Gömul húsráð

Liðagigt
Helsta húsráð við gikt var að skafa börk af víði. Saxa hann smátt og láta liggja í vatni ekki skemur en þrjá daga. Drekka svo seyðið. Flestir tóku af þessu þrjá spæni á dag. Eins var til að víðibörkur var saxaður, soðinn í vatni og seyddur lengi. Ekki er vitað hvaða víðitegund var notuð.

Skúm
Til að stöðva blóðrás var stundum notaður köngulóarvefur (húsaskúm) og þótti öflugt meðal og líka græðandi.

Úfur
Sumt eldra fólk trúði því að úfurinn gæti kæft mann. En öruggt ráð gegn því var talið að bleyta skaft á teskeið í vatni og dýfa svo í steyttan pipar. Svo var þrýst á úfinn með skeiðarskaftinu.

Vorslen
Vorslen var oft læknað með skarfakáli. En þeir sem ekki gátu náð í það notuðu í þess stað blöð af ætifífli (Taraxcum vulgare), túnsúru (Rumex acetosa) eða Ólafssúru (Oxýria digyna). Einnig blöð af ljónslappa (Alchemilla alpina) og njóla. Úr bókinni sagnir og sögur eftir Björn J. Blöndal.

Dýjamosi
Stundum þegar gert var að sárum var dýjamosi lagður að þeim og þótti afbragð. Sagt var að ekki græfi þá í sárum og þau gréru fljótt og vel. Ekki mátti taka mosann nálægt bústöðum manna.

Hlustarverkur
Til að lækna hlustaverk var tekinn svolítill ullarhnoðri og honum dyfið í volgt lýsi og látið inn í hlustina. Þetta þótti gott lyf. Ennþá betra þótti þó bómullarhnoðri vættur í volgri laxerolíu. Endursagt úr bókinni sagnir og sögur eftir Björn J. Blöndal



Flokkar:Annað, Ýmislegt, Jurtir