Hinn svali blær

Sahaja yoga og byltingin innan frá –
ómunatíð hafa menn leitað að sjálfum sér og kafað í eigin vitund eftir æðri tilgangi. Kveikjan að þessari leit er ósýnileg en áþreifanleg orka í líkama mannsins sem hefur borið ýmis nöfn, eins og: Kundalini, Prana, hugljómun, heilagur andi o.s.frv. Aðrir hafa einfaldlega talað um sjálfa lífsorkuna. Hvað sem þessu líður er víst að lengi vel þurftu þeir sem vildu kafa dýpra í eigin sálarkima að hafa töluvert fyrir því að finna andlegan meistara sem hjálpaði þeim að komast í hið guðlega ástand. Sumir einangruðu sig í hellum hæstu fjalla í þessum tilgangi og töldu sig einungis finna sjálfan sig þar. Þetta var þó aldrei talið með öllu hættulaust og enn í dag vara sumir gúrúar við því að leysa úr læðingi þennan lífskraft sem í manninum býr og hann hlýtur að eiga fullan rétt á að þekkja og virkja sem best hann mögulega getur. Í aldagömlum indverskum fræðum er talað um Kundalini í formi hinnar svölu orku. Lengi vel lágu þessi fræði í gleymsku og önnur rit og meistarar predikuðu að Kundalini risi sem elding um líkamann með hinum afdrifaríkustu afleiðingum: Annað hvort upplifðu menn hina mestu hugljómun, svo þeir þoldu vart við, ellegar urðu veikir, jafnvel slösuðust.

Sumir falsgúrúar tóku og taka enn offjár fyrir að leiða menn á villigötur í þessum efnum, aðrir hafa jafnvel gerst sekir um kynferðislega misnotkun í krafti Kundalini og kennt að beisla þá orku með kynlífsathöfnum. Slíkar aðfarir gegn sakleysinu voru hins vegar fyrst og fremst fallnar til að grafa undan fyrstu orkustöðinni, Mooladhara og eyðileggja grunninn að varanlegri Kundalinivakningu. Það var einmitt gegn þeim sem Shri Mataji Nirmala Devi ákvað að rísa upp þegar hún fann upp nýja aðferð til að vekja upp Kundalini, á grundvelli fræðanna um hina svölu orku. Þessi merka kona sem er fædd 21.mars, 1923 á Indlandi, var góðvinkona Mahatma Ghandis, hins merka friðasinna og barðist eins og hann fyrir sjálfstæði Indlands. Hún er talin í hópi heilögustu manna Indlands í dag og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf þín í þágu friðar og jafnvægis í heiminum. Hún hefur ferðast heimsálfanna á milli til að kenna og boða Sahaja yoga án þess að þiggja einustu borgun fyrir þá andlegu vakningu sem hún miðlar öðrum: Enda er hún ekkert annað en sjálfsögð vöggugjöf sem allir eiga rétt á og tilkall til eins og hún orðar það sjálf.

Frábrugðið mörgum öðrum tegundum yoga þarf hvorki að greiða peninga né setja sig í sérstakar stellingar til að ástunda Sahaja yoga. Orðið Sahaja þýðir það sem gerist sjálfkrafa, er sjálfsprottið og meðfætt. Yoga þýðir eining. Sahaja yoga býður upp á hagnýta leið til að vekja upp Kundalini, sjálfa lífsorkuna, en hjá flestu fólki er hún ekki nema að litlu leyti virk. Kundalini á sér aðsetur í spjaldbeininu. Það er eðli orkunnar að láta ekki á sér kræla að viti nema henni sé veitt verðskulduð athygli. Frjáls vilji og þráin eftir henni eru skilyrði þess að hægt sé að virkja hana. Þegar hún fær tilhlýðileg merki, rís hún upp úr dvala og hringsnýst upp hryggjarsúluna – alla leið upp um hvirfilinn, (sjöundu orkustöðina: Sahasrara). Á leiðinni smýgur hún jafnframt í öll líffæri líkamans og vinnur sérstaklega á þeim sem veik eru fyrir. Eftir því sem Kundalini fær meiri uppörvun verður hreinsunin meiri og líkaminn heilbrigðari. Með aukinni færni og næmi skynjar maður betur þessa ósýnilegu en áþreifanlegu orku og öðlast færni í að meðhöndla líkamann eins og hljóðfæri. Maður lærir að vinna með orkustöðvarnar og samsvarandi orkupunkta í fingrum og tám og í öllum líkamanum.

Með reglubundnum slökunaræfingum (10-20 mín á dag), sem miða að því að losa um spennu og stíflur í helstu orkustöðvum má koma í veg fyrir flesta sjúkdóma. Í kjölfarið skerpist jafnvægið á milli vinstri og hægri orkurása líkamans, annars vegar tilfinningahlið mannsins, hinni kvenlegu, sem lýtur að fortíðinni, tunglinu og hins vegar framkvæmdahlið hans, hinni karlmannlegu, sem lýtur að framtíðinni, sólinni. Sá sem lærir að veita þessari orku athygli lærir um leið að höndla núið. Sjálf Kundalini rís upp sem svalur blær, en þegar líkaminn er undir álagi, eða þegar orkustöðvar eru í ólagi, þarf hún að hafa meira fyrir því og snýst þá hraðar og gýs upp sem heit orka. Lófar og fingur segja manni hvernig manni líður, hvaða orkustöðvar og líffæri þarf að vinna með og hvað þarf að lagfæra. Og þar sem allt byggist á orku, getur maður verið sinn eigin meistari – laus undan klafa áhyggna og neikvæðra afla í umhverfinu. Með tímanum lærir maður að þekkja sinn innri mann, bæði hindranir og möguleika, köllun sína og tilgang í lífinu.

 Maður lærir að eiga góð samskipti við aðra og leyfa egóinu að sigla sinn sjó án endalausra viðbragða, þó nauðsynlegt sé að verja hjartans mál þegar svo ber undir. Kundalini vakningunni fylgir engin áhætta, engin skaðleg áhrif eða víti til varnaðar. Víst er að margir taka undir þá ósk Shri Mataji að öll heimsins trúarbrögð sameinist, rétt eins og blómin sem eiga öll uppruna sinn í sömu rótinni. Í veröld sem leitar sífellt nýrra lausna við heimsins böli bendir Shri Mataji Nirmala Devi okkur á, að friður í heiminum verði ekki tryggður fyrr en við höfum öðlast jafnvægi í okkar eigin sálarrótum. Við erum jú heimurinn. Byrjendanámskeið í Sahaja yoga eru á hverjum mánudegi kl. 20.00 í Jógasetrinu, Borgartúni 20 Öll námskeiðin eru ókeypis. Upplýsingar má síma: 659-3313 Sjá jafnframt nánar um Sahaja yoga á þessum heimasíðum: www.sahajayoga.org / www.sahajayogaisland.org.Flokkar:Hugur og sál

Skildu eftir svar

%d bloggers like this: