Nytsemi fjallagrasa

Fjallagrös (Cetraria islandica), ýmis afbrigði, vaxa víða í norðlægum löndum og til fjalla sunnar, t.a.m. uppi í Alpafjöllum. Þau hafa víða verið notuð, en líklega mest til manneldis á Íslandi. Fjallagrös voru höfð í grauta, mjólkursúpur, te og blóðmör, eins og þau komu fyrir af jörðinni, aðeins hreinsuð. En einnig voru þau þurrkuð, möluð í duft og notuð þannig. Ómöluð, þurrkuð fjallagrös geta geymst árum saman óskemmd. Notuð voru einnig til matar Maríugrös (cetraria nivalis), engjaskófír (Peltigera aphtosa og P. leucophlebia) og geitaskófir (Umbilicariategundir) aðallega í graut. Næringargildi fjallagrasa og annarra flétta á aðallega rót sína að rekja til kolvetnisinnihalds þeirra. Það eru einkum fjölsykrungar, aðallega lichenin, isolichenin og inulin. Fjallagrös hafa mest lichenin, sem er samsett af drúfusykureindum.

Ýmsar fléttur innihalda allt að 60% þurrefnisþyngdar sinnar af kolvetnum. Það er mikil næring en nokkur vafi leikur á um nýtingu þessara kolvetna í líkamanum. Líkur benda til þess að meltngarvökvar manna og flestra hryggdýra megni varla að kljúfa lichenin, eða geta það aðeins að litlu leyti. Hins vegar kljúfa ýmsar þarmbakteríur þessi kolvetni niður í einsykrunga og gera þau þannig nýtanleg fyrir líkamann. Það virðist því varða mestu að réttar bakteríutegundir og nóg af þeim séu í þörmunum. Ef svo er  nýtast kolvetni fjallagrasanna og annarra fléttna. Virðist því oftast þannig farið. Þetta er ekkert einsdæmi, gerlagróður þarmanna hefur áhrif á nýtingu ýmissa fæðutegunda. Ýmislegt bendir til þess að jórturdýr nýti kolvetni fléttnanna sérlega vel. Sniglar o.fl. hryggleysingjar kljúfa þessi kolvetni auðveldlega.

Í fléttum er fremur lítið af köfnunarefnissamböndum. Hins vegar er alltaf í þeim meira eða minna af ýmsum fléttusýrum, sem sumar hafa óþægilega beiskt eða rammt bragð. Fjallagrösin eru soðin til að draga úr remmunni 1-2 tíma, þegar þau eru matreidd. 1 fjallagrösum er ofurlítið af joði og A fjörefni, auk fjölda annarra efnasambanda. Reynslan hefur kennt mönnum, víða um heim, að nota ákveðnar fléttutegundir við meðhöndlun húðsjúkdóma og ytri sára. Hafa rannsóknir leitt í ljós að flestar fléttur, sem taldar voru græðandi, innihalda usninsýru, en hún hefur sterka bakteríudrepandi eiginleika. Hér voru einkum fjallagrös notuð til lækninga, fremur en aðrar fléttur. Fjallagrasaseyði var og er,notað gegn kvefsóttum og hósta. Hefur m.a. slímlosandi áhrif. Ennfremur voru fjallagrös talin góð við magavindum og uppþembingi“ og gefa  „mjúkt líf og stilla lífsýki“ segir í Ferðabók Eggerts og Bjarna.

Mjög merkilega má telja notkun fjallagrasaseyðis til lækninga á berklum, þó sú notkun hafi minnkað með tilkomu nýrra,  sterkari lyfja. Sannast hefur að ein af fléttusýrum fjallagrasa (prótólichesterinsýra) hefur sterk bakteríueyðandi áhrif, m.a. á berklabakteríuna, og tefur fyrir berklamyndun. Önnur fléttasýra, usninsýra, hefur enn sterkari bakteríueyðandi áhrif. Usninsýra er mjög algeng í fléttum, en óvíst er þó hvort hennar gætir í fjallagrösum. Margar fleiri fléttusýrur hafa reynst bakteríudrepandi, en margt er ennþá órannsakað í þeim efnum. Ein sýran Fumarprótoseirarsýra hefur verið einangruð úr fjallagrösum og áhrif hennar á líkamann rannsökuð. Hún verkar á slímhúð magans og þarmanna og örvar vöðvasamdráttinn í veggjum þeirra.

Einnig hefur hún örvandi áhrif á aðalstöðvar taugakerfisins og stuðlar að fjölgun rauðu og hvítu blóðkornanna. Hin hóstamildandi áhrif fjallagrasa eru talin eiga rót sína að rekja til hinna slímkenndu fjölsykrunga þeirra. Í norðanverðri Skandínavíu og víðar þykja íléttuheiðar góð beitilönd, einkum fyrir hreindýr. Hreindýrafléttur eru aðallega ýmsar Cladoniategundir, gamalt nafn á þeim er hreindýramosi. Fléttur vaxa mjög hægt og eru jafnvel 20-30 ár að þroskast sumar hverjar. Heimildarrit aðallega: Fléttunytjar, eftir Hörð Kristinsson, grasafræðing í tímaritinu Flóra, árið 1968. Lyfjanafn: Lichen islandium. E.t.v. hefur hin almenna notkun fjallagrasa til matar fyrr á öldum, átt þátt í að halda berklaveikinni í skefjum.

Höfundur:

Ingólfur Davíðsson er fæddur 1903. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskóla Akureyrar 1929, og stundaði svo framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla en þaðan tók hann magisterprófl936. Tók þátt í mörgum námskeiðum um njurtasjúkdóma í Kaupmannahöfn. Hóf störf við atvinnudeild Háskólans 1937 og síðar við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins. Hefur sérstaklega rannsakað sjúkdóma í nytjaplöntum og útbreiðslu erlendra slæðinga á Íslandi. Auk þessa hefur hann stundað kennslu við marga skóla. Hefur skrifað fjölmargar greinar í blöð og tímarit. Einna flestar í Náttúrufræðinginn og Búnaðarritið Frey ásamt Garðyrkjuritinu, en hann var ritstjóri þess í áratugi. Sá um síðustu útgáfu Flóru Íslands, ásamt Steindóri Steindórssyni og Ingimar Óskarssyni. Er heiðursfélagi í .Náttúrufræðifélaginu og Félagi íslenskra náttúrufræðinga.

Grein frá árinu 1979



Flokkar:Jurtir

%d