Þörfin á að hreyfa sig og hjúfra

Barnið okkar velur sér ómeðvitað leiðir til að dafna og þroskast, það sækir stöðugt á brattann og þreifar fyrir sér til að ná áttum og geta lifað í samhljómi við líðandi stund. Við, foreldrarnir, stöndum á hliðarlínunni sem sannir aðdáendur og hlaupum stundum sjálf inn á völlinn og tökum þátt í ærslum þeirra, amstri og leik. Lífið væri lítils vert án þessara stunda á hliðarlínunni eða á bekknum og leikurinn ekki sá sami, ef ekki væru dyggir stuðningsmenn til staðar. Þegar upp er staðið og litið er um öxl er sú aðstoð, sem við getum veitt með hvatningu okkar og þátttöku, ef til vill þyngsta vogin á vogarskálinni, sá herslumunur, er skal til fyrir að komast upp síðasta brattann og geta notið lífsins við hlið hinna.

Forsaga

Það er víða pottur brotinn, og ástæðurnar fyrir örðugleikum einstaklingsins eru yfirleitt margþættar og flóknar. Í flestum tilvikum er þó hægt að breyta og bæta, ef vel er haldið á spöðunum. Einn afgerandi undirstöðuþátt andlegrar og líkamlegrar vellíðunar leyfi ég mér að nefna skynreiðu, og sé um hreint skynreiðubarn að ræða, er hægt að hjálpa barninu verulega á skrið og bæta í það skarð, sem hefur myndast. Ég varð fyrir því mikla láni fyrir fimmtán árum síðan, að fá fast starf sem sjúkraþjálfari í færeyska skólakerfinu.

Ég bjóst fyrst og fremst við, að skjólstæðingar mínir yrðu hreyfifötluð börn, börn með alvarlega en afmarkaða og skilgreinda fötlun. Þetta varð að huta til raunin, en engu að síður smálengdist biðlisti þeirra barna, er ekki voru með neina greiningu og alls ekki sjáanlega fötlun. Þessi börn hafa lítið sjálfsálit, eru viðkvæm og eiga erfitt með einbeitingu. Að öðru leyti ósköp venjuleg börn, greind og vel að sér, en eiga erfitt uppdráttar bæði í leik og starfi. Gegnum þessi börn – börnin okkar – kynntist ég hugtakinu skynreiðu, sem síðan hefur átt hug minn allan.

Skynreiða
Flest okkar getum við skynjað með öllum líkamanum og skilið fjölbreytt áreiti sem stóra heild. Við skynjum umhverfið og okkur sjálf, liðamótin, vöðvana, kraftinn og spennuna, finnum fyrir fötunum, heyrum vindinn suða og ljósgeislana leika á rúðum, skiljum þetta allt saman sem andartak og eina mynd, en getum jafnframt síað obbann af skilaboðunum frá og einbeitt okkur að því, sem er megininnihald augnabliksins. Þessi síun og úrvinnsla gerir okkur kleift að svara umhverfinu á tilhlýðilegan hátt, og þetta er í raun og veru kjarni sjálfrar skynreiðunnar. Okkur tekst nefnilega yfirleitt að einbeita okkur, þótt sokkarnar sígi aðeins niður fótleggina, bóla kitli okkur í hársverðinum eða nærbuxurnar þrengi að. Skynreiðubarnið er hins vegar upptekið af þessu öllu saman í einu, og augnablikið líður hjá í eins konar óreiðu – hugurinn fer í allar áttir. Þetta barn á fyrst og fremst erfitt með að sía léttvæg skilaboð frá þeim mikilvægu, og þrátt fyrir góða hæfileika ganga verkefnin því hægt og stirðlega, og félagsleg samskip til- og samvera eru erfið.

Ástæðurnar fyrir því, að skynreiðuörðugleikar skjóta upp kollinum, eru yfirleitt einfaldar og skýrar, en rista engu að síður djúpt. Það þarf að skyggnast undir yfirborðið og leita aftur í tímann til meðgöngu og frumbernsku. Yfirleitt hafa þessi börn haft of rólega fósturtilveru og lítið reynt á sig fyrstu mánuði ævinnar, og þar með hafa þyngdarboð og snertiboð borist þeim í allt of litlu magni. Þyngdarskynfærið sjálft er í innri hluta eyrans. Þaðan berast okkur skilaboð um það, hvernig við sem massi eða þyngd snúum, hvort við breytum um stöðu, og hvort við séum kyrr eða á hreyfingu miðað við umhverfið. Með þessu móti öðlumst við smátt og smátt ómeðvitaða tilfinningu fyrir átt, víddum, rúmi og tíma.

Eitt af sérkennum þyngdarskynsins er, að það tekur mjög snemma út þroska sinn og byrjar að eflast þegar á áttundu meðgönguviku. Annað sérkenni er það, að skilaboðin berast einungis til mænukylfunnar og ekki til stórheilans eins og önnur skynboð. Afleiðingin af þessu er sú, að við finnum ekki fyrir þyngdaráreiti og gerum okkur alls ekki grein fyrir, að við yfirleitt eigum þyngdarreynslu í fórum okkar. Í móðurlífi erum við á nær stanslausri ferð og flugi í takt við hreyfingar og andardrátt móðurinnar. Kornabarnið, sem náð hefur eðlilegum þyngdarþroska á þennan hátt, sækir ósjálfrátt í áframhaldandi áreiti og hefur bæði löngun og þor til að upplifa rúm og hraða með eigin þyngd.

Það vill helst, að því sé vaggað og biður okkur orðalaust um dans og hreyfingu í fangi okkar. Síðar meir sækir barnið sjálft í þessi áreiti, togar sig upp á við, dettur og dettur, snýr sér, veltir sér og skríður. Fyrsta árið er því endalaus leit að þyngdarupplifunum, skilaboðum um okkur sjálf á hreyfingu í umhverfinu. Þannig undirbúum við bæði rúm og tíma og þroskum jafnframt mikilvægan heilahluta, sem gerir okkur kleift að henda reiður á aragrúa annarra áreita. Um leið og þyngdarskynið þroskast, fær húðin áreiti. Legvatnið nuddar okkur, fast og ákveðið, meðan við sveiflumst í móðurkvið, og þannig öðlumst við snertitilfinningu og snertiímynd, sem við notum áfram til að rannsaka heiminn.

Við aðstoðum barnið á þessu sviði, sérlega fyrstu mánuðina, strjúkum því og klöppum, og það nýtur þess að hjúfra sig í fangi okkar. Barnið sjálft tekur síðar síaukið frumkvæði til snertingar og handfjötlunar og notar fyrsta ár ævinnar ekki einungis til að flytja sig aftur og fram, upp og niður, heldur sækir einnig í snertiáreiti, er handótt, skoðar og skoðar og stingur nær öllu í munninn til að rannsaka eðli hlutanna nákvæmlega. Þessi frumáreiti eru nauðsynleg í mjög miklu magni, því að annars náum við ekki jafnvægi milli annars vegar þess að geta „hugsað“ og greint með húðinni og hins vegar þess frumeðlisþáttar, er gerir það að verkum, að við bregðumst við áreiti með árás eða harkalegri vörn. Börn sem hafa fengið of lítið af snertiáreiti, verða því stygg og fælin og svara annaðhvort umhverfi sínu á harkalegan hátt eða draga sig inn í eigin skel og forðast félagsleg og líkamleg samskipti.

Hvers vegna ?
Skynreiðubörnin hafa flest haft of friðsæla fósturtilveru og fæðast reynslufátæk á þessum tveimur skynsviðum, snertiskynsviði og þyngdarskynsviði. Óeðlilega hæg meðganga getur átt sér margþættar orsakir, s.s. bakverki, hættu á fósturláti og þar afleiðandi rólegheit og rúmlegu, sjúkdóma, áhyggjur og þunglyndi. Þótt erfitt sé í flestum tilvikum að afla upplýsinga um meðgönguferil ættleiddra barna, er varla nokkur í vafa um, að meðganga móður, er síðar hefur skilið við barn sitt, hefur í flestum tilvikum verið erfið og þungbær. Þegar við erum döpur, hættum við að anda með eðlilegri dýpt, minnkum um venjulega þindaröndum og notum efri hluta brjóstkassans í staðinn.

Afleiðing þessa er sú, að þindin gengur ekki á sama hátt og áður sem strokkur upp og niður milli kviðarhols og brjósthols, og þar af leiðandi fer barnið á mis við sífelldar og taktfastar sveiflur, er annars hefðu borist því í talsverðu magni alla meðgönguna á enda. Í stað þess að hraða för sinni eftir fæðingu og reyna að endurvinna það, sem þessi börn fara á mis við í móðurlífi, fara þau sér hægt og eru í varnarstöðu gagnvart áframhaldandi áreiti. Þau eru ekki komin nógu langt á þroskabrautinni til að þola nýjan umheim og annars konar áreiti, eru þreytt og sljó, sofa mikið, vilja helst fá að liggja í friði eða sitja í ró og næði. Að auki eru þau snertifælin, taka hvorki nógu vel né afslappað við atlotum, þora ekki að mæta faðminum, höndunum, brjóstinu, baðvatninu, handklæðinu.

Yfirleitt eru þessi börn sérlega stillt og þæg allt fyrsta árið. Alger draumur, segir fullorðna fólkið. Þau þroskast stig fyrir stig og innan eðlilegra marka, því ekkert amar í raun og veru að heilabúi og líkama, en þau hlaupa yfir meginhluta reynslutímabilsins og láta eiga sig t.d. að velta sér, toga sig upp á við og að detta sí ofan í æ. Þegar þessi börn eru farin að ganga, breytast þau yfirleitt. Þau geta nú borið sig um, en skortir nákvæma tilfinningu fyrir umhverfi og rúmi, þannig að þau reka sig á, stefna sér í voða og eru yfirleitt of tillitslaus í öllum sínum tiltektum. Hreyfingarnar eru klunnalegar og harkalegar, og þau hafa þörf á meiri aðgæslu og aðstoð enn jafnaldrarnir.

Síðar meir er greinilegt, að félagsleg samskipti ganga ekki nógu ljúft og greiðlega. Barnið þolir illa hávaða, læti og snertingu, og leikurinn misheppnast vegna klunnalegs atburðar. Sum þessara barna verða ofvirk og ofsafengin, önnur loka að sér og kjósa sér fámenni og frið. Í báðum tilvikum er um börn að ræða, sem líður illa og einangrast frá kátum hópi leikfélaganna. Þegar skólaganga hefst, verður vandamálið enn augljósara. Skortur á rúmlægri tilfinningu hefur í för með sér, að erfitt er að greina á milli b og d eða 49 og 94, svo bæði lestur og stærðfræði vaxa þér í augum. Erfiðastir eru samt íþróttatímarnir, lætin, hamagangurinn, gjósturinn, hraðinn, takturinn, tíminn, rúmlægnin, snertingin. Örðugleikar barnsins eru einnig afar augljósir í frímínútunum, annað hvort vegna harkalegs atferlis og slagsmála eða- og það er algengara- að barnið fari inn í eigin skel og haldi sig utan hópsins.

Hvað er til bragðs að taka?

Sjálf skynreiðan er vítt hugtak og ég hef aðeins nefnt örfáa þætti hennar hér, en bendi þeim, sem áhuga hafa á efninu, á að lesa bókina, Að hreyfa sig og hjúfra, sem ég hef skrifað um reynslu mína og upplifanir með færeyska skjólstæðinga. Ásútgáfan á Akureyri gaf bókina út árið 2001 og reyni ég í bókinni að byggja upp skilning á barninu út frá venjulegum þroskaferli okkar allra, en fyrst og fremst leitast ég við að útskýra einkenni skynreiðubarna, og hvernig hægt sé að skoða þau nánar og haga æfingameðferðinni. Ég lít þannig á, að skynreiðumeðferð eigi að vera fjölfaglegt samstarf margra aðila: skólans, heimilisins, leikskólans, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og sálfræðinga. Ég reyni að lýsa einstökum meðferðartækjum og skoðunargögnum, en einnig, og ekki síður, hvernig íþróttakennsla í skólum geti og eigi að svara þörf þessara barna, sem búa jafnt á annesjum og í afdölum sem á höfuðborgarsvæðinu og eru mörg í tali, að minnsta kosti 2-3 börn í hverri bekkjardeild og leikskólastofu.

Þóra Þóroddsdóttir sjúkraþjálfari, Þórshöfn í Færeyjum, netfang: tornes@email.foFlokkar:Hreyfing

Skildu eftir svar

%d bloggers like this: