Hollusta úr hafinu

Fyrir rúmu ári síðan nánar tiltekið í nóvember 2005 stofnaði Eyjólfur Friðgeirsson líffræðingur fyrirtækið Hollusta úr hafinu ehf.

Það framleiðir nú margar tegundir sjávarafurða úr þara. Heilsuhringurinn leit inn til Eyjólfs og spurði hann um framleiðslu fyrirtækisins og ástæðu þess að það var stofnað. ,,Aðdragandi að stofnum fyrirtækisins er langur. Ég er líffræðingur, en jafnframt áhugasamur um það sem vex í kringum mig. Ég lærði að nota sveppi í Sovétríkjunum þar sem ég lærði og lauk námi í líffræði 1973. Síðan hafa sveppir verið hluti af fæðu fjölskyldunnar. Fyrst þegar ég hóf að tína sveppi hér heima má segja að ég hafi setið einn að þeim en nú er fjöldi fólks farinn að nota þá. Þessi saga held ég að sé dæmigerð fyrir notkun á ýmsu hollu í umhverfi okkar.

Í gegn um tíðina hef ég notað fjallagrös, krækling, ber o.fl. en notkunin takmarkast við vitneskju mína. Í mörg ár var ég slæmur af bólgum í ristli og fyrir rúmum tveim árum var svo komið að ákveðið var að hluti af ristlinum yrði fjarlægður. Ég átti erfitt með að sætta mig alveg við það. Þó læknarnir hefðu margítrekað sagt mér að þetta ástand tengdist á engan hátt matarræði ákvað ég að skipta um matarræði. Ég gerði það og skurðaðgerð er ekki á dagskrá lengur. Hluti af þessu ferli var að ég fór á námskeið til Sollu á Grænum kosti. Þar kynntist ég innfluttum japönskum þörum og Solla hvatti mig til að skoða þetta þörungamál nánar sem ég gerði. Þegar ég fór á námskeiðið hjá Sollu var ég nýkominn úr 3ja mánaða dvöl í Zenklaustri í Kaliforníu, en Zen hugleiðslu hef ég stundað í nokkur ár. Hugurinn var því tómur og allar þessar hugmyndir spruttu fram í tóman hugann“.

Fyrirtækið Hollusta úr hafinu vinnur að því að safna og vinna þara og vinna úr honum holla matvöru. Þaranum er safnað í hreinum ómenguðum fjörum og hann verkaður og unninn við bestu aðstæður. Hann er þurrkaður við lágan hita til þess að hann tapi sem minnstu af hollustuefnum. (Rannsóknastofan Sýni ehf hefur annast efnagreiningar og úttekt á örverum.) Unnið er að því að endurvekja þjóðlega hefð í matargerð með því að stuðla að neyslu á hollu og gómsætu sjávarfangi. Sjávargróður er hollur matur og hluti af matarmenningu hér á landi. Notkun sjávargróðurs spratt af sömu rótum og notkun fjallagrasa og hvanna, skortur var á mjöli og þarategundir góðar til að drýgja það bæði í grauta og brauð. Þessi notkun var snar þáttur í matarvenjum okkar og var jafn þjóðleg fæða og slátur, svið, hákarl og fl. Sjávargróðri er skipt í svifþörunga (smáþörunga) og botnþörunga (stórþörunga). Botnþörungarnir skiptast í þrjá hópa: Brúnþörunga (stórir), rauðþörunga (meðalstórir og smáir) og grænþörungar (smáir).

Margar tegundir af öllum hópunum eru ætar og nýttar til manneldis. Sjávargróður hefur verið nýttur sem matur, áburður og lyf í þúsundir ára. Vitað er að Kínverjar notuðu þara sem lyf um 3000 fyrir Krist. Notkun sjávargróðurs til matar í Japan nær aftur á fjórðu öld og í Kína til sjöttu aldar. Í dag er nýting þara til manneldis lang mest í Japan, Kína og Kóreu. Íslendingar voru það heppnir að nýting sjávargróðurs barst hingað frá Írlandi, en þessi kunnátta hefur því miður að mestu glatast. Í því er mikil eftirsjá, sérstaklega á tímum vaxandi áhuga á hollustufæði. Á Írlandi er nú vakning á notkun sjávargróðurs, sem áður var hluti af matarhefð þar. Eins er í Kaliforníu og á Hawaí, áhuginn er kominn frá fjölda Japana sem býr þar. Á austurströnd US og Kanada í Maine, New Brunswick og Nova Scotia er einnig vaxandi áhugi og markaður fyrir sjávargróður. Sama má segja um Evrópulönd þar sem áhugi hefur aukist á notkun sjóþörunga t.d. í stað salts, sem hollustuvöru og fæðubótarefnis. Alls er talið að um 8 milljónir tonna af sjávargróðri sé nýttur í heiminum í dag. Nær allt þetta magn fer til manneldis. Aðeins lítið brot er notað í skepnufóður, til áburðar og fl.

Eftirtaldar vörur eru á markaði:
þarakrydd,
þarasósur,
hollustusnakk,
kryddlegið sjávargrænmeti.

Heil söl
Söl eru eina tegund þara sem lifað hefur af breytingar á matarræði Íslendinga. Sölin voru mikilvægur þáttur í mat hér á landi gegnum aldirnar og sennilegast vinsælasta snakk okkar. Sölin frá Hollustu úr hafinu eru þurrari en þau söl sem mest hafa verið á markaði undanfarin ár og því líkari þeim sölvum sem margir þekkja frá fyrri tíð.

Uppskriftir
Á vefslóð fyrirtækisins: http://www.simnet.is/hollustaurhafinu má finna hinar ýmsu uppskriftir og eru nokkrar þeirra birtar hér með leyfi.

Brauð með fjallagrösum og sölvum.
2 bollar hveiti
1 bolli heilhveiti
1 bolli haframjöl
1 pk. þurrger
1 msk. sykur
2 dl. sólblómafræ
1 bréf – 20 g möluð söl
1 bréf – 20 g möluð fjallagrös
5 dl. volgt vatn
1. Sjóðandi vatn sett á sölin og fjallagrösin í 2 mínútur.
2. Þurrefnum blandað saman. Vatninu með sölvunum og fjallagrösunum bætt út í. Allt hrært vel. 3. Sett í vel smurt brauðform (1 stórt eða 2 lítil) og látið hefa sig í klukkustund.
4. Bakað í rúmlega klukkustund neðst í ofni við 180gráðu hita.

Sölvasnittur
Snittur eru mótaðar úr grófu brauði og smurðar þunnt. Harðsoðið egg eða hrærð egg sett ofan á. Kryddlegin söl sett ofan á eggið í staðinn fyrir síld, ansjósu, sardínur eða kavíar. Einnig er gott að smyrja rúgbrauð í lögum, þá eru sneiðarnar smurðar með þykku smjörlagi og lagðar saman eins og randalín. Rökum klút vafið þétt utan um. Látið standa í ísskáp í 12 – 24 klst. Mjög gottmeð kryddlegnum sölvum.

Kálréttur
200 g hvítkál, smátt skorið
200 g spergilkál í bitum
2 tsk. stórþarakrydd
4 msk. þarasósa
2 tsk. hunang
Olía til steikingar
Steikið kálið við háan hita. Setjið stórþarakryddið í sjóðandi vatn í nokkrar mínútur. Bætt á pönnuna ásamt hunangi og þarasósu þegar kálið er steikt í gegn.

Síldarsalat án síldar
1 dl. soðnar kartöflur skornar í teninga
1 dl. smátt skorinn laukur
1 dl. niðursoðnar rauðrófur skornar í teninga
1 dl. kryddlegin söl smátt skorin
Látið standa a.m.k yfir nótt eða þar til laukurinn er farinn að linast aðeins. Sýrðum rjóma bætt við að smekk.

Kjúklingasalat án kjúklings
5 msk. grófmaukaðar kjúklingabaunir
5 msk. soðnar makkarónur
1 msk. smátt skorinn laukur
1 bolli ristaður beltisþari mulinn
1 – 2 msk. þarasósa
1/2 -1 dós sýrður rjómi
Hrærið þaranum og þarasósunni saman við sýrða rjómann. Blandið saman baunum, makkarónum og lauk. Blandið öllu saman.

Hversdagssúpa
2 gulrófur
4 gulrætur
1 paprika, græn eða rauð
1 laukur
2 meðalstórar kartöflur
1/2 dl. hýðishrísgrjón



Flokkar:Næring, Uppskriftir

%d bloggers like this: