Erfðabreytt skepnufóður og matur – er það málið? 2. hluti

Í skrifum um erfðabreytt matvæli verður ekki hjá því komist að fjalla sérstaklega um fyrirtækið Monsanto og eiturefnið sem það framleiðir og erfðabreyttar plöntur eru þróaðar til að þola, notkun þess og afleiðingar.

 

Monsanto er fjölþjóða efna- og landbúnaðarlíftæknifyrirtæki með bandarískan uppruna og aðsetur þar í landi. Það var stofnað fyrir rúmlega 100 árum og hefur lengst af starfað í efnaiðnaði, þar til á 9. áratugnum þegar það fór í líftækniiðnaðinn – til að geta aukið sölu sína á eiturefnum undir merkjum erfðatækni. Erfðabreyttar lífverur sem fyrirtækið Monsanto hefur þróað og fengið einkaleyfi á eru erfðabreyttar með geni ákv. baktería til að þola illgresiseitur, sem fyrirtækið sjálft framleiðir og heitir Roundup. Erfðabreytta fræið er Roundup Ready þ.e. tilbúið til að þola margfalt magn þessa eiturefnis m.v. aðrar plöntur og lífverur óerfðabreyttar. Erfðabreytt ræktun byggist á notkun þessa eiturefnis. Þetta þýðir, að síðan erfðabreytt ræktun kom til sögunnar hefur eiturefnanotkun margfaldast.

Monsanto hefur verið í miklum viðskiptum við hernaðaryfirvöld og framleiddi áður og markaðssetti m.a. eiturefnin PCB, DDT sem notað var í síðari heimstyrjöldinni og síðan í landbúnaði og Agent Orange – sem notað var í Víetnamstríðinu til að eyða gróðri. Roundup – með virka efninu Glyphosate – framleitt af Monsanto, er aðal eiturefni notað í ræktun erfðabreyttrar uppskeru og mest notaði illgresiseyðir í heiminum í dag. Alltaf hefur verið fullyrt af hálfu talsmanna Monsanto að vörur þess séu öruggar, skaðlausar heilsu almennings, umhverfi osfrv.- jafnvel umhverfisvænar. Þeir sem hanna viðskiptamódel fyrirtækisins eru færir í sínu fagi, rekstur Monsanto gengur vel og velta fyrirtækisins gríðarleg.

Úlfur í sauðagæru

Staðreyndir tala hins vegar öðru máli, hversu flottan búning menn pakka þeim inní. DDT var notað sem skordýraeitur í Bandaríkjunum frá því eftir seinni heimstyrjöld og allt þar til það var bannað með lögum árið 1972 þar í landi vegna þrýstings frá umhverfissinnum. Í framhaldinu gekk í gildi bann á notkun þess á heimsvísu, svo stórskaðlegt er þetta efni. Agent Orange var úðað yfir Viet Nam í gríðarlegu magni með hörmulegum heilsufarslegum afleiðingum og eyðileggingu umhverfis og er nú bannað. Eins er með PCB, sem er þrávirkt, lífrænt eiturefni sem Monsanto hóf framleiðslu á árið 1929 þar til almenn notkun þess var bönnuð í Bandaríkjunum árið 1979 og síðar einnig að mestu annarsstaðar.

Vaxandi fjöldi vísbendinga benda til þess að Roundup orsaki, líkt og Agent Orange vansköpun í nýburum. Börn sem fæðst hafa nálægt ökrum í Argentínu þar sem Roundup Ready soja hefur verið ræktað hafa fæðst jafn skelfilega vansköpuð og þau börn sem fæðst hafa á svæðum í Vietnam sem Agent Orange hefur mengað. Nýleg skýrsla opinberaði að eftirlitsstofnanir og skordýraeitursiðnaðurinn hafi vitað um tengsl Roundup við fæðingargalla fyrir löngu – sum í meira en 2 áratugi – en hafi haldið upplýsingunum leyndum fyrir almenningi. Skv. skýrslunni, sem birtist í Earth Open Source, orsakar Roundup m.a. fæðingargalla, trufnlanir á innkirtlastarfssemi, skemmdir á DNA, taugaeitrun og krabbamein.

10561701_10153092446913747_4043915222169748972_n

Týnda kynslóðin, einnig kölluð Orange -kynslóðin.

Talið er að um hálf milljón barna hafi fæðst í Viet Nam, alvarlega andlega og líkamlega fötluð vegna afleiðinga plöntueitursins Agent Orange. http://www.projectagentorange.com

Hagsmunaárekstrar iðnaðar og vísinda

Síðan erfðabreytt fræ var fyrst kynnt til sögunnar fyrir um 20 árum, hefur markaður fyrir uppskeru sem háð er eiturefnanotkun gefið af sér multibilljóna dollara iðnað. Fjármögnun til þróunar enn fleiri tegunda af erfðabreyttri, eiturþolinni uppskeru hefur að mestu komið frá eiturefnaiðnanum sjálfum. Nú er svo komið að markaðsstaða þessara eiturefnafyrirtækja er orðin svo sterk að þau reyna ekki lengur að fela það að fjárhagslegir hagsmunir ráða þegar kemur að því að taka ákvarðanir um hvaða rannsóknir séu framkvæmdar – hvað fæst birt og hvað ekki.

Margt bendir til að eiturefnafyrirtæki undir merkjum ,,líftæknifyrirtækja sérhæfðum í erfðarannsóknum” hafi frá byrjun, markaðssett vörur sínar byggðar á alvarlega gölluðum vísindum.

Að ráða hagsmunaaðila úr iðnaðinum til starfa í allar mögulegar deildir innan stjórnkerfisins er hluti af viðskiptamódelinu og hefur haft mjög skaðleg áhrif á heilbrigðis- og umhverfispólitík. Sú viðtekna hugmynd að vísindaleg heilindi séu hafin yfir vafa, hefur síðan leyft ósómanum að viðgangast.

Niðurstöður rannsóknar ,,ófullnægjandi”

Sama ár og niðurstöður lífstíðar-fóðurrannsóknar Séralini´s á rottum (sjá 1. hluta þessara greinaskrifa) voru birtar, dró ritstjórn Elsevier þær tilbaka – skýringin sem gefin var er sú, að rannsóknin og niðurstöður hennar ,,uppfylltu ekki vísindalega staðla”. Þó hafði hún farið athugasemdalaust í gegnum helmingi ítarlegri ritrýni en gerðar eru kröfur um að öllu jöfnu og stór hópur vísindamanna skrifaði stuðningsyfirlýsingu til handa Séralini eftir úrskurðinn. Hvort ákvörðunin hafði með það að gera, að fyrr á árinu hafði verið búin til ný ritstjórnarstaða hjá Elsavier og við henni tók fyrrum vísindamaður hjá Monsanto – framleiðanda erfðabreytta fóðursins, skal ósagt látið. Segja má þó, að ef þessar niðurstöður eru marklausar, þá ætti að taka allar erfðabreyttar vörur af markaði, því markaðssetning þeirra byggir á niðurstöðu nákvæmlega samskonar tilraunar nema styttri og eru þá marklaus líka.

Hverju svo sem talsmenn framleiðenda erfðabreyttra matvæla halda fram, þá hefur það aldrei verið sannað með óyggjandi hætti, að neysla erfðabreyttra matvæla sé örugg heilsu manna og þangað til ættu neytendur að njóta vafans. Eins og áður hefur verið rakið og verður farið í enn ítarlegar í næstu greinum er hins vegar margt sem bendir til hins gagnstæða.

Niðurstaða rannsóknar Séralini´s varð þó til þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sá ástæðu til að bregðast við og lagði 3 milljónir Evra í að endurtaka tilraunina, með stærri hóp tilraunarotta. Sú tilraun er sennilega hafin nú þegar þetta er skrifað og verður vonandi yfir hagsmunapot hafin.

Almannahagsmunir aukaatriði

Sammerkt með öllum eiturefnum Monsanto er að þau valda krónískum sjúkdómum og eitrunum sem koma fram á löngum tíma og oft er erfitt að sanna tengingu við orsakavald og enn erfiðara að lagfæra eða hreinsa burt. Því ætti að vera eitthvað annað uppi á teningnum núna hjá fyrirtækinu, með erfðabreytta uppskeru og Roundup/Glyphosate ? Vísbendingar hrannast upp, um að það sé nákvæmlega það sama í gangi þar.

Þrátt fyrir sögu fyrirtækisins af skaðsemi framleiðslu þess hefur bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) leyft því sjálfu að rannsaka sínar eigin vörur og gera tilraunir m.t.t. öryggis fyrir neytendur og umhverfi. Afstaða fyrirtækisins er alveg skýr og vitna ég í viðtal sem tekið var fyrir The New York Times þar sem spurt var útí hugsanlega áhættu af neyslu erfðabreyttra matvæla : ,,Monsanto ætti ekki að þurfa að ábyrjast öryggi matvæla framleiddum með líftækni,” segir Phil Angell, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Monsanto. ,,Okkar hagsmunir eru að selja eins mikið af þessum mætvælum og hægt er. Það er hlutverk FDA að tryggja öryggið”.

… og þar hafa menn það!

Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir



Flokkar:Annað, Ýmislegt

Flokkar/Tögg, , , , ,