Ný viðhorf

Erindi Gunnars Rafns Jónssonar læknis á kynningarfundi Heilsufrelsis Íslands         2. nóvember 2013

Áheyrandi góður! Þú hugrakki, forvitni og framsýni einstaklingur, sem hingað ert kominn, vertu velkominn í vinahópinn!

  • Vita skaltu, að viðhorf þín skapa heiminn .
  • Víðsýni þurfum, því kröftug til breytinga höldum.
  • Saman við getum, þá söngurinn ómar um geiminn.
  • Sjáið! Það tókst, því við frelsið til heilsunnar völdum.

Hvers vegna er ég hér? Ég á mér hugsjón, draum, sem hefur búið með mér í tugi ára, draum sem tengist frelsi, mætti andans, tengingu líkama og sálar í heildrænum forvörnum, lausnum og meðferð skjólstæðinga.

Stofnun heilsufrelsis-samtaka hér á landi er eitt skref á þessari vegferð.

Heilsufrelsi: hvað er það  og hvers virði er slíkt frelsi?

Heilsufrelsi fjallar um val, ábyrgð einstaklinga, bæjarfélaga og ríkja, þessa nýju nálgun, þetta alvöru lýðræði. Leifur, vinur minn, sendi mér í vikunni fyrirlestur Margaret Hefferman um „willful blindness“. Þar kemur fram, að rannsóknir um víða veröld sýna, að sjái fólk eitthvað athugavert, eitthvað sem betur mætti fara heima við, hjá fyrirtækinu, sem það vinnur hjá eða í samfélaginu, kjósa 80% að þegja. Hún segir: „Frelsið er ekki til, ef þú notar það ekki!“ . Við höfum kosið, að vera í hinum hópnum. Við viljum bæði sjá og heyra. Það er þó ekki nóg að mótmæla. Þú verður að koma með uppbyggilegar tillögur til úrbóta.

Í dag munu ýmsir fyrirlesarar kynna samtökin og hugsjónagrunn þeirra.

Ég hef óbilandi trú á þér, áheyrandi góður, að þú hlustir með opnum huga á allt það, sem við höfum fram að færa.

Meðvitundin er nefnilega undirstaða alls. Mikilvægt er síðan, að tvinna saman þekkingu, innsæi og kærleika, lifa síðan í ljósi og heiðarleika.

Nafngift heildrænna lækninga hefur breyst talsvert undanfarin ár innan alþjóðlega heilbrigðiskerfisins úr Alternative Medicine( í staðinn fyrir ) yfir í Complementary Medicine ( uppbótar ) og síðan Functional, Integrative eða Integral Medicine.

Á undanförnum 10 árum hefur orðið gjörbylting í rannsóknum. Ný fræðigrein, utangenaerfðafræðin, leit dagsins ljós. Þá tengdust fjölmargar sérfræðigreinar,svo sem á tauga-, sálar- og ónæmissviðum. Í hverri rannsókninni á fætur annarri kom í ljós, að tilfinningar, streita, umhverfisþættir, matur, trú okkar, bænir og annað þess háttar kæmi boðum yfir til erfðaefnisins. Sjálf frumuhimnan varð allt í einu heilinn í stað DNA erfðaefnisins. Menn hafa jafnvel seilst svo langt að segja, að erfðir réðu ekki 90% af sjúkdómum okkar, sú tala væri nú dottin niður í 5-10%.  Það værum við sjálf og umhverfi okkar, sem réði þar mestu.

Með þetta í huga verður ábyrgð okkar enn meiri, hvað snertir eigin sjúkdóma.  Einnig getum við beitt áhrifum okkar til góðs á fjölskyldu okkar, samfélag og alla framtíð.  Þannig virðist líkaminn lesa úr hugsunum okkar og tilfinningum.  Nokkrar rannsóknir sýna að, hvað einstaklingi finnst um heilsu sína, ræður mestu um, hve lengi viðkomandi lifir.

Tími er kominn til þess, að sá sem læknar, sjái fyrir sér samspil ytri þátta svo sem umhverfis og trúar, tilfinninga, innrætingar eða sálarástands sjúklingsins sjálfs hins vegar. Sá tími er liðinn, að við getum barið höfðinu við steininn, talið sjálfum okkur og öðrum trú um að líkami og sál séu óháð hvort öðru, ríghaldið í trú á lyf og erfðatækni.

Hugarfarsbreytingar er þörf, við verðum öll að vinna eftir þessu módeli til framtíðar.  Skemmtilegasta dæmið um þetta, er það, sem við höfum kallað „placebo“ áhrif.  Sannfæringakraftur þess sem læknar og fullvissa hins sjúka eða fólks yfirleitt, virðist ráða um og yfir 30% af því, hver útkoman verður.  Nýjustu rannsóknir sýna, að hægt er að auka hlutfallið yfir 80%

Mögulega munu rannsóknir á mörgum óskiljanlegum fyrirbærum, svo sem fjarhrifum, varpa betra ljósi á alheimsvitundina, svo og því guðlega eðli, sem er í okkur öllum.

Ímyndið ykkur nú, hvílíkan sparnað heilbrigðiskerfið gæti sýnt fram á með að virkja þessa þætti til fullnustu.  Með því móti mætti draga stórkostlega úr sjúkdómum.  Vellíðan, kærleikur og ást yrði þannig ríkjandi, ekki bara í samskiptum manna heldur einnig í umgengni mannsins við náttúruna, við jörðina alla.

Hvert er enska orðið yfir sjúkdóm? Dis-ease (ójafnvægi)Dis= neitandi forskeyti=vilja ekki=vera ekki. Ease=ró=yfirvegun=jafnvægi. Líkaminn, hið undursamlega meistarastykki, vill vera í jafnvægi.

Viljum við ekki öll vera heilbrigð?  Vilja ekki allir vera elskaðir og dáðir? Vilja ekki allir hafa mikinn sjálfsaga / viljastyrk?  Einkunnarorðin verða því:

Ég vil, ég get, ég skal.

Þín er ábyrgðin! Þitt er lífið og tilveran öll. Þitt er valið!

Leo Buscaglia lagði eitt sinn eftirfarandi verkefni fyrir háskólastúdenta. „Hverju mynduð þið koma í verk, ef þið vissuð, að þið ættuð einungis eina viku eftir ólifaða?“  Langur tími leið, en ekki kallaði Leo eftir svörum.  Þegar hann var inntur eftir lokadegi, svaraði hann: „Ég hef ekkert með svörin að gera.  Farið bara og  komið þessu í verk!“

Niðurstaða mín er þessi, að mestu máli skiptir:

  • • hvað þú hugsar og hvernig þú vinnur úr tilfinningum þínum
  • • hvað þú borðar
  • • hvernig þú hreyfir þig
  • • hvernig þú hvílist
  • • hvernig þér tekst að forðast streitu
  • • hvernig þú kærleiksríkt umgengst ættingja, vini, kunningja og vinnufélaga

Því segi ég við hvert ykkar:

  • • þú getur þetta
  • • gerðu sjálfum þér greiða
  • • elskaðu sjálfan þig
  • • náðu stjórn á eigin huga

• settu þér markmið, settu fram staðhæfingu,  mótaðu yfirlýsingu um endurbætur á tilveru þinni. Síðan er galdurinn falinn í að eyða öllum vandkvæðum meðvitað um leið. Síðan endurtaka staðhæfinguna, uns hugurinn hefur fest trú á því, sem hún inniheldur.  Þá verður hún að veruleika

Hvað segir ekki steggurinn á Tjörninni? „Ég endur tek.  Ég endur tek.  Ég endur tek“. Ákveddu, hvernig lífi þú vilt lifa og stattu við það. Þannig veistu, hvað þú átt að gera. Þú þarft síðan jafnvel ekki að hugsa þig um. Þú getur látið hjartað ráða för.

Síðan hjálpum við hvert öðru á vegferðinni.Við sköpum okkar líf. Máttur hugans, viljans og hjartans í kærleika og ljósi þarf að bergmála hið innra með okkur og hljóma um allt. Þá getum við hvíslað brosandi hvert að öðru:

„ Heimurinn er endurkast af þér.“

Við sköpum allt, sem miður fer í okkar líkama og við venjulega köllum langvinna sjúkdóma. Mestu áhrifavaldar eru eftirsjá, gagnrýni, samviskubit og hræðsla.  Við verðum að láta hið liðna vera liðið, sleppa takinu, fyrirgefa öllum.  Við verðum að fyrirgefa okkur sjálfum og byrja að elska okkur sjálf.

Að viðurkenna sjálfan sig og taka sig eins og maður er, er lykillinn að breyttum högum.  Þegar við virkilega elskum okkur sjálf, gengur allt upp í lífinu.  Munum, að við erum öll eitt, við höfum öll sameiginlega ábyrgð. Lífið er glæsilegt listaverk, alheimurinn ein titrandi orkuheild.

Heilsufrelsi er efni dagsins. Nú er valið þitt, hlustandi góður. Ég efast ekki um, að fjölmargar spurningar muni leita á hug þinn í dag eftir erindi og umræður dagsins.

Ég spyr sjálfan mig:

Af hverju gengur okkur ekki betur í baráttunni við krabbamein?

Af hverju borðum við of mikið, verðum sífellt feitari og hefðbundnar meðferðir skila einungis 3% langtíma árangri?

Af hverju er einungis einu prósenti af heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustu varið til forvarna?

Er ekki merkilegt, að við skulum geta ráðið úrlestri erfðaefnis okkar?

Af hverju hafa bændur og garðyrkjumenn lægsta tíðni krabbameins meðal stétta á Norðurlöndum?

Af hverju lifa bændur stétta lengst á Íslandi?

Hvernig stendur á því, að 25 % hækkun hefur orðið á  grænmeti og ávöxtum á síðasta ári, mesta hækkunallrar matvöru.

Er ekki kominn tími á nýja sýn – ný viðhorf – að við nálgumst viðfangsefnin frá öðru sjónarhorni?

Við öll viljum vita, hvert ferðinni er heitið. Sumum getur fundist margt vera öfugsnúið í okkar samfélagi líkt og í ævintýrinu um Lísu í Undralandi. „ Geturðu verið svo vænn að segja mér, hvaða leið ég á að velja héðan?“, spurði Lísa í Undralandi köttinn, sem svaraði að bragði: „ Það byggist nú heilmikið á því, hvert þú ætlar!“

Það er þitt frelsi í dag, hlustandi góður. Hvaða leið velur þú? Hvert ætlar þú? Það er þitt val. Það er þín ábyrgð, bæði sjálfs þín vegna og samferðamanna þinna.

Ég trúi því að:

  • • með eflingu tilfinningaþroskans geti ég fundið meiri hamingju, kærleika, gleði og frið, eflt samhug og samvinnu
  • • viðhorf mín skapi mitt líf, mína veröld
  • • ég geti breytt viðhorfum mínum, samrýmist þau ekki því lífi, sem ég vil lifa

Hvernig get ég þá náð þeim árangri?

  • • með þjálfun meðvitundarinnar
  • • nái betri tengingu við hið æðra innra með mér
  • • losi vitund mína við fordóma og þröngsýni
  • • efli samhug, samvinnu, kærleika, frið og hamingju

Í sumum fyrirlestra minna undanfarið hef ég stundum varpað fram spurningunni: Viltu vera memm? Ég hef nefnilega þá trú, að bestur árangur náist, þegar menn vinna saman.  Setjum okkur þannig sameiginleg markmið:

  • • breytum heimsmynd og lífsgildum úr ytri efnisgæðum, tengdum hámarksgróða í upplifun, kærleika, gleði, réttlæti, samhjálp, samstarf og virðingu
  • • stjórnum eigin huga og úrvinnslu tilfinninga
  • • mótum eigið líf
  • • tengjum saman vestrænar lækningar og náttúrulækningar undir einum hatti
  • • aukum ábyrgð hvers og eins á eigin heilsu og lífi
  • • þannig lækkum við heilbrigðiskostnað umtalsvert og aukum vellíðan hvers og eins

Nýjustu rannsóknir í heilbrigðisvísindum, utangena-erfðafræðin, heilbrigð skynsemi og samdráttur í framlagi hins opinbera til heilbrigðismála kallar á breytingar.  Aukum öll möguleika á því, að einstaklingar verði:

  • • víðsýnir
  • • sannir
  • • heiðarlegir
  • • gefandi
  • • fáist til að skipta um skoðun
  • • vinni saman
  • • hverfi úr dómarasætinu
  • • hætti að vera fórnarlömb
  • • beri ábyrgð á eigin lífi
  • • fylgi gullnu reglunni

Viltu verða samferða?

Gefi ég mér, að þær forsendur, sem ég hef nefnt hér á undan, séu réttar, tel ég, að eftirfarandi útfærsla sé rökrétt:

 Ég vil:

  • • fulla samþættingu sannreyndra aðferða náttúrulækninga við hefðbundna læknisfræði, svo að allir geti glaðir notið hámarks heilsu og vellíðunar
  • • auka ábyrgð einstaklinga á eigin heilsu
  • • að einstaklingar, heilbrigðir sem sjúkir, eigi val
  • • aukna áherslu á forvarnir og verkefni, sem þeim tengjast
  • • árvekni og samstarf milli ráðuneyta um heilbrigða þjóð
  • • starfa af jákvæðni og heilindum

Ég styð:

  • • einstaklinga í þekkingaröflun sinni og vali, hvort sem þeir telja sig fríska eða sjúka
  • • samkennd og samvinnu allra aðila, sem starfa í heilbrigðisþjónustu
  • • sannreyndar rannsóknir og menntun
  • Ég er sannfærður um, að bestur árangur næst með víðsýni, forvörnum, heildrænum aðferðum og  lækningum.
  • Sú er einlæg von mín, að heimasíða Heilsufrelsis komi þér að góðum notum.

Við þiggjum hverja þá aðstoð, sem að gagni má koma í samtökunum. Einnig hjálpumst við að því,  að  heimasíðan verði sem best. Við hvetjum alla til þess að ganga til liðs við okkur, því að saman vinnum við betur.

Ennfremur vona ég, að efnið:

  • • auki þekkingu þína og þroska
  • • veiti þér yndisauka og gleði
  • • auki samkennd og kærleika fyrir sjálfum þér, samferðarmönnum, náttúrunni og samfélaginu öllu
  • • auki tilfinningu og næmni fyrir eigin líkama og sál

Elskulegi áheyrandi!

  • Vita skaltu, að viðhorf þín skapa heiminn .
  • Víðsýni þurfum, því kröftug til breytinga höldum.
  • Saman við getum, þá söngurinn ómar um geiminn.
  • Sjáið! Það tókst, því við frelsið til heilsunnar völdum.

Þú þarft bara að hafa sannfæringu, þor og þolgæði.

Þá geturðu tekið undir áskorun Patsy Adams um þátttöku í ástarbyltingunni líkt og, þegar hann hvatti áheyrendur sína í Þjóðleikhúsinu á dögunum.

Nú gengur þú héðan út á eftir í ljósi og kærleika, smellir með fingrum beggja handa og segir: „ Ég  er hetja! Ég er hetja! Ég er hetja!“

Góðar stundir!   Ég hlakka til samstarfs með ykkur.

Höfundur: Gunnar Raf Jónsson læknir. Netfang: gunnar.rafn.jonsson@ gmail.com

 



Flokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, ,