PEERS er námskeið í félagsfærni fyrir börn, unglinga og ungt fólk með félagslega erfiðleika, einhverfu, ADHD, kvíða og þunglyndi og einnig foreldra þeirra eða félagsþjálfa. PEERS er skammstöfun fyrir ,,Program for the Education and Enrichment of Relational Skills“
Námskeiðið er ætlað fyrir börn og unglinga 9 – 17 ára og foreldra þeirra, einnig ungt fólk 18 – 34 ára og foreldra þeirra eða félagsþjálfa.
PEERS námskeið í félagsfærni er gagnreynt námskeið sem brýtur upp félagslega einangrun barna og unglinga og stuðlar þannig að bættri líðan þeirra, vinatengslum og aukinni félagslegri virkni. Félagsleg einangrun og vinaleysi getur leitt til alvarlegra kvíðaeinkenna og þunglyndis, slakari námsárangurs, brottfalls úr námi, áhættuhegðunar, neyslu fíkniefna og sjálfsvígshugleiðinga. Sjá nánar rannsóknir á PEERS á heimasíðu UCLA Semel Institute for Neuroscience & Human Behavior https://www.semel.ucla.edu/peers/research og meðfylgjandi heimildaskrá.
Á PEERS námskeiði í félagsfærni er markmiðið að:
• Barnið / unglingurinn læri að eignast vini og halda þeim.
• Foreldri læri að styðja barnið / unglinginn í að finna sér viðeigandi vini.
• Foreldri læri leiðir til að styrkja færni barnsins / unglingsins við að eignast nýja vini.
• Foreldri læri leiðir til að efla félagslegt sjálfstæði barnsins / unglingsins.
Aðalstyrkleiki félagsfærniþjálfunar PEERS er að námskeiðið er fyrir bæði börn / unglinga og foreldra þeirra og læra foreldrar hvernig þeir geta haldið áfram og fylgt eftir félagsfærniþjálfun barnanna / unglinganna eftir að námskeiðinu lýkur.
PEERS námskeiðið er vikulega í 14 skipti, hvert skipti er 90 mínútur. Á námskeiðinu eru börn eða unglingar saman í hóp og foreldrar eru saman í hóp. Unnið er með sama kennsluefni samtímis í hvorum hópnum samkvæmt PEERS handbók. Barnahópnum / unglingahópnum er kennt í gegnum beinar leiðbeiningar, samræður, hlutverkaleiki, myndbönd og heimaverkefni. Foreldrum er kennt að leiðbeina börnunum / unglingunum með því að farið er yfir heimaverkefni í hverjum tíma og fylgt vel eftir hvernig hvert og eitt foreldri leiðbeinir barni / ungling heima. Unnið er út frá styrkleikum og áhugasviði hvers barns / unglings. Í lok hvers tíma koma hóparnir tveir saman í 10 – 15 mínútur og heimaverkefni eru skipulögð í sameiningu. Hvert námskeið er fyrir 8 – 10 börn / unglinga og foreldra þeirra.
Á hverju PEERS námskeiði er kennd samtalsfærni, örugg notkun netsins og samfélagsmiðla, viðeigadi húmor, viðeigandi leiðir við að blanda sér í samræður og fara út úr samræðum í hóp, skipulagning hittinga og viðeigandi framkoma í hittingum, góður liðsandi og íþróttandi, viðbrögð við stríðni og niðurlægjandi athugasemdum, viðbrögð við einelti og hvernig er hægt að breyta slæmri ímynd, leiðir til að leysa ágreining og viðbrögð við kjaftasögum, slúðri og neteinelti.
Farið hefur fram rannsókn á árangri PEERS á Íslandi bæði innan Barna- og unglingageðdeildar LSH og utan. En það voru tveir meistaranemar í félagsráðgjöf sem unnu tölfræðilega úr svörum matslista sem foreldrar og börn / unglingar svara fyrir og eftir hvert námskeið. Meistaranemarnir tóku fyrir sinn hvorn aldurshópinn. Um var að ræða matslista af 22 námskeiðum sem voru haldin á tímabilinu frá byrjun haustannar 2016 til loka vorannar 2019. Matslistarnir mæla félagsfærni, kvíða, félagsvirkni og samkennd. Niðurstöður svara unglinga (15 – 18 ára) og foreldra sýndu marktækan mun á öllum matslistum. Niðurstöður svara barna og unglinga (9 – 14 ára) sýndu mun á matslistum sem mæla félagsfærni, samkennd og félagsvirkni. Á matslistum yngri aldurshópsins sem mæla kvíða kom fram marktækur munur í svörum foreldra utan BUGL.
Nokkrar stofnanir voru í samstarfi við BUGL með innleiðingu PEERS á Íslandi árið 2015. Má þar nefna Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslunnar og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Í samstarfi við EHÍ hafa verið haldin fjögur PEERS Training námskeið fyrir leiðbeinendur á Íslandi. PEERS námskeið fyrir börn / unglinga og foreldra þeirra eru haldin víða á landinu.
Einnig eru PEERS námskeið haldin á vegum sjálfstætt starfandi aðila en það eru m.a. fagfólk sem starfar á BUGL sem fór af stað með námskeiðin utan BUGL á vorönn 2017. En á þeirra vegum eru haldin 6-7 námskeið fyrir mismunandi aldurshópa barna, unglinga og ungs fólks á hverri önn. Einnig eru haldin PEERS fjarnámskeið á vegum sömu aðila og geta fjarnámskeiðin hentað vel fyrir fólk á landsbyggðinni, sjá nánar http://www.felagsfaerni.is.
PEERS námskeið í félagsfærni fyrir ungt fólk 18 – 34 ára er svipað uppbyggt en það er 16 skipti í 90 mínútur hvert skipti. Algengast er að foreldrar unga fólksins taki þátt í námskeiðinu en einnig getur verið um að ræða að stuðningsaðili taki þátt sem félagsþjálfi. Af 16 skiptum þar sem farið er í svipað efni og á námskeiðum fyrir börn og unglinga, þá eru 4 skipti þar sem fjallað er um stefnumót eða „date“ framkomu og fleira áhugavert því viðkomandi, sjá nánar á http://www.felagsfaerni.is.
Höfundur: Ingibjörg Karlsdóttir félagsráðgjafi MPH
Yfirlit yfir nokkrar rannsóknir á PEERS erlendis og einnig hérlendis: (Heimildir sóttar 10. feb. 2020 af https://www.semel.ucla.edu/peers/research fyrir utan íslensku rannsóknirnar tvær í lok listans)
• Parent-Assisted Social Skills Training to Improve Friendships in Teens with Autism Spectrum Disorders (Laugeson, et al., 2009).
• Evidence-Based Social Skills Training for Adolescents with Autism Spectrum Disorders- The UCLA PEERS Program (Laugeson, et al., 2012).
• A Replication and Extension of the PEERS Intervention- Examining Effects on Social Skills and Social Anxiety in Adolescents with Autism Spectrum Disorders (Schohl, et al., 2013).
• Long-Term Treatment Outcomes for Parent-Assisted Social Skills Training for Adolescents With Autism Spectrum Disorders- The UCLA PEERS Program (Mandelberg, et al., 2013).
• Measuring the Plasticity of Social Approach- A Randomized Controlled Trial of the Effects of the PEERS Intervention on EEG Asymmetry in Adolescents with Autism Spectrum Disorders (Van Hecke, et al., 2013).
• Predicting treatment success in social skills training for adolescents with autism spectrum disorders- The UCLA Program for the Education and Enrichment of Relational Skills (Chang, et al., 2013).
• Using a CBT Approach to Teach Social Skills to Adolescents with Autism Spectrum Disorder and Other Social Challenges The PEERS Method (Laugeson & Park, 2014).
• Parent and Family Outcomes of PEERS- A Social Skills Intervention for Adolescents with Autism Spectrum Disorder (Karst, et al., 2014).
• Examination of a Parent-Assisted, Friendship-Building Program for Adolescents With ADHD (Gardner, et al., 2015).
• Parents Perceive Improvements in Socio-emotional Functioning in Adolescents with ASD Following Social Skills Treatment (Lordo, et al., 2016).
• Changes in Depressive Symptoms Among Adolescents with ASD Completing the PEERS® Social Skills Intervention (Schiltz, et al., 2017).
• Brief Report: Does Gender Matter in Intervention for ASD? Examining the Impact of the PEERS® Social Skills Intervention on Social Behavior Among Females with ASD (McVey, et al., 2017).
• Mat á árangri PEERS námskeiða í félagsfærni: Börn og unglingar á aldrinum 9 – 14 ára. (Guðrún Helga Andrésdóttir, 2019). Sótt 10. feb. 2020 af https://skemman.is/handle/1946/34613.
• Árangursmat PEERS námskeiða í félagsfærni: Unglingar 15 – 18 ára. (Snædís Gerður Hlynsdóttir, 2019). Sótt 10. feb. 2020 af https://skemman.is/handle/1946/34614.
Flokkar:Kynningar