Skortur á steinefnum, vítamínum, amínósýrum, sykrungum, ómissandi fitusýrum, hreyfingu, súrefni, sól og ást veldur óhamingju, offitu, sjúkdómum og ótímabærri öldrun.
Lífsmáti allt of margra í nútíma þjóðfélagi einkennist af hraða og skyndimat, sem orsakar skort og hörgulsjúkdóma. Maturinn sem flest fólk neytir er of mikið unninn, fullur af aukefnum og lítil eða enginn náttúrleg næring eftir. Í dag eru leyfð og skráð yfir 5000 aukefni í matvæli. Það er alls ekki æskilegt fyrir líkama okkar. Í mörgum löndum er nú verið að tala um að yfirvöld verði að grípa í taumana áður en meiri háttar óhollustufaraldur leggi heilu löndinn í rúst.
Hrein lífræn matvæli án aukefna er það sem við erum búin til fyrir. Margir hugsa betur um pottaplöntur sínar eða dauða hluti eins og t.d. bílinn sinn en um sinn eigin líkama. Við fáum bara einn líkama í vöggugjöf, þess vegna er mjög mikilvægt að hugsa vel um hann. Fleiri og fleiri eru þó farnir að taka heilsumálin í gegn en betur má ef duga skal.
Með því að sniðganga kemísk gerviefni í matvælum, snyrtivörum, hreinlætisvörum, hýbýlum og umhverfinu getið þið stuðlað að því að skapa betra og ómengaðara líf fyrir börnin ykkar og komandi kynslóðir. Miklu algengara er en fólk grunar að það skorti steinefni, vítamín, amínó-sýrur, sykrunga og omega-fitusýrur. Heillaráð er að taka þessi bætiefni í töfluformi eða fljótandi formi í einhvern tíma. Bera svo saman líðan fyrir og eftir. Vítamín og steinefni er hægt að fá í sama glasi. Með aldrinum verður upptaka vítamína og steinefna líkamans ekki eins góð og á yngri árum. Yngra fólk og börn fá oft óhollastan mat og þá er sérstaklega þörf á viðbótar bætiefnum.
Góð bók til að fletta upp í er Nutritional Healing; Phillis A Balch, cnc. Þar er hægt að fletta upp flest öllum sjúkdómum og fá leiðbeiningar um náttúrlegar lausnir til að ná bata og halda sér frískum. Einnig er fjallað ítarlega um þau bætiefni sem líkaminn þarf og nákvæmar lýsingar á sjúkdómunum sem eru að hrjá fólk nú til dags. Bókin er 776 blaðsíður á ensku og kostar aðeins rúmlega 2000,- krónur. Fleiri góðar heilsubækur er hægt að nálgast í verslunum og ber aðalatriðunum oftast saman hvað skort á bætiefnum varðar.
Lækningarmáttur líkamans lagfærir það sem úrskeiðis fer, fái hann tækifæri til þess með réttri næringu og hjálp til að byggja upp bætiefnaskortinn. Lyf aftur á móti lækna ekki sjúkdóma almennt. Ef svo væri myndi fólk ekki deyja úr krabbameini, hjartaáföllum og öðrum algengum sjúkdómum. Nokkrar staðreyndir um lyf sem birtust í sænska blaðinu Femina P.S. Heilsublaðið nr.4 frá 2005. Þar segir m.a: Samkvæmt nýjustu rannsóknum eru aðeins 15 % lyfja sem hjálpa til að lækna sjúkdóma og flest innihalda þau pensilín og önnur bakteríudrepandi efni. Afgangurinn 85% er því húmbúkk, sem gerir ekkert gagn en hefur einungis í för með sér aukaverkannir.
Sænskur yfirlæknir skrifaði nýverið bók sem heitir: ,,Sjuka pengar“ og lýsir því hvernig ávísanir á lyf er komin út fyrir allt velsæmi í Svíþjóð. Kevin Trudeau vann áður hjá stórum lyfjafyrirtækjunum í meira en 20 ár og skrifaði síðan bókina: ,,Natural Cures they dont want you to know about“. Marcia Angell M.D. skrifaði bókina: ,,The truth about the drug companies“. Peter Breggin skrifaði m.a.bókina: ,,Talking back to Prozac“. Spillingin er orðin allt of mikil eins og fram kemur í öllum þessum bókum. Það er komin tími til að almenningur fái að vita hvað er á bak við tjöldin og kynni sér allar aukaverkanir lyfja og hversu auðvelt er að koma þeim á markað.
Jafnvel þó vitað sé að þau geti verið það hættuleg að þau leiði fólk til dauða. Eins og var reyndin með Vioxx gigtarlyfið, a.m.k. 460 manns dóu í Noregi og þúsundir í Bandaríkjunum. Má ég þá heldur biðja um náttúrlegar aðferðir. Koma jafnvægi á líkamann með lífrænum mat, réttum bætiefnum, hreyfingu, sól og birtu, ást og hamingju. Þegar skortur eða hörgulsjúkdómar byrja þarf að taka á því svo ekki gæti keðjuverkandi áhrifa þ.e.a.s. svo einn skort leiði ekki af öðrum. Hér á eftir má sjá nokkur dæmi um hvað hörgull á bætiefnum getur leitt af sér.
Skortur á A-vítamíni getur valdið ýmis konar augnvandamálum ásamt slæmri sjón. Húðin getur orðið þurr og hrjúf, bólótt og hrukkótt. Neglur klofna og hárið verður þurrt og líflaust.
Skortur á B-vítamínum getur orsakað alls konar sjúkdóma. Beriberi sjúkdóm má rekja til skorts á B- 1 (Þíamín). Einnig taugabólgu, sykursýki, meltingartruflanir, stækkun á lifur og vöðvaslappleika og lystarleysi.
Skortur á B-2 (Ribóflavín) getur orsakað alls konar augnvandamál eins og sviða, kláða og blóðhlaupin augu. Kláða í leggöngum og sviða í munni og tungu. Efri vör getur þynnst og minnkað og ótímabær öldrun átt sér stað.
B-3 skortur (Níasín) getur valdið geðtruflunum, höfuðverk, þunglyndi, niðurgangi, lystarleysi, lágum blóðsykri og skán á tungu
Skortur á B-5 (Pantóþen sýra) getur orsakað þunglyndi, máttleysi, dofa í höndum ofnæmi og asma. B-6 vítamínskortur (Pýridoxín) getur orsakað anorexíu, uppköst, höfuðverk, blóðleysi, þunglyndi, gigtarsjúkdóma, vökvasöfnun, andremmu, sýkingar í munni og á tungu, hárlos, exem, námsörðugleika og ótímabæra öldrun.
Skortur á B-9 (Fólínsýra) getur orsakað þunglyndi, gráleitan húðarlit, kyndeyfð, fósturlát og leitt til þess að börn fæðist með klofinn hrygg. Nýjasta sænska rannsóknin sýnir að konur sem hafi fengið nóg af fólinsýru fái síður brjóstakrabbamein.
Skortur á B-12 (Cyanocobalamin) getur orsakað þunglyndi, slappleika, þreytu, svima, blóðleysi, augnvandamál, minnisleysi, taugaveiklun, suð í eyrum, einbeitingaskort og ótímabæra öldrun.
C-vítamínskortur getur leitt til skyrbjúgs, skjaldkirtilsvanhæfni, blóðleysi, sára sem gróa illa, tannholdssjúkdóma, marbletta, háræða- og ónæmiskerfi verður veikburða. D-vítamínskortur getur orsakað beinkröm, beinþynningu, vöðvaslappleika, lystarleysi, niðurgang, sviða í munni og hálsi og ótímabæra öldrun.
D-vítamín skortur er algengur á Norðurlöndunum þar sem fólk fær ekki nóg af sól á húðina. E-vítamínskortur getur leitt til fósturláts, ófrjósemi, vöðvarýrnunar, kransæða- og hjartasjúkdóma og ótímabærrar öldrunar. Sterkt samband er á milli E-vítamínskorts og brjóstakrabbameins.
K-vítamínskortur getur orsakað innvortis blæðingar, blóðnasir og að blóðið storkni ekki.
Coenzyme Q-10 skortur getur valdið ótímabærri öldrun, sykursýki, ofnæmi, asma og M.S. sjúkdómi.
Skortur á steinefnum er einnig alvarlegt mál, það má þá byrja á kalkskorti sem getur orsakað beinþynningu, beinkröm, lélegar tennur og tannholdssjúkdóma, þunglyndi, svefnleysi, taugasjúdóma, vöðvakrampa, exem, háan blóðþrýsting, gigt og verki í liðamótum.
Magnesíumskortur getur orsakað krampaköst, flogaveikiköst, vöðvakrampa, nýrnaskemmdir, djúpar hrukkumyndanir og hjartaáföll. Krómskortur getur leitt til sykursýki, orkuleysis, hjartasjúkdóma og óeðlilegrar sykurlöngunar í tíma og ótíma.
Járnskortur getur valdið blóðleysi, höfuðverk, þróttleysi, meltingarvandamálum, svima, hárlosi, neglur verða rákóttar á lengdina og mótstöðuafl gegn sjúkdómum minnkar.
Joðskortur getur valdið skjaldkirtilssjúkdómum, útstæðum augum, hjartasjúkdómum, dvergvexti, kyndeyfð, lágum blóðþrýstingi og andlegum kvillum.
Manganskortur er frekar sjaldgæfur en getur orsakað vansköpun, hjartavandamál, ófrjósemi, hátt kólesteról, asma, tannagnístri, andlegu ójafnvægi og þróttleysi.
Fosfórskortur er einnig sjaldgæfur en getur orsakað beinverki, pirring, máttleysi, doða í útlimum, skjálfta og titring og viðkvæma húð.
Kalíumkortur getur valdið þunglyndi, lágum blóðþrýstingi, höfuðverk, uppköstum, niðurgangi, taugaveiklun, stöðugum þorsta og þurri húð.
Selenskortur getur leitt til krabbameins, hjartasjúkdóma, lifrarskemmda, vöðvarýrnunar,sýkingar, ófrjósemi og ótímabærrar öldrunar.
Sinkskortur getur valdið blöðruhálskirtilskrabbameini, flogaveiki, krampa, beinþynningu, ófrjósemi, kyndeyfð, minnisleysi, fæðingargöllum, flösu, húðvandamálum, hvítum blettum á nöglum og sárum sem seint gróa.
Nokkrar algengar ráðleggingar varðandi vinsæl bætiefni koma hér á eftir.
Eftir sýklalyfjakúra er nauðsynlegt að taka ,,acidophilus“ til að byggja upp þarmaflóruna. Einnig er gott að taka meltingarhvata (ensím) af og til. Þar sem meltingarhvatar hverfa úr fæðunni við hitun yfir 40 gráður. Einungis fólk á hráfæði getur verið nokkuð öruggt að fá nóg af ensímum. Grænmetisætur fá ekki B-12 vítamín (Kóbalamín) úr fæðunni og nauðsynlegt er því að taka skammta af því af og til. Co- Q-10 bætiefnið er mikilvægt að fá nóg af, sérstaklega eftir því sem árin færast yfir. Það styrkir hjartað og eykur súrefnisflæði í blóðinu.
Margir sem hætta að taka Co-Q-10 í smá tíma finna hvernig orkan dettur niður og þreyta kemur í staðinn. Með aldrinum þurfa flestar manneskjur meira af Co-Q-10 en hvað næst úr fæðunni einni saman. Mikilvægt er að taka rétta tegund með Co- fyrir framan Q-10 annars er virknin ekki góð. Amínósýrur gegna mjög mikilvægu hlutverki og ráð að taka a.m.k. eina töflu af Amínó ,,Complete“ öðru hvoru. Þar eru mikilvægustu amínósýrurnar saman í einni töflu og með L- bandstrik fyrir framan hverja tegund sem segir okkur að þær séu náttúrulegar. En það er öruggast. Amínósýrur eru byggingarefni líkamans án þeirra fer líkamstarfsemin úr skorðum og við veikjumst og ótímabær hrörnun á sér stað.
Mjög mikilvægt er að fræðast vel um samspil bætiefa svo jafnvægi náist. Sykrungar eða sykrur (glyconutritionents) eru okkur einnig nauðsynlegar. Þeir sem uppgötvuðu mikilvægi sykrunganna 8 fengu Nóbelsverðlaunin fyrir árið 1999. Sjá greinina ,,Ómissandi sykrur“ eftir Sigríði Ævarsdóttur í vorblaði Heilsuhringsins 2007. Það er synd að mannfólkið skuli ekki geta fengið öll þau næringarefni sem það þarf á að halda beint úr fæðunni. En nútíma lífsmáti með kröfum um hraða, afköst og gróða bíður ekki upp á það í gerviefnaheimi.
Þegar líkaminn fær ekki öll þau vítamín, steinefni amínósýrur, sykrunga og omega 3-6-9, sól, hreyfingu og ást sem hann þarfnast hefur það einnig áhrif á geðheilsuna. Heilastarfsemin og tilfinningarnar fara í algjört rugl. Það er engin lausn að setja fólk á lyf með hættulegar aukaverkanir þar sem geðsjúkdómar koma fram. Góður sálfræðingur ráðleggur ekki lyf, heldur stuðning, kærleika, sól, birtu, hreyfingu og náttúrleg bætiefni, sem geta gert kraftaverk. Að fá heilsuáhuga og taka ábyrgð á eigin lífi og líðan er síðan besta lausnin.
Indíánahöfðingi var að leggja barnabarni sínu lífsreglurnar og sagði að í lífinu væri alltaf barátta milli góðs og ills. Freistingar biðu allstaðar og mikilvægt að vera á varðbergi og velja það sem rétt væri í lífinu. Baráttan væri alltaf á milli þess góða og þess illa. Barnið spurði þá: ,,Hver vinnur?“ ,,Sá sem þú nærir“ svaraði Indíánahöfðinginn.
Höfundur: Benedikta Jónsdóttir: Greinin skrifuð árið 2007 eftir hana er einnig greinin ,,Geðlyfjakynslóðir“ skrifuð 2004.
Flokkar:Greinar og viðtöl