Það er kominn tími til að leiðrétta þann misskilning sem ríkir varðandi hlutverk fitu í mataræði okkar. Fita er ekki bara fita. Það eru til fitusýrur sem eru líkamanum lífsnauðsynlegar. Þær eru bæði ómettaðar og mettaðar, sem þýðir fljótandi við stofuhita eða harðar við stofuhita. Það eru líka til fitur sem eru líkamanum beinlínis skaðlegar. Ég ætla að útskýra muninn á þessum fitum á sem einfaldastan hátt. Það er ekkert leiðinlegra en að lesa tíu blaðsíðna skýrslu og skilja kannski þrjár af þeim vegna þess að málið er svo tæknilegt að aðeins faglærðir skilja það. En áfram með smjörið!
Það er líka ágætt að byrja á því, því smjörið er ein sú besta fita sem við getum borðað. Það er búið að halda því fram í um það bil 40 ár að mettuð fita eins og í smjöri og kjöti sé óholl en að fljótandi fita eins og sojaolía og aðrar jurtaolíur séu hollar. Sojaolía er oft undirstaðan í smjörlíki eins og við þekkjum það eins og t.d. það óæti sem er selt til þess að smyrja ofan á brauð og skýrt öllum nöfnum með einhverju ,,létt“ í. Vinnsluaðferðin við að metta þessa fitu er í stuttu máli sú að vetniseindum er bætt í fituna til þess að herða hana svo hægt sé að smyrja henni á brauðið.
Til þess þarf að nota samtímis hita (215,5°), þrýsting og efnahvata (nikkel, kopar eða platínum) í allt að átta klukkutíma. Það sem gerist er að við fáum fitu sem er fín til að steikja upp úr, því hún þolir vel hita, en efnasamsetning fitunnar hefur breyst og það finnast í henni leifar af efnahvatanum (málmur) sem notaður var í vinnslunni. Úr verður fita sem mannslíkaminn þekkir ekki og allt sem líkaminn þekkir ekki á hann mjög erfitt með að vinna úr til þess að nota sem orku og uppbyggingarefni. Hann reynir því að losa sig við það sem fyrst.
Ef hann getur það ekki setur hann það á staði í líkamanum þar sem það veldur sem minnstum skaða, eins og t.d. í liðina, innaná æðarnar og utan á lærin! Hvað myndir þú gera ef þú gætir ekki losað ruslafötuna í eldhúsinu? Þú myndir byrja á því að troða ruslinu í ruslaskápinn og þegar hann yrði fullur færir þú að pota því í öll horn og skúmaskot í eldhúsinu til þess að þú gætir athafnað þig þar. Síðan, þegar nógu langur tími er liðinn, yrðir þú að flytja út úr húsinu! Fer smjörið ekki að verða fýsilegri kostur?
Nú skulum við snúa okkur aðeins að kólesteróli sem er búið að hræða landann upp úr skónum með í nokkuð mörg ár. Hver einasta fruma líkamans þarfnast kólesteróls því það er hráefnið sem líkaminn notar til að framleiða gallsýru, vissa hormóna og próvítamín D3. Það þýðir ekkert að ætla að útiloka kólesteról úr fæðunni því líkaminn framleiðir það þá bara sjálfur! Hann getur framleitt um eitt og hálft gramm á dag og gerir það ef við fáum það ekki úr fæðunni. Þetta er ekki spurning um kólesteról í fæðunni heldur hvort líkaminn hafi nauðsynleg efni til að vinna úr því.
Þá komum við að lífsnauðsynlegu fitunni og hvernig hún tengist kólesteróli. Kólesteról bráðnar við 149°C og þess vegna sest það á æðaveggina innanverða, en ef fitusýran lesitín er þar nálægt lækkar hún bráðnunarstigið niður í 82,2°C sem er enn ekki nóg til að líkamshitinn geti brætt það. Ef við bætum svo við línólfitusýrunum (linoleic, linolenic) þá lækkar bráðnunarstigið niður í 0°C sem er langt fyrir neðan líkamshitann og er kólesterólið þar með orðið hættulaust. Línólfitusýrur eru sennilega þær einu sem við þurfum lífsnauðsynlega að fá úr fæðunni. Hinar getur líkaminn framleitt sjálfur fái hann rétt fæði. Línólfitusýrur finnast í hörfræolíu, valhnetum, graskerjum, óunnum hráum jurtaolíum og mjólkurvörum, séu þær hráar og úr kúm sem eru fóðraðar eingöngu á grasi og smára en ekki kornmeti.
Fiskur og lýsi innihalda mikið af omega 3 fitusýrum og allir vita að þær eru mjög hollar svo ég hef ekki fleiri orð um það hér.
Önnur mettuð fita sem er búið að ryðja út af matseðli vestrænna þjóða er kókosfitan. Menn eru nú búnir að komast að því að hún er besta fita sem hægt er að fá til að steikja upp úr og er talin mjög holl. Íslendingar eru henni ekki vanir en hún er og var mikið notuð af suðrænum þjóðum þeim að skaðlausu í mörg hundruð ár.
Hinar vestrænu þjóðir eru búnar að skera niður fituneyslu (mettaða fitu) í um það bil fimmtíu ár og hjarta-og æðasjúkdómar og offita hafa aldrei verið algengari. Er það ekki nóg sönnun fyrir því að við séum að gera eitthvað rangt? Hér áður fyrr var fita mjög stór hluti af mataræði Íslendinga t.d. tólg, mör, lýsi og svínafita, fita sem Íslendingar eru aldir upp á frá örófi alda og hefur haldið í okkur lífinu. Það var allavega ekki grænmetið og ávextirnir sem komu okkur þetta langt því þeir fengust ekki þá. Kartöflur voru ekki einu sinni ræktaðar hér á landi fyrr en 1759. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er ennþá verið að hampa fitusnauðu fæði.
Atkinskúrinn er mikið í fréttunum þessa dagana og allt gert til þess að láta hann líta illa út. Ég veit það af eigin reynslu og mannsins míns að minnkun á neyslu kolvetna lækkar tölurnar á vigtinni, en prótínríkt fæði á ekki vel við alla. Það sem þarf að fara varlega í hinsvegar er að auka ekki fituneyslu nema að minnka sykur og hveitineyslu til muna, þ.e.a.s. ef maður vill grennast. Það sem okkur hjónunum finnst mest áberandi við þennan kúr er hvað fæðið er mettandi. Maður verður saddur í marga klukkutíma eftir hverja máltíð í staðinn fyrir að byrja að leita að einhverju til að bæta á sig eftir klukkutíma eða svo. Dr. Mercola er búinn að skrifa tvær bækur, að minnsta kosti, um kolvetnasnautt fæði og er að ráðleggja sjúklingum sínum það með góðum árangri.
Það sem mér finns verst við allt þetta bull um fitusnautt fæði er að börnin eru ósjálfrátt sett á það líka. Ég veit það bara að ég keypti alltaf léttmjólk fyrir fjölskylduna hér áður fyrr af því að ég hélt að það væri gott fyrir okkur öll. Börn þurfa fitu og það er mjög erfitt að fá þau til að borða fitu af kjöti, hvaðan eiga þau þá að fá hana?
Við verðum að passa okkur á því sem er mikið hampað í fjölmiðlum, því það er einungis gert til að selja. Þar er ekki verið að hugsa um hagsmuni neytandans heldur einungis pyngju seljandans.
Stefanía Arna Marínósdóttir
Flokkar:Næring