Fjallagrös græða mein

Fyrstu minningar mínar um fjallagrös eru hve óskaplega rammt var af þeim teið sem mikið var notað ef kvefpest gekk og var drifið í okkur krakkana hvað sem við sögum. Ég held næstum því að við hefðum heldur viljað vera áfram veik og liggja þá lengur í rúminu, en fullorðna fólkið hafði tröllatrú á þessu og á réttu að standa sem oftar. Til þess að gera teið heldur aðgengilegra var gefinn kandísmoli ef hann var þá til, annars einhver annar sykur. Á bernskuheimili móður minnar voru fjallagrös töluvert notuð, eins og á flestum heimilum, aðallega var að spara útilátið, en með auknum innflutningi á kornvöru hefur það lagst af að mestu.

Einnig vegna búferlaflutninga úr sveitinni í þorpin og kaupstaðina hefur þótt auðveldara að fara í verslunina enda höfðu menn ekki tækifæri til mikilla fjallaferða eða útiveru vegna sívaxandi daglaunavinnu hjá konum jafnt sem körlum. Í sveitinni hélst þetta við eitthvað lengur, en í minna mæli en áður, því langar mig að segja sögu um lækningamátt fjallagrasa. Móðir mín, Guðbjörg Erlendsdóttir frá Ekru í Stöðvarfirði, þjáðist af einhverri slæmsku í maga í mörg ár. Hún fór nokkrar ferðir til Reykjavíkur að leita sér lækninga, fékk þann úrskurð hjá magasérfræðingi að hún væri með ristilbólgu, fékk einhver lyf, en ekkert dugðu þau.

Það varð henni til happs að bóndi ofan úr Héraði, Þórhallur Jónasson frá Breiðavaði í Eiðaþinghá, var á ferð um Austurland í jarðamælingum, ásamt föðurbróður mínum Sveini Benediktssyni og gistu þeir á Ekru. Þá barst í tal hve móðir mín væri illa haldin af þessum magakvilla. Þórhallur sagðist geta ráðlagt henni töfralyf. Hún þyrfti ekki annað en drekka fjallagrasate daglega þá myndi þetta alveg hverfa. Hún fór að ráðum hans, sauð te, setti á flöskur og notaði sem heilsudrykk. Ekki var liðinn langur tími þar til hún var albata. Hún hélt áfram að nota grösin, fór til grasa, tók vinkonur sínar með, stundum bjuggu þær til hlóðir í ferðinni og hituðu te sem þær drukku með nestinu.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi um fólk sem hefur læknast af ýmsum sjúkdómum, magaveiki, ofnæmi, nýrnaveiki o.fl. en of langt yrði upp að telja. Ég hef notað mikið fjallagrös á mínu heimili í þau 50 ár er ég hef búið. Ég þakka það ekki síst þeim að börnin mín fimm hafa aldrei þurft á sjúkrahúsvist að halda, meira að segja þó þau séu flutt að heiman og hafi breytt um mataræði því lengi býr að fyrstu gerð. Ég gaf þeim stundum grasamjólk á pelann sinn. Eiginmaður minn hefur alveg læknast af astma er hann hafði fyrr á árum. Nú tínir hann öll okkar grös og hreinsar og getur miðlað öðrum.

Ég hef fyrir fastan sið að sjóða grasagraut (grasamjólk) einu sinni í viku, sé afgangur frá hádeginu nota ég hann annað hvort að kvöldinu eða daginn eftir, sýð þá aðeins uppá og bragðið verður enn betra. Grasamjólk þarf að sjóða minnst í 15-20 mínútur. Einnig nota ég fjallagrös í rúgbrauð, en ég baka alltaf handa heimilinu, gef þá stundum vinum og kunningjum, veit ekki annað en þau líki mjög vel. 1 þau hef ég rúgmjöl, svolítið haframjöl, hveitiklíð eða byggmjöl (þetta íslenska), söxuð fjallagrös, og sjóðandi vatn. En það þarf að hnoða meira upp í þessi brauð en önnur, annars vilja þau verða of lin Svo seyði ég þau í ofninum við ca. 100 gráðu hita í 7-8 klukkutíma.

Til gamans spurði ég einu sinni lyfjafræðing hvort þeir notuðu ekki fjallagrös í lyfin. Jú hann sagði það vera svo ég bauð honum að selja þeim grös. En þau voru þá flutt inn frá Danmörku, dæmigert fyrir Íslendinga.

Höfundur: Þorbjörg Einardóttir



Flokkar:Jurtir

%d bloggers like this: