Dásamlegir eftirréttir

Ég man á sínum tíma þegar ég skipti um mataræði þá var ég viss um að ég myndi aldrei aftur líta almennilegan glaðan dag þegar mér var uppálagt að sleppa öllum hvítum sykri, smjörlíki og smjöri, eggjum, hvítu hveiti o.fl. úr mataræði mínu. Það yrðu aldrei aftur stríðstertur, hnallþórur, rjómatertur, já allar þessar sætu kökur og kræsingar sem eru eitthvað svo stór partur af íslenskum veislum og veruleika. En lífið er einn stór galdur. ,,Þegar einar dyr lokast opnast aðrar enn flottari“.

Þetta er eiginlega uppáhalds málshátturinn minn, því þetta er svo satt. Ég fékk innsýn inn í nýjan og sérlega flottan heim þar sem hægt er að galdra fram ótrúlegustu kökur og eftirrétti úr fyrsta flokks lífrænu og heilsusamlegu hráefni. Ég man eftir því að einn kennarinn minn sagði að flestar af kökunum væru hollari en venjulegur morgunmatur barna. Unglingurinn á heimilinu heyrði mig segja frá þessu á einhverju námskeiðinu og hermir þetta uppá mig reglulega. Uppskriftirnar sem ég gef ykkur hér hafa aldrei áður birst á prenti, þær eru alveg rjúkandi nýjar.

Mér finnast þær tilvaldar við öll tækifæri þar sem við viljum gera okkur glaðan dag og fagna. Þær eru upplagðar á jólunum jafnt sem í fermingarveislum eða með sunnudagskaffinu. Aðalgaldurinn er að krydda þær með fullt, fullt af kærleika. Ef einhver lendir í vandræðum þá er um að gera að heimsækja mig á http://www.himneskt.is og fara inn á spjallið þar sem ég svara öllum spurningum eftir bestu getu. Gangi ykkur sem allra best Kær kveðja Solla

Jarðaberja-lagkaka
Í þessum uppskriftum nota ég bollamál og miða við að 1 bolli sé 2.4 dl.
Botn:
2 b döðlur, lagðar í bleyti í smá stund, (saxið þær og þrýstið ofan í bollamálið til að fá rétt magn).
1/4 b vatn
3/4 b kaldpressuð kókosolía
1/4 b nýpressaður sítrónu eða lime safi
2 tsk vanilluduft
1/4 tsk himalayasalt
9 b möndlumjöl
Hellið vatninu af döðlunum og maukið þær vel í matvinnsluvél, bætið vatninu útí til að auðvelda að mauka þær, kannski þurfið þið að stoppa vélina og ýta döðlunum sem fara uppá hliðarnar niður á botn, þetta er tilbúið þegar þið hafið döðluna Setjið kókosolíu, sítrónusafa, vanilluduft og salt útí og blandið vel. Bætið möndlumjölinu útí, mér finnst oft gott að skipta um hníf í matvinnsluvélinni og setja hnoðarann á. (það er líka hægt að nota hrærivél). Þegar allt er hnoðað vel saman skiptið þá deiginu í þrennt.

Krem:
2 b kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klst
2 b heimagerð kókosmjólk, (setjið vatnið + kjötið í blandara og blandið saman)
2 b jarðaber
1/2 b agavesýróp
2 msk nýpressaður sítrónusafi
1 tsk vanilluduft
smá himalayasalt
2 msk lecithin duft (fæst í heilsubúðum)
1 b kaldpressuð kókosolía.
Allt sett í blandara, nema lecithin og kókosolíu blandað saman. Bætið kókosolíunni & lecithininu útí og blandið vel saman, setjið inn í kæli í 1 klst.

Á milli laga:
3 b jarðaber,  þvegin og skorin í sneiðar.
Aðferð:
Notið hringla form með lausum botni (spring form). Þið þurfið að búa til 3 botna, einn í einu með því að setja bökunarpappír í botninn á forminu, þjappa 1 hluta af deiginu ofaní botninn, svo takið þið bökunarpappírinn með botninum uppúr og setjið inn í kæli. Endurtakið 2svar. Geymið 2 botna inn í kæli og setjið einn í botninn á forminu, síðan setjið þið 1 lag af jarðaberjasneiðum ofan á og þar næst 1 lag af kremi. Setið formið inní frysti í 15 mín. áður en þið bætið við næsta lagi (svo kremið nái að stífna). Setjið kökuna í frysti í 15 mín áður en þið berið hana fram. Þegar kakan er borin fram skuluð þið fara með hníf í innanvert formið til að losa hana frá, síðan opnið þið formið og setji kökuna á kökudisk. Endið á að skreyta hana með ferskum jarðaberjum. Ef þið ætlið ekki að borða hana strax þá geymið þið hana í kæli eða frysti. Þessi er hverrar krónu og mínútu virði, hún slær alltaf í gegn.

Kókosbaka – algjörlega himnesk
Botn:
2 1/2 dl lífrænt kókosmjöl
1/4 tsk vanilluduft
1/8 tsk himalayasalt
1 b döðlur, smátt saxaðar
Setjið allt í matvinnsluvél og blandið vel saman þar til þetta myndar gott deig. Þjappið deiginu ofan í lausbotna bökuform
Fylling:
1 1/4 b heimagerð kókosmjólk (safinn og kjötið innan úr 1 young coconut er sett í blandara og blandað saman
3/4 b kókoskjöt (innan úr young coconut)
1 b döðlur, fínt saxaðar
1/2 tsk vanilluduft
smá himalayasalt
3 msk lecithinduft (fæst í heilsubúðum)
3/4 b kaldpressuð kókosolía
Setjið kókosmjólk, kókoskjöt, döðlur, vanilluduft og salt í blandara og blandið vel saman. Bætið lecithindufti og kaldpressaðri kókosolíu útí, blandið þar til þetta er orðið alveg silkimjúkt. Hellið í bökubotninn og setjið inn í frysti í 1 klst áður en þetta er borið fram. Stráið kókosflögum yfir bökuna áður en hún er borin fram
Ofan á:
Lífrænar kókosflögur.

Banana og mangó eftirréttur með súkkulaðisósu

2-3 bananar
250 g frosið mangó
1 tsk vanilluduft
1 -2 bananar í litlum bitum
1/2 b hreint kakóduft
1/3 b kaldpressuð kókosolía
1/4 b agavesýróp
Takið mangóið út úr frystinum og látið byrja að þiðna (ca 20 mín). Setjið banana í blandara og blandið vel, bætið mangóinu útí ásamt vanilludufti. Blandið þar til silkimjúkt. Hrærið saman kakódufti, kókosolíu og agavesýrópi þar til er kekkjalaust. Setjið bananabita í skálar, síðan smá súkkulaðisósu og endið á banana/mangóblöndu. Endurtakið 1 sinni. Geymið í kæli áður en þið berið fram og skreytið með nokkrum mangóbitum og smá súkkulaðisósu. Ef það er afgangur má setja hann í íspinnaform og frysta

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir 2007Flokkar:Uppskriftir

%d bloggers like this: