Úr einu í annað haust 2001

Hér birtast 4 stuttar greinar fyrirsagnir Þeirra eru:

  • Melatonin minnkar líkur á Brjóstkrabbameini. 
  • Nýstárleg hollustufæða. 
  • Geta innyflaormar verið gagnlegir?
  • Engifervörur eru ekki allar eins. 

Melatonin minnkar líkur á Brjóstkrabbameini

Í Townsend Letter for Doctors and Patients, nóvember 2000 var Tori Hudson prófessor spurð um melatonin og brjóstkrabbamein. Hún svaraði eitthvað á þessa leið; „Ýmsir spennandi hlutir hafa komið fram sambandi við brjóstakrabbamein og melatonin. Vitað er að melatonin hindrar frumuskiptingu hjá brjóstakrabbameinsfrumum í tilraunaglösum (in vitro). Það hindrar forstig brjóstakrabbameins í dýrum. Það minnkar óbeint östrógen. Sjúklingar með östrógen-jákvæð brjóstakrabbamein eru með lítið melatonin í blóði enda þótt hið öfuga sé hjá östrogen-neikvæðum sjúklingum).

Fjórtán konur með IV gráðu brjóstakrabbamein, sem áður voru ónæmar fyrir að nota tamoxifen, voru gefin 20mg af melatonin á hverju kvöldi, sem mjög stór skammtur, ásamt tamoxifen. Fjórar af þessum fjórtán sýndu dálítinn bata eftir átta mánuði.“Tori Hudson segist gefa konum með brjóstakrabbamein stóra skammta af melatonin, án neinna aukaverkana, nema nokkrar kvarta um lítilsháttar höfuðverk og slæma drauma og finnst þessvegna óþægilegt að nota það. Aðrar hliðarverkanir segist hún ekki hafa orðið vör við.

Enda þótt þessar upplýsingar bæti litlu við það sem áður var vitað um melatonin, sýnir það þó hversu fáránlegt það er að banna sölu þess á Íslandi, eins og um hættulegt fíkniefni væri að ræða. Sennilega nota nokkrir tugir milljóna Bandaríkjamanna melatonin á hverju kvöldi og hafa gert í mörg ár. Hvergi hefur heyrst um nein umtalsverð vandamál sem það hefur haft í för með sér, öfugt við svefnlyf sem árlega valda dauða fjölda fólks, auk ávanahættu og fjölda margsháttar hliðarverkana.

Það mætti því með fullum rétti ásaka sem banna melatonin um að eiga vísvitandi sök á vanlíðan og jafnvel dauða ótalinna einstaklinga, sem neyðst hafa til, vegna óskiljanlegrar afstöðu Lyfjanefndar ríkisins, nú Lyfjastofnunar ríkisins, að nota bæði heilsuskaðleg og lífshættuleg svefnlyf í stað melatonins, sem jafnvel í risaskömmtum getur ekki valdið alvarlegri hliðarverkunum en svefndrunga daginn eftir að það er tekið inn. Sá fyrirsláttur að ekki hafi enn tekist að rannsaka melatonin nægilega vel og því sé ekki rétt að leyfa notkun þess er í raun fáránlegur. Vel má vera að melatonin hafi ekki verið rannsakað mikið á Íslandi og svo raunar um flest lyf og fæðubótarefni.

Margra ára reynsla tugmilljóna einstaklinga í Bandaríkjunum og víðar hlýtur þó að skipta einhverju máli. Sennilega er varla hægt að finna neitt lyf eða fæðubótarefni sem öllu meiri reynsla er komin á að nota en melatonin.Einhver sagði í mín eyru að ástæðan væri einföld. Melatonin er ódýrt efni sem fáir græða á að flytja inn landið eða selja. Svefnlyf eru miklu dýrari og eru þar að auki sum hver ávanabindandi. Miklu meira er því hægt að græða á því að banna sölu á melatonin og leyfa sölu á svefnlyfjum, heldur en leyfa að selja melatonin og eiga á hættu að notkun svefnlyfjanna minnkaði. Ég trúi því ekki að óreyndu að þetta sé hin raunverulega ástæða, en verði sala á melatonin ekki leyfð fljótlega, held ég þó að fari að renna á mig tvær grímur.

Nýstárleg hollustufæða
Þennan fróðleik rakst ég nýlega á í Townsend Letter for Doctors and Patients, janúar 2000. Þó að ég búist nú varla við því að Íslendingar fari í að taka upp það heilsufæði, sem hér er verið að lýsa, finnst mér þessi greinarstúfur þó svo skemmtilegur að ég læt hann koma hér dálítið styttan. Í Kína, Víetnam, Kóreu og flestum öðrum löndum í Suðaustur-Asíu hafa ánamaðkar verið notaðir til matar og lækninga í þúsundir ára, bæði ferskir og þurrkaðir. Í Kóreu er hefð að fá sér skál af ánamaðkasúpu, áður en fólk gengur til náða. Því er trúað að þetta bæti heilsuna og verji fólk fyrir margsháttar sjúkdómum. Þar fær fólk ánamaðkasúpu á næstum því hverjum matsölustað. Þar fást einnig þurrkaðir og malaðir ánamaðkar, unnir með mjög þróaðri framleiðslutækni til að tryggja hreinleika og gæði.

Þetta ,,ánamaðkaduft“ er eitt aðalefnið í hefðbundnum Víetnömskum læknisdómi, sem nefndur er ,,Kraftaverkalyf sem getur bjargað mannslífum á 60 mínútum“. Það er notað við mjög alvarlega sjúkdóma, t.d. blóðeitrun og bakteríu- og veirusýkingar á háu stigi, blæðingar og heilaáföll. Eins og nafnið bendir til verkar það næstum því samstundis. Dr. Do Tot Oi, læknir, sem lengi hefur verið forstjóri „Þjóðlegu lyfjafræðistofnunarinnar í Hanoi“ og er auk þess þekktur rithöfundur, hefur ritað heilmikið um hollustu ánamaðka. Dr. Ba X. Hoand, annar víetnamskur vísindamaður, er í marga ættliði kominn af læknum.

Hann reynir að samþætta læknisvísindi Vesturlanda og Kínverja. Báðir þessi vísindamenn telja mikil not fyrir ánamaðka við lækningar í Víetnam og nota þá m.a. við: heilaáföll, háan blóðþrýsting, æðakölkun, flogaveiki, þvagfæravandamál, malaríu, hitasótt, blóðeitrun, bólur og hósta. Þar að auki eru þeir notaðir við bólgur í meltingarfærum og er þá trúlega átt við t.d. maga- og skeifugarnarbólgu, Crohnssjúkdóm og ristilbólgu. Dr. Ba telur að ánamaðkar verki sem andoxarar og séu góðir við mígren, liðaverki og svefnleysi, auk þess að „róa lifrina“. Þetta er nú orðin nokkuð löng upptalning á ágæti ánamaðka og þó að greinin sé dálítið lengri ætla ég að hætta hér, svo að ekki verið búið að éta upp alla ánamaðka fyrir næsta lax- og silungsveiðitímabil áður en það hefst. Æ.J.

Geta innyflaormar verið gagnlegir?
Flestir telja sennilega að snýkjudýr sem lifað geta í þörmum manna og dýra séu af hinu illa og æskilegast sé að losna við þau sem fyrst, hafi einhver verið svo óheppinn að sýkjast af þannig ófögnuði t.d. erlendis. Nú hafa komið upp hugmyndir um að e.t.v. sé málið ekki svona einfalt og að í vissum tilfellum geti snýkjuormar í þörmum gert gagn og jafnvel læknað fólk af alvarlegum sjúkdómum. Bent hefur verið á að forfeður okkar og formæður hafi þróast í milljónir ára við hlið þessara snýkjuorma og á þessum tíma höfum við þróað með okkur nokkurskonar sambýli með þeim.

Til þess að ónæmiskerfi líkamans tortímdi ormunum ekki strax, þróuðu þeir aðferð til að bæla ónæmiskerfi forfeðra okkar nægilega mikið til að þeir gætu lifað í einskonar sambýli í meltingarfærunum. Talið er að í ónæmiskerfi meltingarfæranna séu m.a. tvær tegundir T-fruma, TH-1 sem setur í gang bólgusvörun og TH-2 sem hindrar eða stöðvar bólgusvörun. Þessar tvær tegundir T-fruma þurfa stöðugt að vera í jafnvægi ef vel á að vera. (TH-1 eru sennilega sömu frumur og oft eru nefndar CD-4 eitilfrumur eða hjálparfrumur og TH-2 sömu frumur og nefndar eru CD-8 eitilfrumur eða bælifrumur). Því er trúað af sumum, að þetta jafnvægi náist ekki alltaf og að TH-1 frumurnar séu of mikið virkar.

Það köllum við „sjálfsónæmi“ eða „sjálfsofnæmi“. Þeir sem trúa á þessa kenningu telja að snýkjuormarnir bæli ónæmiskerfið nægilega mikið til að TH-1 frumurnar hætti að vera ofvirkar og bólgusjúkdómar í þörmum t.d. Crohns-sjúkdómur eða sáraristilsbólga hverfi. Þeir telja að ónæmiskerfi fólks kunni jafnvel að vera aðlagað því að vera með snýkjudýr í þörmunum og starfi þar af leiðandi ekki rétt ef þau vantar. Núlifandi kynslóð á Vesturlöndum er sennilega fyrsta kynslóðin í sögu mannkynsins, sem ekki gengur með fleiri eða færri snýkjudýr í meltingarfærunum.

Dr. Joel Weinstock, prófessor við Háskólann í Iowa í Bandaríkjunum, er einn þeirra sem trúir þessari kenningu og segir að tíðni bólgusjúkdóma í þörmum virðist standa í öfugu hlutfalli við tíðni snýkjudýra í þörmum. Hann segir: „Ormar hafa lifað í meltingarfærum okkar í meira en þrjár milljónir ára . . . ónæmiskerfið í okkur hefur þróast með tilliti til þess.“ Weinstock og samverkamenn hans sýktu mýs með snýkjuormi sem nefndur er helminths.Sú tilraun afhjúpaði að sýktar mýs fengu miklu síður bólgusjúkdóma í meltingarfærin en ósýktar mýs.

Síðan fóru þeir að undirbúa að gera hliðstæða tilraun á fólki. Sex sjúklingar með bólgusjúkdóma í meltingarfærunum voru valdir. Þeir fengu örsmá egg sérstakra innyflaorma, blandað saman við drykk. Ormarnir gátu lifað í meltingarfærum manna en ekki fjölgað sér og drápust á nokkrum mánuðum. Hjá öllum sex sjúklinganna minnkuðu sjúkdómseinkennin og fimm þeirra læknuðust alveg. Engar hliðarverkanir komu fram og batinn af þessari einu snýkjudýrameðferð entist frá einum upp í fimm mánuði. Nú er Weinstock að undirbúa miklu stærri tvíblinda könnun til að sanna betur kenningu sína. Þannig könnun mundi gefa vísindamönnunum miklu betri innsýn í hvernig snýkjudýrin bæla ónæmiskerfið og e.t.v. leiða til spennandi uppgötvana í meðferð bólgusjúkdóma í meltingarfærum.

Heimild: Stephen A. Levin, Townsend Letter for Doctors and Patients, janúar 2001. Með greininni fylgir heimildalisti þar sem m.a. er vitnað í New Scientist, 7. árgang 1999, Microbiology, 13.ágúst 1999, Houston Chronicle, 25. október 1999 og BBC News, 4. ágúst 1999.

Engifervörur eru ekki allar eins
Að undanförnu hefur töluvert verið rætt um lækningarmátt engiferrótar og afurðum unnum úr engiferrót, einkanlega við gigtarsjúkdómum. Fjölmargar tegundir efna unnum úr engiferrót eru á heimsmarkaðinum og nokkrar þeirra eru fáanlegar hér á landi. Greinarhöfundur hefur því miður ekki haft aðstöðu til að athuga eða prófa nema lítinn hluta þessara náttúruefna en í Danmörku hefur nýlega verið gerð könnun á 11 engifervörum sem allar fást þar og sumar einnig hér. Í ljós kom að mjög mikill munur er á magni virkra efna í þessum vörum, svo að jafnvel þurfti að nota mörgum tugum sinnum meira af sumum vörunum til að fá jafn mikið af virku efnunum og í þeirri vöru þar sem mest var af virku efnunum. Vörurnar voru efnagreindar hjá „Ministeriet for fødevarer, landbrug og fiskeri. Danmarks Jordbrugs Forskning“ (Landbúnaðarrannsóknir Danmerkur).

Eins og ég hef oft áður bent á í Heilsuhringnum verkar engiferrótin þannig að efni í henni sem nefnd eru ,,gingerolar“ hafa áhrif á ensímin cyclooxigenasa og lípoxigenasa. Cyclo-oxigenasi hvetur myndun prostaglandina úr fitusýrunni arakidonsýru en lípoxigenasi hvetur myndun efna sem nefnd eru leukotríen-efni. Bæði þessi efni eru bólgu-og sársaukavaldandi og koma við sögu m.a. í gigtarsjúkdómum og bólgum í meltingarfærum svo að fátt eitt sé nefnt. Því má draga úr einkennum áðurnefndra sjúkdóma með því að hindra þessi ensím, eins og talið er að engiferrót geri.

Flest gigtarlyf hindra aðeins cyclo-oxigenasa en ekki lípoxygenasa, eins og engiferrót. Því getur engiferrót stundum lagað ýmsa bólgusjúkdóma sem leukótrien efni valda t.d. astma, sem stundum versnar við að nota gigtarlyf. Einnig valda gigtarlyf oft magabólgum eða magasári, sem engifer veldur ekki. Cyclo-oxigenasa-ensímið er raunverulega tvö ensím sem nefnd eru cox-1 og cox-2. Hefðbundin gigtarlyf hemja aðallega cox-1, sem er í maga og meltingarfærum en viss prostaglandin verja magaslímhúðina fyrir því að magasýrurnar skaði hana, en sé cox-1 hindrað í að myndast er magaslímhúðin óvarin og þá myndast oft magasár.

Engiferrót hemur eða hindrar aðeins cox-2 ensímið við ýmsar bólgusvaranir víðs vegar í líkamanum, t.d. liðagigt, en hefur ekki áhrif á magaverjandi prostaglandin. Þá er engiferrót talin hemja verkanir ákveðinna cytokína, TNF-alfa og IL1-beta (tumor necrosis factor alfa og interleukin 1-beta) sem bæði hvetja myndun bólguörvandi prostaglandina. Auk þessa er talið að engiferrót dragi úr líkum á að fólk sem notar engifer eða engiferextrakta fái blóðtappa, bæði í bláæðar og slagæðar. Þetta má skýra þannig að með því að hamla myndun cyclo-oxigenasa myndast síður thromoboxanefni, sem eru prostaglandin sem örva samloðun blóðflaga, en samloðun blóðflaga er trúlega fyrsta stigið í að blóðtappi myndist.

Ástæða þess að ég ákvað að skrifa þennan greinarstúf er, að ég tel að engiferrót og extraktar úr henni séu mjög áhugaverð efni fyrir margra hluta sakir. Ekki er þó sama hvaða engifervörur eru notaðar og getur raunar skipt sköpum um árangur. Ég ráðlegg því öllum sem ætla sér að nota engifervörur að lesa vandlega innihaldslýsingu á umbúðum og bera saman við aðrar hliðstæðar vörur sem í boði eru. Séu engar þannig upplýsingar á umbúðum tel ég skynsamlegt að velja eitthvað annað. Vegna þess að líta mætti á það sem auglýsingu að benda á einhverja ákveðna vöru eða merki geri ég það ekki, enda tel ég að kaupendur eigi að vera færir um að velja hjálparlaust eftir lestur þessarar greinar.

Höfundur. Ævar Jóhannesson árið 2001.



Flokkar:Úr einu í annað, Skrif Ævars Jóhannessonar

%d bloggers like this: