Dagana 18.-21. 1995 var haldin á Loftleiðahótelinu samnorrœn ráðstefna um fitur og olíur í fæðu. Undirritaður átti þess kost að sitja þessa ráðstefnu og hér á eftir verður sagt örlítið frá því hvað þar var rætt um. Fyrirlestrar voru haldnir í tveimur sölum samtímis, svo að í vissum tilfellum varð að sleppa öðrum hvorum af tveimur áhugaverðum fyrirlestrum. Það kann því að vera, að sá er þetta ritar hafi misst af einhverju sem fróðlegt hefði verið að heyra. Þó að ráðstefnan væri að mestum hluta skipuð fólki frá Norðurlöndunum voru nokkrir fyrirlesarar frá öðrum löndum t.d. Englandi, Frakklandi og Japan.
Fyrstur tók til máls David F. Horrobin, sem einkum er þekktur hér á landi fyrir skrif um.gagnsemi fituefna við lækningar. Hann kynnti t.d. fyrstur manna hina umdeildu kvöldvorrósarolíu á Norðurlöndum og hefur skrifað nokkrar bækur um læknisfræðilegt gagn sem hafa má af fjölómettuðum fitum. Nú starfar hann við lyfjafyrirtæki í Englandi en áður var hann prófessor í Kanada. Hann ræddi um mikilvægi fita í nútíma lyfjaiðnaði. Flest lyfjafyrirtæki, sagði hann, byggðu lyf á próteinefnum eða efnum sem verka á próteinefni í líkamanum, t.d. efni sem verka á ensím eða viðtaka á frumum.
Hans lyfjafyrirtæki einbeitir sér einkum að fituefnum, bæði sem undirstöðuefnum í lyf og einnig sem burðarefnum fyrir sameindir með líffræðilega virkni. Sumar fitusýrur eða afleiður þeirra hafa beina líffræðilega virkni. Þar má nefna gamma-línólensýru úr t.d. kvöldvorrósarolíu eða EPA eða DHA úr sjávardýrafitu, en þessar fitusýrur eru forefni fyrir fjölmörg líffræðilega virk efni svo sem prostaglandin, leukotrien og thromboxanefni.
Lyfjafyrirtæki hans framleiða nú eða eru að þróa lyf til að nota við heilsufarsleg vandamál eins og sykursýki, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Horrobin er frábær fyrirlesari og mér fannst persónulega mikill fengur í að fá tækifæri til að hlusta á hann. Ég var kynntur fyrir honum „sem maðurinn sem kynnti rannsóknir hans á Íslandi.“ Hann spurði mig hvort ég hefði lesið síðustu bækur hans, sem ég hafði ekki gert. Hann kvaðst þá munu senda mér þær, þegar hann kæmi til Englands, sem hann gerði. Ég hef ennþá ekki haft tíma til að lesa þær að neinu ráði en segi e.t.v. síðar frá einhverju sem í þeim stendur
Sigmundur Guðbjarnasson, fyrrverandi háskólarektor ræddi um fitur í frumuhimnum og viðtaka fyrir streituhormóna í hjartavöðva á rottum. Athuguð var fitusýrusamsetning mismunandi gamalla rotta sem aldar voru á fóðri auðugu af maísolíu, smjöri eða lýsi. Fóðrið hafði áhrif á fitusýrusamsetningu hjartavöðvans og viðtaka fyrir streituhormóna. Einnig kom fram munur á skyndidauða eftir örvun með streituvaldandi efnasambandi (ísóprótemol). Flestar rottur drápust úr þeim hópi sem smjörið fengu en fæstar úr hópnum sem fengu lýsi. Einnig hafði aldur áhrif á bindieiginleika viðtakanna í hjartavöðvanum. Efni erindisins var svo flókið og viðamikið, að því verða ekki gerð viðunandi skil nema í sérstakri grein.
Prófessor Francois Le Goiff frá París flutti mjög áhugavert erindi um möguleika sem felast í fitum og afleiðum af fitum til lækninga. Hann nefndi ýmsa möguleika t.d. bólgueyðandi efni eða lyf, lyf gegn krabbameini og veirum og lyf til að hindra ensímið kolin esterasa, sem sennilega bætir minni og er jafnvel gagnlegt við Alzheimerssjúkdómi. Þar sem höfundur heyrði erindið aðeins einu sinni, treysti hann sér ekki til að fara nánar út í þessa hluti en ef efni ráðstefnunnar verður síðar gefið út, er líklegt að margt fleira áhugavert finnist í ræðu Le Goiffs.
Nokkrir Finnar voru með erindi um mikilvægi E-vítamíns í lýsi. Gerðar voru prófanir á lýsi með 1,5 alþj. ein og 6 alþj. ein. í grammi lýsis í tvíblindri víxlprófun sem stóð í 4 vikur en notaðir voru 30 ml af lýsi á dag. Lipoprótein (a) (talin áhættuþáttur kransæðasjúkdóma) lækkaði um 22 og 16%, tnglycerið lækkuðu um 43 og 41% og hlutfallið á milli insúlín í blóði og blóðsykurs var aðeins betra í þeim sem meira E-vítamín fengu. Munur milli þessara tveggja hópa var því ekki marktækur að mati rannsóknarfólksins en lýsið gaf aftur á móti vel marktækan mun til bóta.
Guðmundur G. Haraldsson og Atli Thorarinsen frá Raunvísindastofnun Háskólans lýstu aðferð sem þeir hafa verið að þróa til að búa til lesitín með hátt hlutfall af omega-3 fitusýrum. Kannski getum við farið út í búð og keypt þannig lesitín, sem nefna mætti fiskilesitín, innan tíðar í stað gömlu góðu lýsisflöskunnar. Japani að nafni Shum Wada ræddi um fitusýruna DHA (docosahexaensým) sem finnst í allmiklum mæli í feitum kaldsjávarfiski og lýsi. DHA er af omega-3 fitusýruröðinni (sjá grein í H.h. 1-2 tbl. ’87).
Hann sagði að omega-3 fitusýrumar (EPA og DHA) væru nú viðurkennt lyf gegn æðakölkun í Japan. Á síðustu árum hefur áhugi vísindamanna ekki síst beinst að DHA og afleiðum af DHA og EPA. Sjávardýrafita er nú notuð í margskonar heilsufæðu í Japan. Þetta leiddi til vandamálsins sem fylgir oxun þessara efna, en þessar há-fjölómettuðu fitur oxast mjög auðveldlega eða „þrána“ eins og það er kallað. Ýmislegt má gera til að seinka því, t.d. blanda í olíuna E-vítamíni eða öðrum þráavarnarefnum.
Marvina Heinonen frá Finnlandi ræddi meira um hvernig hindra mætti þránun fituefna. Náttúruleg þráavarnarefni em t.d. tokoferol (E-vítamín), askorbinsýra (C- vítamín), askorbyl palmitat (C-vítamín afleiða), og sítrónsýra. Einnig eru til margskonar jurtaextraktar sem eru öflugir oxunarvarar, þ.m.t. ýmiskonar kryddjurtir t.d. jurtin „rosemary“, sem inniheldur efnið fenolditerpen. Oft eru blöndur tveggja eða fleiri þannig efna betri en meira magn eins þeirra, vegna samvirknis (synergistic) áhrifa. T.d. er betra að nota bæði E-vítamín og karótínefni, heldur en nota annað hvort eða nota E-vítamín og rosemary saman.
Margt fleira var rætt um oxun og stöðugleika fituefna og matvæla sem innihalda fitu, t.d. oxun á rjómadufti í loftþéttum umbúðum. Nokkrir sænskir rannsóknarmenn báru saman oxunarhraða á kornvöru, bæði í upphaflegu ástandi og einnig ef að búið var að meðhöndla hana á ýmsa vegu. Of langt mál væri að ræða það hér í smá atriðum en rannsóknirnar sýndu, það sem reyndar mátti búast við, að oxunarhraði kornvörunnar sem í þessu tilfelli var bygg, margfaldaðist við vinnsluna miðað við óunna kornvöru. Þetta ætti, e.t.v. að árétta fyrir fólki að nota frekar kornvöru í upprunalegri mynd, heldur en kaupa ýmiskonar tilbúna rétti sem okkur er sagt að séu heilkornsafurð.
Margrét Bragadóttir og Snorri Þórisson báru saman mismunandi oxunarvarnarefni til að verja oxun á loðnu- og þorskalýsi. Niðurstöðumar voru að tilbúin þráavarnarefni voru til muna öflugari en náttómlegir oxunarvarar (herbalox, E-vítamín).
Charlotte Jacobsen frá Danmörku ræddi um að nota lýsi í majones. Gerðar hafa verið allmiklar tilraunir í Danmörku til þess með misjöfnum árangri. Einkum er það vandamál hversu fljótt lýsið þránar. Oxunarvarnarefni virtust koma að takmörkuðu gagni í majones, enda þótt þau verkuðu vel í óblönduðu lýsi. Gerðar hafa verið tilraunir með lýsi sem í blöndunarefni í önnur matvæli með betri árangri.
Jóhann Axelsson og margir fleiri sögðu frá samanburði á Íslendingum í Múlasýslum og Vestur-Íslendingum, sem ættaðir eru frá sömu slóðum á Íslandi. Engin minnsta ástæða er til að ætla að neinn umtalsverður erfðafræðilegur munur sé á þessu fólki. Eigi að síður kom fram umtalsverður munur á blóðfitu og omega-3 fitusýrum í þessu fólki. Þrisvar sinnum meira var af omega-3 fitusýrum í blóðvökva Íslendinga á Íslandi en í Vestur-Íslendingum. Þá eru kransæðasjúkdómar töluvert algengari meðal Vestur-Íslendinga en á Íslandi.
Einnig kom fram að á 10 ára tímabili frá 1980-90 höfðu áhættuþættir kransæðasjúkdóma hjá íbúum Fljótsdalshéraðs aukist umtalsvert, án þess þó að heildar kolesterol í blóði hefði breyst. Mjög sterkar líkur benda til að breytt mataræði sé ástæðan fyrir þessu hvorn tveggja. Í öðru erindi kom fram að íslenskt dilkakjöt sé töluvert auðugra af omega-3 fitusýrum en annað dilkakjöt. Frá öðrum rannsóknum er einnig vitað að nokkuð er af omega-3 fitum í hrossakjöti. E.tv. er minnkandi neysla dilkaog hrossakjöts því ekki jafn heilsusamleg og sumir vilja láta.
Nikulás Sigfússon sagði frá rannsóknum Hjartaverndar á blóðfitu. árið 1967 var meðal kolesterol í blóði Íslendinga með því hæsta sem þekktist. Síðan hefur það stöðugt farið lækkandi. Tríglyceríð voru aftur á móti mjög lág en hafa farið hækkandi og eru nú sambærileg við önnur Norðurlönd. Á sama tíma hefur kransæðatilfellum á Íslandi fækkað umtalsvert.
Jórunn V. Valgarðsdóttir og nokkrir aðrir sögðu frá rannsókn á hvort þorskalýsi geti lækkað tríglyceríð í blóði. Á sex vikum lækkuðu tríglyceríðin um nálægt 40%. Einnig lækkaði adrenalín og fitusýran arakidonsýra marktækt. Ekki reyndist marktækur munur á hvort notaðir voru 15 eða 30 ml og þorskalýsi.
Eija Viinanen frá Helsinki ræddi um rannsóknir á hvernig olía í djúpsteikingarpottum breytist við notkun. Gerð var efnagreining á olíunni, þegar hún var látin í pottinn, eftir þrjá tíma, sex tíma og níu tíma. Niðurstaðan var hrollvekjandi eins og reyndar mátti búast við. Við notkunina mynduðust ýmsar oxaðar og óoxaðar fjölliður af fitusýrum. Eftir níu tíma var svo komið að nálega ekkert var eftir af óskemmdri olíu. Það sem í pottinum var voru þessar fjölliður. Þó að það kæmi ekki fram í erindinu verður að benda á að mörg þessara efna eru eitruð, t.d. öflugir krabbameinsvaldar.
Kannski eiga djúpsteiktar kartöflur og annað ,,góðgæti“ sem unglingar sækja mikið í, stærstan þátt í þeirri uggvæn- legu aukningu á vissum krabbameinstegundum sem orðið hafa á seinni árum. Vitað er að eitthvert samband er á milli fituneyslu og krabbameina í brjóstum og sennilega blöðruhálskirtli. Gæti verið að oxaðar fjölliður eitraðrar fitu í djúpsteikingarpottum sé ástæðan? Ég hef nú tæpt á því markverðasta, að mínu mati, sem rætt var á ráðstefnunni. Eins og ég gat í upphafi fór hluti ráðstefnunnar fram á tveimur stöðum í einu, svo að ekki var hægt að hlusta á alla fyrirlestrana. Vel má því vera að ég hafi misst af einhverju áhugaverðu.
Ráðstefnan fór hið besta fram og var þeim sem að henni stóðu til sóma. Ég þakka Guðmundi Haraldssyni og yfirmönnum mínum við Raunvísindastofnun Háskólans fyrir að gera mér kleyft að sitja þessa ráðstefnu.
Höfundur: Ævar Jóhannesson skrifað árið 1995
Flokkar:Greinar, Skrif Ævars Jóhannessonar