Árið 2007 hlaut Jurtaapótekið vottun um lífræna heilsuvöruframleiðslu. Eigandi þess er Kolbrún Björnsdóttir, sem er ötull talsmaður heilbrigðra lífshátta og vinnur að því hörðum höndum að bæta líðan þeirra sem til hennar leita. Hún telur að ýmsu þurfi að breyta í heilbrigðiskerfinu og gefur ráð til að leysa nokkur almenn heilsuvandamál.
Kolbrún: Ég hef mikið hugsað um okkar ágæta heilbrigðiskerfi sem er þannig að fólk er oftast orðið veikt og komið með einhvern sjúkdóm þegar kerfið bregst við vandanum. Þetta á við marga sjúkdóma því að það er eins og að greiningartæki heilbrigðiskerfisins nemi ekki lasleika fyrr en manneskjan er orðin virkilega veik. Það vantar tengingu á milli okkar sem erum lærð í því að kenna fólki að leiðrétta rangar lífsvenjur og heilbrigðiskerfisins, s.s. að læknar sendi til fólk okkar sem kvartar um kvilla á byrjunarstigi.
Ef að læknar almennt hefðu þekkingu á jurtunum og vissu hvað þær geta gert og vísuðu til okkar væri auðveldara að ráða við krankleikann. Hérlendis hafa læknar ekki tíma til að hlusta og spyrja fólk um almennar lífsvenjur, eða hvort það hafi orðið fyrir sálrænum áföllum. Í Hollandi þekki ég lækni sem hefur aðstoðarmanneskju til að hlusta og hjálpa fólki að komast á rétta braut. Hér er alltaf verið að tala um að fyrirbyggja og fyrirbyggja en ég sé ekki mikið framkvæmt í því.
Ráðgjöf
Fólki hefur reynst vel ákveðnar jurtablöndur sem við veitum leiðbeiningar með ef um litla kvilla er að ræða. En ef fólk þarf á einkaráðgjöf að halda þarf að panta tíma sem smá bið er eftir. Ég vil að þeir sem koma til mín í einkaviðtöl séu tilbúnir að taka á vandanum og leggi sig eftir batanum þannig að það þurfi ekki að koma oftar en þrisvar í einkaviðtal. Ráðgjöf mín er ávallt einstaklingsbundin, einkaviðtölin byggjast á því að eftir að hafa skoðað vandamál viðkomandi reyni ég að forgangsraða eftir því hvað er mikilvægast að laga. Ég tek mið af því hvað persónan er tilbúin að takast á við miklar breytingar í einu.
Ef fólk er mjög veikt, hvort sem það er líkamlega eða andlega, er því oftast um megn að taka stór skref í einu. Best er að fara skipulega í breytingarnar og taka þær skref fyrir skref, því að margir sem fara of geyst af stað gefast upp. Koma svo kannski aftur eftir tvö ár og segja: ,,Mér leið svo hrikalega vel á meðan ég fylgdi leiðbeiningum þínum, en svo hætti ég því og nú er allt komið í gamla farið“.
Það eru alltaf einhverjar ástæður fyrir því þegar fólk veikist, venjulega er það eitthvað lífsmunstrinu sem má leiðrétta þegar bent er á lausnir. Fólk sem er með byrjunareinkenni sjúkdóms eins og t.d. ef meltingin er í ólagi, truflun er á svefni, ónóg starfsemi skjaldkirtils, breyting á blóðþrýstingi eða önnur byrjunareinkenni og fær ekki greiningu á vandanum í heilbrigðiskerfinu, getur það komið í Jurtaapótekið og leitað almennra upplýsinga.
Hægt að ýta við hægum skjaldkirtli
Í Jurtaapótekið koma margar konur með of hægan skjaldkirtil til að leita ráða. Þó að þær séu margar með mælanlega hægan skjaldkirtil fá þær ekki hjálp í kerfinu og þeim er sagt að ekkert sé hægt að gera. Svo þurfa þær að fara heim og bíða þar til þær eru orðnar nógu slæmar til að eitthvað sé gert. Af minni löngu starfsreynslu þekki ég mjög vel einkenni frá hægum skjaldkirtli. Konurnar eiga það allar sameiginlegt að eiga erfitt með að léttast og þær mega ekki borða aukabita án þess að fitna. Öll líkamsstarfsemi þessara kvenna er rosalega hæg: Blóðflæði er hægt, líffærin eru hæg, hugurinn hægur og þeim er kalt. Ég fæ hingað jafnmargar konur með einkenni af hægum skjaldkirtli og þeim sem eru á mörkunum en samt með einkenni. Þær sem eru komnar á lyf eru ótrúlega margar.
Hvað er til ráða
Fyrst og fremst er það þari, síðan jurtir sem örva lifrina, nýrun og æðakerfið. Síðan að breyta mataræði af því að allt er þungt og starfsemi líkamans hæg þá ráðlegg ég að; hætta við allan mat sem þyngir og að minnka mjólkurvörur nánast niður í ekki neitt, taka út sykur, minnka kjötneyslu, ekki borða nautakjöt, svínakjöt eða alikjúklinga. Villikjöt er best s.s. svartfugl og svo þarf að auka mikið neyslu grænmetis. Borða næringarmeiri mat eins og heilgrjónabrauð, ekki hvítt hveiti eða hvít grjón, ekki drekka kaffi eða nota örvandi efni. Ef þessum leiðbeiningum er fylgt kemur árangur fljótt í ljós. Ég get nefnt konu sem kom til mín fyrir mánuði síðan og byrjaði strax að taka inn þaratöflur og jurtir, hún kom aftur mánuði síðar og þá var bólgan runnin af hálsinum. Ég veit ekki hvort konurnar sem lenda í þessu séu einmitt þær sem ekki borða fisk, en víst er að þetta er mjög ættgengt.
Er orsökin spenna?
Ég tek sem dæmi konu með hægan skjaldkirtil, hægan blóðþrýsting, lullandi hægan púls. Það bendir til að æðakerfið vanti kraft. Spurningin er; orsakast þetta bara frá hægum skjaldkirtli eða eru fleiri orsakir eins og mikil spenna einhverstaðar í líkamanum. Fólk getur haldið spennu eftir tilfinningalegt áfall í vissu líffæri eins og t.d. hjartanu eða meltingarkerfinu. Trúlega tengist vanvirkni skjaldkirtils líka orkuleysi í hálsstöðinni sem getur tengst vanmætti viðkomandi persónu til að tjá tilfinningar sínar. Margir fitna um miðju líkamans það held ég að sé fólk sem setur spennu í meltingarkerfið og hreyfir sig lítið, þá fá líffærin ekki nóga örvun.
Breytingar geta lækkað of háan blóðþrýsting
Mörgum líður illa þegar blóðþrýstingur hækkar að efri mörkum og er kannski 140-150 og neðri mörkin 90, en þó ekki nógu hár til að gefin séu lyf. Í níutíu prósent tilvika er ekki vitað hvað veldur háum blóðþrýstingi. Mér finnst geigvænlegt að nú telji margir að það sé eðlilegt að fólks sé komið með of háan blóðþrýsting um sextugt. Algengt er að fólk byrjar á einni pillutegund en svo liggur leiðin bara upp og pillutegundunum fjölgar með öllum þeim aukaverkum sem lyfjunum fylgja.
Hvað er til ráða?
Ég tel að aðalástæða þess að blóðþrýstingur hækkar óeðlilega sé stress og hreyfingarleysi, þess vegna byrja ég á því að reyna að fá viðkomandi til að taka á þessum þáttum. Spurningarnar eru oftast: Hvað drekkur þú marga kaffibolla?
Borðarðu hollan mat eða bara ruslfæði?
Eða verður þér illt af mat?
Eða slakar þú aldrei á?
Eða ertu í of mikilli vinnu?
Hreyfir þú þig nóg?
Ef þessir þættir eru ekki í lagi þarf margt að laga. Um leið og viðkomandi breytir því sem þarf, ráðlegg ég jurtir til að styrkja æðakerfið sjálft, ásamt hvítlauk og vökvalosandi jurtum. Margir sem leita til mín geta haldið blóðþrýstingi á réttu róli og sleppa þannig við að taka lyf. Erlendis eru til áhrifameiri jurtir, sem slaka á vöðvunum í æðunum sjálfum, en þær er bannað að flytja hingað til lands.
Hægt að minnka fyrirtíðaspennu
Oft nota ég aðeins jurtina ,,wild yam“ til að draga úr fyrirtíðaspennu, hún slær á hvort sem um er að ræða pirring, svefnleysi eða ásókn. Rótin er möluð í belgi.
Fjöldamargir eru með gigt
Ég hef komist að því að það er sammerkt með flestum gigtarsjúklingum að hreinsikerfi líkama þeirra eru veil og að sama mataræði virðist henta flestum þeirra. Nema það er erfiðara að meðhöndla liðagigt af því að það er sjálfsónæmissjúkdómur. Vefjagigt er erfiður sjúkdómur sem lýsir sér oft í mikilli þreytu þó að hún sé hvað auðveldust að ráða við ef fólk er tilbúið að takast á við breytingar sem eru nauðsynlegar. Í þeim tilvikum þarf vanalega að snúa öllu við. Það þarf að laga matinn, fá jurtir til að minnka lyfin eða í staðinn fyrir lyf. Bólgueyðandi jurtirnar styðja við líffærin.
Fitusýrur nauðsynlegar
Þó að alltaf sé að koma fleira fram um ágæti fitusýra t.d. að þær minnki blóðfitu og styrki æðakerfið gera þær svo miklu meira gott. Ég fæ marga til mín með viðkvæma slímhúð og húðvandamál. Flest þetta fólk tekur ekki inn lýsi eða fitusýrur en gæti bætt líðan sína ef það gerði svo. Til dæmis kom til mín kona í Jurtaapótekið fyrir nokkru, sem var með margar sprungur á fingrunum. Ég benti henni á að taka inn hörfræolíu, hún kom mánuði seinna og þá voru allra sprungurnar grónar. Einnig leitaði til mín maður með stóra bletti á fótleggjum og höndum af völdum soriasis. Hann hafði ekkert hugsað um heilsuna, ekki tekið lýsi eða aðrar olíur en drakk 2 lítra af kaffi á dag.
Ég ráðlagði honum að hætta kaffidrykkju, taka inn 2 til 3 matskeiðar að hörfræolíu á dag og borða hollari mat. Hann kom aftur til mín mánuði seinna og hafði þá farið nákvæmlega eftir ráðgjöfinni og var algjörlega laus við blettina af höndunum. Hann hélt áfram á sömu braut og losnaði við alla bletti af fótunum líka. Allir ættu að neyta fitusýra á hverjum degi til dæmis 2 matskeiðar miðað við 60 kílóa líkamsþyngd. En ef það er ofboðslegur þurrkur í húðinni ráðlegg ég að taka meira magn, sama gildir á veturna þegar er kalt. Þeim sem taka inn lýsi ráðlegg ég að bæta við tveimur til þremur hylkjum af ómega forte fitusýrum.
Árangur felst í að róa hugann
Það á við um háan blóðþrýsting eins og flesta aðra kvilla að mikill árangur næst ef fólk vinnur í því að róa hugann. Sumir eru í tveimur vinnum, námi og eiga börn og reyna að halda uppi fjölskyldulífi. Það er ekki skrítið þó að eitthvað klikki. Ég kenni einfalda aðferð til að róa hugann og til að styrkja sig gegn áreiti, hún er í því fólgin að koma sér þægilega fyrir einu sinni á dag (eða oftar) í 10 til 15 mínútur, loka augunum og einbeita sér að einhverju ákveðnu. Það gæti t.d. verið sól eða blóm, svo eitthvað sé nefnt. Líka er gott að endurtaka sömu setningu aftur og aftur eins og t.d.; Ég er friður eða ég er friðsæl sál. Til að ná slökun og hvíld þarf að kyrra hugann og með því að endurtaka setninguna aftur og aftur er hægt að verjast áreiti hugans. Ef fólk iðkar þetta og gerir að daglegri venju er árangur oft ótrúlega góður, þó að æfingin taki stuttan tíma í hvert skipti. Ég vil meina að ef við gerum þetta að reglu eigum við betra með að sætta okkur við það sem við höfum og eigum núna og verðum hamingjusamari í núinu.
I.S.