Framtíð án ofbeldis

Geta nýjar leiðir í uppeldismálum komið í veg fyrir ofbeldishneigð? Rætt við Hugó. L. Þórisson sálfræðing árið 1990.

Sálfræðingarnir Hugó L. Þórisson og Wilhelm Norðfjörð hafa undanfarin ár staðið fyrir námskeiðum sem þeir nefna „Samskipti foreldra og barna“.Foreldrar sem sótt hafa þessi námskeið hafa tjáð okkur að aðferðin sem kennd er, sé einföld, en feyki áhrifamikil til að leysa samskiptaörðugleika við börn og unglinga. Þeir segja að eftir að þeir náðu tökum á grundvallar kenningu þessara námskeiða sem er: Virk hlustun og taplausa samningaleiðin, hafi „óeirða og ofbeldisseggir“ breyst í mestu ljúflinga.Hér fer á eftir viðtal við Hugó L. Þórisson, þar sem við forvitnumst um tildrög þessara námskeiða og spyrjum hann hvort hegðunarvandamál barna og unglinga megi rekja til uppeldis og skólagöngu.

Hugó: Við sækjum fyrirmynd þessara námskeiða til dr. Thomasar Gordons, sem er bandarískur sálfræðingur. Upphaflega byrjaði hann starf sitt með fræðslu í mannlegum samskipturn og námskeiðum fyrir foreldra um samskipti foreldra og barna. Þessi námskeið urðu mjög vinsæl og eru nú haldin að hans fyrirmynd í nær 30 þjóðlöndum. Það var árið 1981 að ég kynntist hugmyndum dr. Thomasar Gordons sálfræðings um mannleg samskipti.

Ég var þá í tveggja mánaða starfskynningu í Danmörku sem skólasálfræðingur og heyrði bókina hans TET ,,Teacher Effectiveness Training“ nefnda á kennarafundi. Þar kom fram að þarna væri á ferðinni hagnýt bók, sem allir kennarar ættu að kynna sér og hentaði vel til samlestrar. Ég keypti þessa bók á dönsku „Trivsel i klasseværelset“ og rak þar fyrst augun í, á hvern hátt dr. Gordon setur fram hugmyndir sínar. Það heillaði mig mest við lestur bókarinnar, á hversu einfaldan hátt höfundinum tekst að setja fram grundvallaratriði í sálfræðilegri meðferð án þess að þynna þau of mikið út né gera þau það flókin að erfitt sé fyrir áhugafólk að tileinka sér þau.

Þessi bók dr. Thomasar Gordons og kennsla í þeim aðferðum, sem þar eru kynntar, hefur m.a. verið tekin upp við Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla ríkisins. Einnig hafa verið haldin sumarnámskeið í efninu fyrir starfandi kennara og námskeið á starfstíma skóla innan endurmenntunardeildar Kennaraháskólans. Fljótt varð ljóst að þessar hugmyndir og aðferðir voru í miklu samræmi við viðhorf þeirra sem vinna að uppeldisstörfum á Íslandi.

Kennarar, fóstrur, þroskaþjálfar o.fl. fundu út, hve hagnýtar þessar aðferðir eru og að unnt mundi að beita þeim í samskiptum við aðra, ekki einungis börnin, heldur i öllum mannlegum samskiptum. Foreldrum er kennt um en ekki kennt. Reynsla mín sem skólasálfræðingur í 10 ár hefur sýnt mér, að fjöldi foreldra beitir uppeldisaðferðum, sem þeir eru ósáttir við, en tekst ekki að losa sig undan.

Flestir foreldrar hafa verið aldir upp við valdbeitingu. Og það var langt því frá að þeim líkaði það. Þeir mótmæltu, lugu og hefndu sín (manstu?). En, þegar þeir urðu foreldrar og stóðu frammi fyrir fyrsta uppeldisvandanum, þá gripu þeir til sömu valdbeitingarinnar og þeir voru sjálfir beittir sem börn. Og þegar áhrifin þrutu hertu þeir á og tóku að hóta, refsa, slá eða skipa fyrir. Og síðan stig af stigi. Börnin fóru að mótmæla, hefna sín eða ljúga. Foreldrar eru fljótir að gleyma því, hvað valdbeiting gerir börnum og hve eyðileggjandi hún er í samskiptum við þau.

H.h: En hverjir hjálpa foreldrunum?
Hve mikið er gert til að aðstoða foreldra við að verða hæfari til að ala upp börn?
Hvar geta foreldrar lært, hvenær þeir fara villur vegar og hvað þeir gætu gert öðruvísi?

Hugó: Kjarninn í kenningum dr. Gordons er á hvern hátt foreldrar geti komist hjá því að beita valdi í samskiptum við börn sín, en þó tryggt að um uppeldi sé að ræða og að börnin læri að lifa í samfélagi með öðrum. Margir foreldrar halda að annaðhvort verði þeir að ráða og barnið að hlýða láta í minni pokann eða að barnið vaði uppi og taki öll völd. Þá séu það foreldrarnir sem bíði ósigur, verði undir. En til er þriðji valkosturinn, þá finna foreldrar og börn sameiginlega lausn, hvorugt þarf að láta í minni pokann. Þessi aðferð er góður valkostur fyrir þá foreldra, sem eru þreyttir á eða vilja forðast að vera annaðhvort yfirmenn eða undirtyllur í samskiptum sínum við börn.

Markmiðið er að aðstoða foreldra við að brjótast út úr vítahring, þar sem uppeldi barnanna hefur einkennst af einhliða valdi foreldra til að ráða, oft á tíðum á kostnað barnanna. Raunin hefur síðustu áratugina oft orðið sú að börnum hafa „rekið“ foreldrana og lent sum hver á útigangi. Vaxandi unglingavandi, vímuefnaneysla, afbrot o.s.frv. er sú grátlega niðurstaða sem oft blasir við þeim foreldrum, sem ekki gera sér grein fyrir að gömlu aðferðirnar, sem aldrei voru góðar fyrir börnin, duga ekki lengur.

Sérfræðingar læra af reynslunni að óhætt er að hafa trú á hæfni barna til að fást við sín eigin vandamál í lífinu á uppbyggilegan hátt. Foreldrar vanmeta þessa hæfni. Á námskeiðum er foreldrum kennt að hlusta á börnin og hjálpa þeim til að takast sjálf á við lífið og tilveruna án þess að tekið sé fram fyrir hendurnar á þeim. Bent er á, hvernig unnt er að hlusta og heyra og láta börnin vita af því að foreldrarnir styðja við bakið á þeim en þau fínni umfram allt að þau bera sjálf ábyrgð á eigin hegðun.

Ofbeldi í skólum
H.h: Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um vaxandi ofbeldi í skólum. Hvað telur þú að hægt sé að gera til úrbóta?
Hugó: Ég legg til að við byggjum upp vináttu og tillitssemi innan skólanna. Hugmynd að slíku gæti t.d. verið sú að börn úr eldri bekkjum komi í heimsókn til yngri nemenda t.d. sem hjálparkennarar, eða fái verkefni sem miða að því að hjálpa þeim sem ekki eru eins langt komin og þurfa aðstoð. Það er mitt viðhorf að ef þú þekkir einhvern og hefur hjálpað honum þá lemur þú hann ekki. Hluti af þessu er að byggja upp gagnkvæm kynni, vegna þess að ég held að stór hluti af ofbeldi komi vegna þess að það myndast „klíkur“, sem loka sig af frá hinum. Það erum „við og hinir“. Ef þessir „hinir“ eru einhverjir, sem þú þekkir þá dregur úr ofbeldinu.

Leynivinur
Í tveimur skólum, sem ég þekki til í hafa verið gerðar mjög jákvæðar tilraunir. Það var útbúið hugtakið „Leynivinur“. Hver krakki fær leynivin, sem hann veit hver er. Sjálfur er hann leynivinur einhvers, sem hann veit ekki hver er. Markmiðið er að þau geri eitt hvað jákvætt fyrir þennan leynivin sinn án þess að sá uppgötvi hver stendur að baki. Áherslan hjá börnunum verður hugsun um það jákvæða. Skyldi þessi vera leynivinur minn? Hann hefur nú verið svolítið góður við mig. Þau veita athygli því jákvæða. Á þann hátt er hægt með margvíslegum aðferð um að skapa bætt samskipti í skólanum.

H.h. Hvað er hægt að gera við þá einstaklinga, sem ekki falla inní þetta jákvæða munstur og yfirganga aðra jafnvel ár eftir ár og skólarnir virðast ekki ráða við?
Hugó: Það er alltaf hægt að gera eitthvað til bóta. Því miður leysa skólarnir þetta oft með brottvísun viðkomandi aðila. Í svona til fellum þarf nú oftast að „skraddarasauma“ lausn að viðkomandi skóla. Það er spurning, að hve miklu leyti hefur verið unnið að þeirra málum sem í hlut eiga. Oft er hægt aðbreyta hegðun með gagnkvæmum tjáskipturn og virkri hlustun.

Fyrst þarf að gera sér grein fyrir að hve miklu leyti þessi börn gera sér grein fyrir áhrifum sínum á aðra krakka.Mín reynsla er sú að þau eigi oft erfitt með að setja sig í annarra spor. En svo hefur komið í ljós þegar ég hef sest niður með þeim og spurt þau hvort þau geti ímyndað sér hvernig þeim aðila líði sem þau veitast að, þá þekkja margir þessa tilfinningu og þau hafa flest verið stödd í sömu sporum einhvern tímann.Þetta virðist oft vera ákveðin uppgötvun hjá þeim, að setja sig í annarra spor. Jafnvel þó þau séu orðin 12 til 14 ára.

Þau hafa það sameiginlegt
Frá mínum bæjardyrum séð eiga þessir einstaklingar allir eitt sameiginlegt, þeir hafa á einhvern hátt orðið undir, og þessari hegðun fylgir mikil vanlíðan. Undirniðri eru þetta allt bestu sálir. En skelina sem þeir hafa búið um sig er ekki auðvelt að brjóta.Skammir, refsingar, ávítanir eða predikanir gera illt verra og aðeins herða þessa skel. Einlægni og virk hlustun geta borað gat á hana. Ef harkan er orðin svo mikil að ekki er hægt að ná til þeirra með viðtölum, er hægt að brjóta upp innan bekkjarins með bekkjarfundum og fá stuðning meiri hluta barnanna í bekknum. Það er alltaf meirihluti barna sem vill gera rétt og í sumum tilfellum er eins og þau skilji betur jafnaldra en fullorðna, að þau tali sama tungumál. Það verður að leysa þessi vandarnál fyrr en seinna,vegna þess að börnunum líður illa, bæði fórnarlambinu og árásaraðilanum. Það máekki láta þau sitja í súpunni, því það mótar persónuna um ófyrirsjáanlega framtíð.

Ábyrgð kennara
Ég tel að skólinn beri fulla ábyrgð á því aðgera eitthvað til bóta og takast á við þessi vandamál. Kennarar geta ekki litið svo á að þeir séu bara ráðnir til að kenna inni í skólastofunni og að þeim komi ekki við hvað skeður utan hennar. Skólaganga er að minnsta kosti frá því að nemendur eru á leið í skólann og á leið heim aftur og allt þar á milli.

Það vantar námsefni í samskiptum fyrir kennara til að styðjast við. Reyndar er mín skoðun sú að það sé of mikið gert af því að sjá í gegnum fingur við kennara, sem ekki ráða við kennslustarfíð. Það er opinbert leyndarmál að það eru kennarar, sem ekki ráða við það. Æskilegt væri að þeir væru skyldaðir í endurmenntun og þjálfun í kennslufræðum og samskiptum við nemendur. Það hljóta að vera hagsmunir allra kennara, þannig að þeir geti verið stoltir af löggilta heitinu kennari. Þeir geta ekki bara gert kröfur um réttindi, þeir hafa skyldur líka. Þeir þurfa að rækta sinn eigin garð, til að geta sagt að „kennari“ sé merkilegra hugtak en leiðbeinandi. Til þess þurfa að vera ákveðin gæði í starfi.

Stýra leikjum í frímínútum
Ófullnægjandi leiksvæði er í langflestum skólum í Reykjavík. Skólar, þar sem jafnvel átta hundruð nemendum er hleypt út í einu á skólalóð, sem rúmar ekki nema hundrað börn í leik. Með þessu er boðið heim ákveðnu ofbeldi. Margir kennarar eru vakandi yfir þessu, t.d. þekki ég til í skólum, þar sem kennarar hafa frumkvæði með að stýra leikjum í frímínútum. Við það eitt minnkar ofbeldi til muna.

Samskiptanámskeið fyrir unglinga
Við höfum í huga að fara af stað með námskeið fyrir unglinga, sem miða að því að styrkja þá sem persónur auka sjálfsvirðingu þeirra og auðvelda þeim samskipti við foreldra, kennara og hitt kynið. Þau námskeið er auðvelt að fella að skólastarfi.

Þjálfun fyrir kennara: Við höfum einnig gott námsefni í samskiptum fyrir starfandi kennara, sem er svipað byggt upp og foreldrafræðslan. Reyndar hef ég séð um námskeið í tveimur skólum,sem byggðu á hugtakinu VINÁTTA. Hugtakið sem virðist vera þarfast að efla í skólunum þessar mundir.
Eftirmáli: Þeim lesendum sem vilja kynna sér betur kenningar dr.Thomasar Gordms er bent á bók hans ,,Samskipti foreldra og barna“

Viðtalið skráði I.S.  árið 1990 .   ( yfirfarið árið 2018 – Hugó Þórisson lést fyrir nokkrum árum.)Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d