Íslensku kúabændurnir, eins og erlendir kollegar þeirra, hafa um áraraðir verið ósparir á að útbásúna ágæti kúamjólkurinnar, ekki síst fyrir ungdóminn. Ekki eru þó allir á sama máli um mjólkurágætið.T. Colin Campbell ólst upp á 210 ekra bóndabýli, umvöfðu stórkostlegum grænum gresjum, í nágrenni Shenandoadals í Norður-Virginíu. Strax og hann hafði lært að ganga uppréttur, elti hann föður sinn, Tom Campell, við gegningar sínar á 20 til 30 kúm býlisins.
Og þegar strákurinn hafði aldur til var honum óðara kennt að stritla kýrnar að mjöltum loknum, en kýrnar voru vélmjólkaðar. Hann lærði einnig að sjá um smjörstrokkunina, og á stöku helgum fékk hann einnig að hjálpa þeim vinnumanninum sem sá um handknúnu vélina sem þeytti rjómann í ísvélina. Campbellarnir voru óbrotnir sveitamenn, ekki efnaðir, en fannst sem þeim hefði hlotnast mikil blessun með kúamjólkinni sem þeir fengu daglega beint úr spenanum. Þeim fannst þetta vera uppspretta lífsins.
,,Ég var sannarlega stoltur af vitneskjunni um að einhverntíma, einhvern veginn, myndi ég geta drukkið marga potta af nýmjólk í einu, ef mér sýndist svo“. En þegar fram liðu stundir lá fyrir Campbell aðhelga sig rannsóknum á fæðugildi næringarefna mannsins. Þessar rannsóknir breyttu skoðunum hans á mjólkinni töluvert. Fyrir um tuttugu árum lagði hann fram fyrstu niðurstöður sínar, en rannsóknirnar voru kostaðar af hinu opinbera. Þær fjölluðu um sambandið milli mataræðis og krabbameins og reyndust mikilvægar til að sanna næringargildi kornmatar, ávaxta og grænmetis.
Campbell, sem nú er orðinn 66 ára og því að nálgast eftirlaunaaldurinn hefur starfað sem næringarefnafræðingur við Cornellháskólann, auk þess að vinna að verkefnum fyrir Paracelsian, fyrirtæki sem framleiðir heilsuvörur. Campbell býr við kyrrláta götu nálægt Cornell stúdentahverfisins, og svipar til nágranna sinna. – En þessa dagana kemur ekki svo mikið sem dropi af mjólk inn fyrir varir neins á heimili hans. Í stað matvara úr kúamjólk er ísskápurinn troðfullur af soyaosti, sorbet og rísmjólk. ,,Fólk gæti álitið okkur hreina fávita, þegar það lítur innihald skápsins“, segir hann. „En drykkjarföng af öðrum toga en þeim, sem kúabúin framleiða, geta reynst hið mesta hnossgæti þegar maður er búinn að venjast bragðinu“.
Eins og flestir Bandaríkjamenn, áleit Campbellsfólkið að mjólkurvörur væru ekki aðeins heilnæmar, heldur einnig lífsnauðsynlegur hluti daglegrar fæðu; ekki síst fyrir þá sem vildu tryggja sér góðar tennur og sterk bein. En eftir áralangar vísindalegar rannsóknir, er nú svo komið, að Campbell er sannfærður um, að kúamjólk sé völd að stórum hluta vanheilsu bandarísku þjóðarinnar. Sú staðreynd að fitan í mjólkurvörum getur orsakað æðaþrengsli og hjartasjúkdóma, hefur lengi verið þekkt meðal almennings.
En Campbell hefur líka áhyggjur af því, að þótt fólk snúi sér frá nýmjólk og belgi sig í þess stað út af undanrennu og fitulítilli jógúrt, eða ,,náttúrulega“ framleiddum mjólkurafurðum, – vegna áhyggja af að kýrnar haldi stöðugt áfram að vera undirlagðar neyslu allskyns vafasamra efna, svo sem skordýraeiturs, bakteríudrepandi efna og vaxtahormóna þá veiti það aðeins takmarkaða vernd gegn mögulegum heilsuskaða af völdum mjólkur. Andstætt flestum næringarefnasérfræðingum, dregur hann jafnvel í efa hin vel auglýstu hollustuáhrif mjólkur. Og hann trúir því, að rannsóknir hans leiði í ljós ýmislegt sem starfsbræður hans hafa kosið að leiða hjá sér.
Niðurstaða Campbells er einföld: ,,Það er ónáttúrulegt að drekka mjólk“. Flestir íbúar Asíu og Afríku, ásamt fjölda fólks í Suður-Evrópu og Latnesku-Ameríku, eiga erfitt með að melta laktósa, sem er aðal sykurefni mjólkur, jafnt úr mönnum sem kúm. Sumir sem reyna að neyta hennar, þjást af nefrennsli, sinadrætti eða niðurgangi. Rannsóknir, sem framkvæmdar voru af landfræðingnum Frederick J. Simmons við Kaliforníuháskóla á árinu 1978, gáfu til kynna, að það hafi einungis verið vegna stökkbreytinga (abberration) á manninum, homo sapiens, að mjólkin komst á matseðil íbúa Norður-Evrópu og Norður-Ameríku.
Náttúran sér yfirleitt sjálf um að venja ungviðið af móðurmjólkinni áður en það verður fullþroska. Þetta gerir hún með því að draga úr framleiðslunni á því ensími sem brýtur niður laktósann strax í æsku. En, sem sagt, það skeði ekki í þessu einstaka tilfelli, þannig að framleiðslan á ensíminu hefur haldið áfram hjá þeim þjóðum, sem byggja ofangreind landsvæði, og þær því getað drukkið kúamjólkina ómælt til æviloka án teljandi vandkvæða. Campbell heldur því fram, að höfuð vandamálið í sambandi við kúamjólk sé, að náttúran sjálf sjái um að framleiða sérhannaða mjólk fyrir hverja dýrategund þ.e. sú tegund mjólkur, sem gerir kálfi afskaplega gott, þarf ekki nauðsynlega að reynast barni eða fullorðum manni sérlega vel.
,,Er það ekki skrýtið, að við skulum vera eina dýrategundin á jörðinni, sem sýgur móðurmjólk úr annari tegund?“, spyr hann. Campbell heldur því fram, að kúamjólk örvi óeðlilega framleiðslu á ýmsum ensímum og vaxtahormónum í mannslíkamanum, sem auki hættuna á vissum sjúkdómum. Og meira en það, hann hallast að því, að kúamjólk geri ekki einu sinni það sem henni er helst talið til gildis – að stuðla að vexti sterkra beina. Og nýlegar rannsóknir virðast benda til, að maðurinn þurfi minna af kalsíum til þess að mynda sterk bein en áður var talið, sem og, að ýmsar aðrar fæðutegundir, þeirra á meðal sumar tegundir af grænmeti og belgjurtum henti okkur betur sem kalsíumgjafi en kúamjólkin. ,,Það er vart hægt að ímynda sér lakari aðferð til að sjá mannslíkamanum fyrir hæfilegu magni af kalsíum heldur en neysla mjólkur“, er haft eftir Neal Barard, forstöðumanni læknasamtaka sem berjast fyrir neyslu grænmetis og eru andsnúin mjólkurdrykkju.
Af um það bil 100.000 meðlimum samtakanna, eru nálægt 5.000 háskólalærðir læknar. Bæði Barnard og Campbell, sem er vísindalegur ráðgjafi hópsins, halda því fram að starfsmenn stjórnarinnar hafi hundsað mjólkina sem mögulegan skaðvald fyrir heilsu neytenda. Í desember síðastliðnum, stefndu samtökin bandarísku landbúnaðar- og heilbrigðisráðuneytunum fyrir að mismuna hagsmunaaðilum með opinberum meðmælum í garð sumra þeirra, en ekki annarra. Hjá USDA, segir læknanefndin, eru tvær andstæðar fylkingar: Önnur berst fyrir hagsmunum mjólkurbænda, hin fyrir góðri næringu til handa neytendum. En, hvað ef nú kemur í ljós, að mjólkurvörurnar sem starfsmenn á vegum ríkisstjórnarinnar mæla með séu ekki eins hollar og af þeim er látið? Heilbrigðisráðunautar stjórnarinnar halda því fram, að hættan á vanheilsu af völdum mjólkur sé hverfandi. Ennfremur, að ráðleggingar þær sem settar hafa verið þess efnis, að neysla á mjólkurafurðum sé besti kosturinn til að tryggja líkamanum nægjanlegt magn af kalsíum, séu fullkomlega raunhæfar, þegar tekið er tillit til neysluvenja Bandaríkjamanna.
„Það er ekkert sem mælir gegn kalsíum úr jurtaríkinu“, segir Eileen Kennedy, deildarstjóri í Akur- yrkjudeild Landbúnaðarráðuneytisins. „En við verðum að tengja heilbrigða neyslu við þær neysluvenjur sem eru ríkjandi á hverjum stað á hverjum tíma“. Að mati Campbells er þetta misvísandi röksemdafærsla. Ástæðuna fyrir því að fjöldi Bandaríkjamanna aðhyllist mjólkurvörurnar, segir hann vera, að með mjólkurneyslunni haldi þeir sig vera að tryggja sér heilbrigt líf.
Gregory Miller, varaforseti Næringarrannsókna mjólkuriðnaðarins, hafnar algerlega læknanefndinni, þar sem nefndin sé fyrst og fremst í forsvari fyrir rétti dýranna. „Ef neytendurnir vilja fá neysluráðgjöf, ættu þeir að leita til þeirra sem starfa að heilbrigðismálum .“ Hér er verið að halda því fram að menn eigi ekki að snæða þá tegund matvæla, sem þeir fá daglega 75% af nauðsynlegu kalsíum úr. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir börn, þar sem sumum börnum geðjist ekki að ýmsum grænmetistegundum, svo sem brokkáli, kale og brussels spírum. Campbell, sem trúir því að dýraprótín sé skaðlegt heilsu manna, segist síður en svo vera nokkur dýraverndunarsinni. Hann álítur þó að tilraunir með dýr séu nauðsynlegar til að ná árangri í rannsóknum.
Lauslega þýtt úr ágústhefti Discover, árið 2000.
Höfundur: Einar Þór Einarsson árið 2000
Flokkar:Næring