Þrýstipunktameðferð og nudd á meðgöngu og í fæðingu

Erindi flutt á haustfundi Heilsuhringsins 1994

Hér mun ég fjalla um nudd og þrýstipunktameðferð á meðgöngu og í fæðingu. Ég lærði nudd 1978-1979 og hef notað nudd mikið í mínu starfi sem hjúkrunarfræðingur. Síðastiðið vor útskrifaðist ég frá Ljósmóðurskóla Íslands. Strax við upphaf náms fannst mér spennandi að tengja nudd meðgöngu og fæðingu. Hér ætla ég að segja ykkur frá reynslu minni þessi tvö ár sem ég hef starfað með konum á meðgöngu og í fæðingu. Fyrst ræði ég almennt um nudd, síðan tek ég fyrir meðgöngukvilla og að lokum fjalla ég um fæðnguna sjálfa, hvernig hægt er að lina sársauka í fæðingu án lyfja.

Nudd er jafngamalt sögunni og fyrirfinnst í öllum menningarsamfélögum heims í einu formi eða öðru. Mannfræðingurinn George Engelmann, sem rannsakaði frumstæðar hefðir og menningu, skrifaði  árið 1884: „Ég hef hvergi rekist á þjóðflokka, fumstæða eða nútímalega, sem ekki nota nudd að einhverju leyti við barnsfæðingar“. Í Kína er nudd mikið notað og nudd ásamt nálastunguaðferðinni er oftast eina verkjameðferðin sem þarlendar konur fá.

Til langs tíma voru nálastungur notaðar við keisaraskurði, en eftir að tíðni keisaraskurða  jókst  tóku Kínverjar að nota mænurótardeyfingu til að spara sér tíma. Ástæðan fyrir því að nudd glataði svo miklu fylgi á Vesturlöndum má  sjálfsagt rekja til framfara í læknaísindum á nítjándu öld. Nudd var þá ekki lengur talið nauðsynlegt sem meðferðarform.  Lengi var nudd þó stundað af sjúkraþjálfurum en vinsældir þess minnkuðu verulega þegar þeir fóru að aðhyllast nútímalegri meðferðarform ásamt notkun ýmissa hjálpartækja.

Síðustu ár hefur vaknað mikill áhugi meðal fólks víða um heim á náttúrulegum aðferðum til heilsubóta. Konur eru meðvitaðri nú en áður um lyf og áhrif þeirra, og nútímakonan leitar annarra leiða. Ef nudd getur komið í stað lyfja, því ekki að nota það. Að sjálfsögðu er ekki hægt að lækna alla meðgöngukvilla með nuddi, en marga er hægt að laga og suma að lækna.

Fyrst  vil ég nefna algengasta meðgöngukvillann, ógleðina, en 50-80% kvenna þjást af ógleði og vanlíðan á fyrstu vikum meðgöngunnar. Orsökin er ekki þekkt til hlítar en ýmsar skýringar eru þó til, t.d. hormónabreyting og breyting á lífeðlisfræði meltingarvegarins. Aðrir hafa reynt að útskýra ógleði út frá sálgreiningu og sálfræðikenningum.  Margar  þessar kenningar endurspegla ævagamla fordóma gagnvart konum og engin þeirra brýtur til mergjar þau áhrif sem margra mánaða ógleði og uppköst hafa á andlega og líkamlega virkni þungaðra kvenna.

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum nudds á ógleði en þó er hægt að benda á nokkrar sem staðfesta að þrýstipunktanudd,  þ.e. fingurþrýstingur á ákveðna punkta, hefur góð áhrif á konur sem þjást af ógleði og uppköstum. Slík meðferð er tvímælalaust talin geta dregið úr eða læknað ógleði á með-göngu. Ég ætla ekki að nefna alla þessa punkta hér, en einn punkt ætla ég að benda ykkur á, það er Neiguan p..e.6 punkturinn sem staðsettur er þremur fingurbreiddum (5 cm.) fyrir ofan úlnliðinn á milli sinanna á framhandlegg. Núorðið er hægt að kaupa armbönd, eins og prjónastroff, en í stroffinu er steinn sem hafður er beint yfir þessum punkti, og þykir sannað að þetta hafi áhrif til bóta.

Ég hef notað þessa punkta ásamt öðrum þegar ég hef haft konur með ógleði í meðferð. Þá hvet ég þær til að kaupa sér armbönd og  nudda þann punkt sem oftast. Mér áskotnaðist lítið undratæki sem nuddarar nota orðið mjög mikið til að finna þrýstipunkta eða nálasungupunkta. Þetta er rafeindatæki sem gefur stuttar rafbylgjur þannig að punktarnir örvast. Segja má að þetta sé nálastungutæki án þess að rjúfa húð. Þetta  tæki hef ég notað þegar konur hafa leitað til mín með ógleði og gef ég rafbylgjur á 6 punkta. Hver meðferð tekur u.þ.b. 5 mínútur, hver kona hefur komið til mín í 4 skipti fyrstu vikuna og 3 skipti þá næstu, samtals 7 skipti.

Ég hef að gamni mínu tekið saman yfirlit um þær konur sem ég hef tekið í nudd, og árangurinn er með ágætum. Af  23 konum fengu 20 fullan bata eftir meðferðina, en 3  konur fundu breytingu til batnaðar en ógleðin hvarf ekki alveg. Þessar 3 konur voru komnar lengra en 12 vikur á meðgöngu. Ég tel það staðfesta rannóknir sem gerðar hafa verið í Danmörku þess efnis að því fyrr sem konur koma í með-ferð því betri árangur. En konurnar verða að koma í meðferðina áður en þær eru orðnar það veikar, að það stefni í spítalavist vegna vökvaójafnvægis í líkamanum. Ég hef mest leitast við að hjálpa konum sem þjást af ógleði, en einnig konum sem kvarta yfir sina-drætti, hægðatregðu, brjóstsviða, gyllinæð og bjúg. Það er ánægjulegt að sjá hvað nudd hefur einnig ótrúleg áhrif til góðs hvað þessi atriði varðar hjá konum á meðgöngu.

Konur sem ganga með börn nú á dögum eru flestar mjög náttúrulega sinnaðar. Þær hafa flestar ákveðnar skoðanir um stöður og stellingar í fæðingunni og óska þess að hafa fæðinguna sem „náttúrlegasta“, þar kemur nudd inn í. Það er hægt að beita nuddi af öllum gerðum í fæðingunni meira að segja nægir oft að snerta konuna til að henni líði betur. Margt er enn órannsakað og lítt þekkt hvað varðar áhrif mannlegrar snertingar, því slík áhrif geta verið mjög breytileg og ekki alltaf fyrirsjáanleg. Margir þættir geta haft áhrif þar á, t.d. menningarlegur bakgrunnur, andleg og líkamleg líðan og eðli þess sambands sem ríkir  milli þess sem snertur er og þess sem snertir. Í okkar vestræna hátæknivædda heimi er kona í fæðingu mun minna snert en fyrr á tímum þegar tilgangur snertingarinnar var  að aðstoða konuna við að koma sér vel fyrir, örva sótt  og lina sársauka. Lyf og önnur tæknileg inngrip í fæðinguna hafa mikið til komið í staðinn fyrir snertingu.

Nudd það sem ég hef notað í fæðingum er  þrýstipunktanudd  og  slökunarnudd. Samkvæmt kínversku læknisfræðinni eru nokkrir þrýstipunktar sem minnka sársauka við barnsfæðingar. Þessir punktar eru mjög næmir á útvíkkunartímabilinu og þrýstingur á þá hefur ótrúleg áhrif. Rannsóknir þær sem gerðar hafa verið á sársauka síðustu áratugi skýra að hluta til þau áhrif sem þrýstingur yfir nálarstungupunktum veldur  í líkamanum. Vísindamenn hafði lengi grunað að einhver „líkamleg morfínefni“ væru til, eftir að viðtakar fyrir morfíni fundust í miðtaugakerfinu. Um miðjan síðasta áratug fundust a.m.k. þrjú mismunandi líkamsmorfín, Beta-endorfín, enkefalín og dýnorfín, sem á fræðimáli kallast einu nafni endorfín (endogen morphine, líkamleg morfín).

Margt er enn á huldu um það hvaða áhrif líkamsmorfín hafa, en þau verka fyrst og fremst eins og verkja-hormón í líkamanum. Sálfræðingurinn Ronald Melzack  og breski líffærafræðingurinn  D. Wall birtu kenningu um „sársaukagátt“ í mænunni árið 1965 (The Gate Control Theory and Pain). Í stuttu máli fjallar þessi kenning um það að í afturhorni mænunnar, þar sem aðfærslutaugar (skyntaugar) frá hinum ýmsu hlutum líkamans koma inn í mið-taugakerfið, sé nokkurs konar skiptistöð eða hlið. Sársaukaboðin  berast eftir fíngerðustu skyntaugum að skiptistöðinni í afturhorni mænunnar og þaðan eftir sársaukabrautinni (tractus spinothalamicus) upp í heila.

Fyrst þegar boðin hafa náð þangað skynjum við sársaukann. Ef önnur skynboð berast samtímis sársaukanum inn í miðtauga-kerfið, t.d. við snertingu, titring eða þrýsting  (nudd, þrýstipunktanudd, nálarstung-ur), verður samkeppni í skiptistöðinni um það hvaða boð fái forgang til heilans. Þau boð sem berast eftir grófari skyntaugum (snerting, titringur eða þrýstingur) valda því að endorfin myndast í afturhorninu þegar boð koma frá heilanum (miðheila) og stöðva þá sársaukaboðin á sama hátt. Þannig má á myndrænan hátt segja að „hliðinu“ í afturhorni mænunnar megi loka bæði utanfrá með því að örva grófari skyntaugar og innanfrá með því að virkja stjórn-brautir frá heila.

Ekki er að fullu vitað á hvern hátt örvun á nálastungupunkta hefur áhrif á heilann sjálfan, en ýmsir telja að hluta áhrifanna sé að finna í örvun á svæði í miðheila. Þannig er talið fullvíst að meðferðin hafi bæði bein líkamleg áhrif og einnig sálræn, enda er nú almennt talið að hinn sálræni þáttur (placebo áhrif) virki í gegnum líkamsmorfín.Rannsóknir hafa leitt í ljós að ná má fram sömu áhrifum með nálum, nuddi, fingurþrýstingi, hita og raförvun. Melzack og Wall komu ennfremur fram með þá tilgátu að hver skynjun sem bærist til heila væri sundurgreind m.t.t. tíma, staðsetningar og styrkleika, og einnig örvaðist tilfinning fyrir vanlíðan og óþægindum sem kæmi af stað viðbrögðum til að minnka skaðlegt áreiti. Síðan væri skynjunin sundurgreind m.t.t. fyrri reynslu, mögulegrar útkomu, þýðingu sársaukans o.s.frv.

Sársauki er því flókin skynjun, þar sem upphaflega skynjunin er sundurgreind áður en hún kemur fram sem svörun. Fyrri verkjasaga einstaklingsins, aðstæður og andleg líðan hafa ekki eingöngu áhrif á viðbrögð hans við sársauka, heldur einnig túlkun hans á sársauka. Aðstæður sem valda hræðslu og ótta auka verki og það að vera viðbúinn sársauka eykur hann einnig. Á þessari kenningu byggist sú verkjameðferð  hjúkrunar að vera til staðar, svara spurningum og dreifa huga viðkomandi. „Lamaze-aðferðin“ sem víða er notuð í foreldrafræðslu byggist á því að ná fram slökun sem nýtist konunni til að ná valdi á sjálfri sér og vinna þannig með sársaukann í fæðingunni.

Það eru ekki allar konur sem vilja láta snerta sig, en þær sem þiggja nudd á útvíkkunartímabilinu eru mjög ánægðar. Þær slaka á á milli verkja og finna minna fyrir verkjum í hríðunum, en þar kemur kenningin um sársaukagáttina inn í, samanber umræðna um kapphlaupið að hliðinu í mænunni hér að framan. Eins og fyrr segir eru nokkrir þrýstipunktar mjög næmir í fæðingunni, því er auðvelt að ná fram árangri með þrýsti-punktanuddi. Nokkrar konur sem fengið hafa þessa meðferð í fæðingunni segja hana vera eins og tvöfalda Pethidin sprautu, svo góð væri slökunin, og einstaka konur finna nær enga verki allt útvíkkunartímabilið.

Að lokum. Lokaverkefni mitt í Ljósmæðraskóla Íslands fjallaði um nudd á meðgöngu og í fæðingu, við vorum tvær sem unnum saman að þessu verkefni. Við fengum sendar margar greinar, bækur og blöð frá ýmsum löndum sem fjölluðu um nudd á meðgöngu og í fæðingu. Á Norðurlöndunum er nudd mjög mikið notað til að hjálpa konu á meðgöngu og fæðingu. Það sem kom okkur mest á óvart var það hversu Ísland er langt á eftir í þessari umfjöllun. Víða á Norðurlöndum er svæðameðferð, slökunarnudd og þrýstipunktanudd hliðargrein innan fagstétta, þar á meðal hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lækna. En vonandi erum við nú í miðri náttúruvakningunni að ranka við okkur og farin að geta nýtt okkur þekkingu annarra landa á þessu sviði. Því vissulega er nudd góð viðbót þá þjónustu sem við þegar veitum

Höfundur: Anna Eðvaldsdóttir ljósmóðir , árið 1995



Flokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg,

%d bloggers like this: