líka fuglafóðrið og fann að það var ríkt af plöntuestrógeni, sérstaklega genisteini. Þegar hjónin hættu að nota sojafóður byrjaði fuglunum að batna smátt og smátt uns þeir urðu aftur eins og þeir áttu að sér að vera. Richard og Valerie James hófu herferð til að vara almenning og stjórnvöld við eiturefnum í sojavörum. Árið 1992 giskuðu heilbrigðisyfirvöld í Sviss á að 100 gr. af sojaprótíni innihéldi estrogenmagn á við Pilluna!

Getnaðarvörn fyrir ungabörn
Þetta var aðaláhyggjuefni áður nefndra hjóna. Jurtaestrogen getur valdið vanþroska á eistum stráka og flýtt fyrir kynþroska stelpna. Dæmi eru um að stelpur eru að fá skapahár og stækkun brjósta allt niður í þriggja ára aldur. Þá þurfa þær að fást við tilfinningar sem fylgja þroskuðum líkömum löngu áður en þær hafa getu til þess. Þetta getur svo valdið alls konar kvillum tengdum æxlunarfærum seinna meir, t.d. ófrjósemi. Þess má geta að frá 1958 þurfa öll aukaefni í mat að fá viðurkenninguna GRAS (generally recognized as safe) sem við skulum nefna á íslensku ATÖ (almennt talið öruggt). Leyfi hafði verið gefið til að nota sojaprótín sem bindiefni í pappakassagerð vegna þess að rannsóknaraðilar töldu að það væri ekki mikil hætta á að nítröt úr þeim lækju út í matvælin sem í þeim væru geymd í nægilega miklu magni til að valda krabbameini! Fæðueftirlitið krafðist eflingar eftirlits og upplýsinga um öryggi áður en þeir merktu sojaprótín ATÖ. Þessum atriðum var aldrei sinnt.

Allt til dagsins í dag hefur sojaprótín verið notað sem bindiefni í kassagerð! Það þýðir að í hvert sinn sem einhver vill nota það til matarframleiðslu þarf hann að fá sérstakt leyfi til þess áður en það fer á markaðinn. Sojaprótín var fyrst notað í ungbarnamjólkurduft í byrjun sjötta áratugarins. Þetta var ný vara með enga reynslu og hafði ekki stöðuna ATÖ og þurfti sérstakt leyfi. Það leyfi fékkst aldrei og hefur ekki fengist. Þar af leiðandi er aðaluppistaða sojamjólkurdufts sem ætluð er ungabörnum ekki talin örugg. Það mun koma að því að sojaiðnaðurinn þarf að verja sig þegar þúsundir manna fara í mál vegna skaðsemi vörunnar. Með sojaiðnaðinum er átt við kaupmenn, framleiðendur, vísindamenn, útgefendur, embættismenn, rithöfunda, vítamínframleiðendur og smásöluverslanir. Bændur munu sennilega sleppa með skrekkinn því þeir voru blekktir eins og við hin. En þeir þurfa að finna sér eitthvað annað til að rækta áður en bólan springur og markaðurinn hrynur, eins og t.d. grasætur eða tískugrænmeti… eða hamp til þess að nota í framleiðslu á pappír í þúsundir lagaskýrslna.

Ingibjörg Gunnlaugsdóttir þýddi og stytti úr grein eftir Sally Fallon & Mary G. Enig, „Soy Alert – tragedy and Hype“, í Nexus, April-May 2000, Vol. 7, No. 3. Greinina má einnig lesa í upprunalegri útgáfu á http://www.ratical.org/ratville/soydangers.pdf



Flokkar:Næring

%d bloggers like this: