Svefnvandi Íslendinga

Nú er orðið ansi dimmt meiri hluta sólarhringsins og oft sést vel til tunglsins sem er að vissu leiti tákngerfingur svefns og rósemdar. Einnig drauma og dulúðar sem hugann nærir og gerir hann að því sem hann er. Svefninn er andstæða vökunnar, stress og álags og jafn nauðsynlegur sálinni og góð næring og hreyfing er líkamanum. Ekki síst til komast gegnum erfiðan dag. En svefnvandi þjóðarinnar er mikill og sem skýrir ef til vill margt.

Flestir einstaklingar þurfa 6-8 tíma svefn. Ónógur svefn til lengri tíma kemur niður á almennri heilsu og minnkar árvekni til náms og vinnu. Minnkar einnig mótstöðu okkar gegn smitsjúkdómum, stressi og álagi sem er því miður mikið í okkar þjóðfélagi. Of mikið andlegt álag í lífinu er einmitt líka það sem oftast veldur svefntruflunum (insomnia). Aldrei er svefninn samt meira virði en einmitt þá. En hvað er þá til ráða þegar við getum ekki sofið? Um þetta var meðal annars rætt í ágætri grein í Fréttablaðinu sl. vor og ég vil líka ræða nánar.

Vitað er að notkun svefnlyfja er alltof mikil í þjóðfélaginu. Notkun kvíða- og svefnlyfja er nærri tvöfalt meiri hér á landi en hún var t.d. í Danmörku fyrir ári síðan og notkunin eykst stöðugt ár frá ári á sama tíma og hún dregst saman á hinum Norðurlöndunum. Lyf sem þarf sjúkdómsgreiningu til að geta ávísað, þ.e. svefntruflanir og svefnleysi. Spurningar hljóta að vakna hvar vandinn liggur í þessari miklu lyfjanotkun.

Þessar niðurstöður má m.a. finna þegar bornar er saman upplýsingar um notkun lyfja eftir flokkum sem fjölda notenda per 1000 íbúa á ári annars vegar og hins vegar sem kostnaði  á sömu flokkum. Í magni talið eru æða- og hjartasjúkdómalyf  ásamt tauga- og geðlyfjum mest notuðu lyfin. Ef við hins vegar lítum á hversu margir fá lyfin eftir hinum ýmsu lyfjaflokkum eins og birtist í lyfjatíðindum Landlæknisembættisins, að þá eru það sýklalyfin sem flestir fá, eða tæplega annar hver maður á ári en tauga- og geðlyfin og þar með talin svefnlyfin eru síðan í öðru sæti og sem samsvarar að um þriðji hver Íslendingur fær á hverju ári.

Allt of auðvelt er síðan að ánetjast svefnlyfjum, sérstaklega þar sem þau virðast við fyrstu sýn vera svo heppileg lausn við algengum vanda. En í upphafi skyldi endinn skoða, eins og á við um allar skyndilausnir. Of gott aðgengi og hvatning að skyndilausnum eins og svefnlyfjum getur í vissum tilvikum skýrt vandann sem við nú stöndum frammi fyrir. Svefnlyf geta nefnilega að lokum orðið eins og hækja sem viðkomandi þorir ekki að sleppa þótt meiningin hafi verið að nota lyfið aðeins tímabundið. Stundum verður stressið við það eitt að ná ekki að sofna mesta vandamálið og því meira sem fólk hefur vanist að nota svefnlyf sem lausn.

Svefnlyf er því miður ekki eina skyndilausnin sem við ofnotum í heilbrigðiskerfinu. Lyfjakostnaður vegna tauga- og geðlyfja er hins vegar allmennt mjög hár á Íslandi miðað við Norðurlandaþjóðirnar og skipar hér 2. sætið, strax á eftir hjarta- og æðalyfjum. Hluti skýringarinnar er líklega ofnotkun og vert að benda á ágætis grein sem Steindór J. Erlingsson skrifaði í Tímarit félagsráðgjafa um þátt lyfjafyrirtækja í lyfjanotkun og hugsanlega hugmyndafræðilega kreppu innan geðlæknisfræðinnar. Að mörgu leiti einkenna skyndilausnir allt okkar þjóðfélag, hvert sem litið er enda eru vandamál sjúklingsins oft endurspeglun af vandamálum þjóðfélagsins.

Ástandið hefur síst skánað í seinni tíð og lyfjafyrirtæki hafa verið dugleg að markaðssetja lyf undir því yfirskyni að þau séu ekki ávanabindandi og hafi ekki áhrif á heilastarfsemina daginn eftir sem er hvortveggja fjarri sannleikanum. Stöðug notkun leiðir síðan til hærri skammta til að ná sömu áhrifum. Í neyð og við vissar aðstæður getur samt auðvitað verið gott að hafa aðgang að veikum svefntöflum, en oftast er þá bara nóg að vita af töflunum upp í lyfjaskáp eða í apótekinu.

En ræðum aðeins meira um svefninn og hvað hægt er að gera til að bæta hann. Svefnheilsuna almennt og svefnaðstæður/umhverfi (sleep hygiene).

Svefnherbergið á fyrst og fremst að vera griðstaður fyrir svefninn en ekki sjónvarpsgláp. Mikilvægt er að reyna að hafa ekki óþarfa rafmagnstæki í gangi. Gott loft og ekki of heitt. Best er síðan að halda sem mest reglu á svefntímanum og vakna alltaf á svipuðum tíma á morgnana, líka um helgar. Margir eru viðkvæmir fyrir kaffidrykkju á kvöldin og öðrum drykkjum sem innihalda coffein. Mikið hungur truflar svefninn en maður á ekki að borða rétt áður en maður fer að sofa og alls ekki á nóttunni. Bókin er oftast besta leiðin til að láta hugann reika frá amstri dagsins og áhyggjum.

Ef þú sofnar ekki nógu fljótt og ert farinn að bylta þér mikið getur verið betra að fara framúr og hreyfa sig aðeins. Setjast síðan jafnvel niður í stól, lesa eitthvað, fá sér vatnssopa og leggja sig síðan aftur. Láttu ekki vekjaraklukkuna stressa þig og líttu helst ekki á hana ef þú vankar á miðri nóttu eða snúðu henni frá þér þegar þú ferð að sofa á kvöldin. Svefninn kemur yfirleitt ef maður er í svefnskuld við sjálfan sig. Það er líka mikilvægt að fara á fætur á venjulegum tíma þótt maður hafi átt andvökunótt. Þú tryggir þá væntanlega betri svefn næstu nótt á eftir.

Góð hreyfing og líkamsrækt á daginn hjálpar til með svefn og góðir göngutúrar seinni partinn eða á kvöldin eru oft afslappandi fyrir hugann. Góð rúmdýna er auðvitað nauðsynleg. Rétt er að muna að sum lyf geta valdið svefntruflunum sem rétt er að ræða um við læknirinn sinn. Sérstaklega skal forðast að nota áfengi sem svefnmeðal enda styttir áfengi oft verulega svefntímann að nóttu og gerir hann slitróttan auk þess að geta valdið annarri vanlíðan svo sem hröðum eða óreglulegum hjartslætti. Tóbaksfíkn truflar alltaf svefn.

Sl. vetur var rætt um á á Alþingi enn einu sinni þann möguleikann á því að seinka klukkunni um eina klukkustund. Guðmundur Steingrímsson og 13 aðrir þingmenn flutt þingsályktunartillögu þar um. Með því móti verður klukkan réttari miðað við miðdegishásólstöðuna. Aðalatriðið er að birtan helst í takt við klukkuna og bjartara verður þá á morgnana sem munar miklu fyrir lífsklukkuna okkar, ekki síst hjá unga fólkinu sem þarf þá mest á sinni árvekna að halda. Sumir hafa bent á að svefnklukka unglinga sé þegar 2 klukkustunum of fljót (seinkuð dægursveifla) miðað við svefnklukku okkar fullorðnu og þegar sú skekkja bætist við skekkju á klukkunni sjálfri að þá nálgast svefnklukka unglinga hér á landi að vera nær 3-4 tímum of fljót miðað við sólargang. Skekkjan samsvarar því að við fullorðnu þyrftum alltaf að vakna um klukkan fjögur á nóttunni.

Ekki má heldur gleyma einum algengasta sjúkdómi nútímamannsins, vefjagigtinni (fibromylagia), þeim fjanda sem tengist nútíma lifnaðarháttum sterkari böndum en flestir aðrir og koma mikið niður á svefni. Þar sem ekki er vitað um orsök eða afleiðingu og spurning jafnvel að sjúkdómurinn eigi fyrst og fremst rætur að rekja til svefntruflananna sjálfra og andlegs álags.

Leita skal ráðgjafar hjá lækni ef hrotur eru vandamál eða grunur vaknar um kæfisvefn (sleep apnea syndrome). Þar er um að ræða heilsuskaðlegt ástand sem hefur áhrif á flest líffærakerfi. Dægursyfja á daginn, minnkað vinnuþrek og viðkomandi getur verið hættulegur í umferðinni. Boðið er upp á svefnrannsóknir á Lungnadeild LSH með tilvísun frá heimilislækni ef grunur vakar um þetta ástand.

Erlendis er víða í vaxandi mæli er boðið upp á sálfræðiaðstoð og viðtöl hjá læknum til að takast á við svefntruflanir og til að fá ráðgjöf. Hér á landi hefur Kvíðmeðferðarstöðin boðið upp á námsskeið í hugrænni atferlismeðferð til að takast á við svefntruflanir, oft með góðum árangri.

Svefninn er okkur öllum afskaplega mikilvægur, ekki síst þegar veikindi steðja að og álagið er hvað mest í lífinu. Truflun á svefni er mikilvægt að ræða um við lækninn sinn, sálfræðing eða hjúkrunarfræðing eins og aðra kvilla og sem oft má leysa með miklu betri leiðum en svefnlyfjum. Lyf sem samt sífellt fleiri og jafnvel yngra fólk er farið að nota í dag. Stjórnsýsla heilbrigðismála þarf hins vegar að halda vöku sinni og tryggja þeim þjónustu sem henni er ætlað samkvæmt lögum, ekki síst heilsugæslunni í henni Reykjavík, að degi sem á nóttu.

Höfundur: Vilhjálmur Ari Arason, læknir.

Greinin var áður birt 07.11 2011 á  eyjan.is



Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , ,