Hugleiðing um heilun og heilsu

Ég byrja á að segja aðeins frá hugmyndafræði heilunar og ræði síðan hvernig þessi hugmyndafræði getur nýst okkur í daglegu lífi. Það sem ég  segi er byggt á eigin reynslu af heilun, jógahugleiðslu og miðlun minni og annarra frá þeim sviðum tilverunnar sem eru handan við það sem oft er, að því er virðist ranglega, kallað dauði. Nú á síðustu áratugum hefur orkusvið mannsins verið rannsakað talsvert. Tækni sú sem við höfum yfir að ráða getur fest orkusvið okkar á mynd. Eins hafa þær manneskjur sem við köllum skyggnar getað  séð þetta orkusvið og lýst því. Gjarnan skynjum við þetta orkusvið sem liti eða bylgjur og hefur tekist að mæla kraftana í sviðinu með vísindalegum aðferðum. Því er tilvist þessa orkusviðs engum vafa undirorpin lengur og er ef til vill réttara að segja að líkami okkar sé einungis einn hluti þessa sviðs fremur en sviðið sé fylgifiskur líkamans.

En hver er tilgangurinn og hvað er í rauninni þarna á ferðinni? Því er ef til vill ekki auðsvarað enda ætla ég mér ekki þá dul að svara því til hlítar. Hins vegar er mér það ljóst að meira og minna allir hlutir hafa slíkt orkusvið og er það því nær algerlega órjúfanlegur hluti af tilveru okkar. Ég hef síðustu árin sótt námskeið og skóla í heilun og æft mig í henni samhliða því. Einnig hef ég stundað jógahugleiðslu og fleira. Ekki ætla ég mér að ég hafi endanlega leyst lífsgátuna með þessu en upplifun mín af andlegri leit minni er sú að við sjálf geymum þau svör sem við þurfum á að halda í lífinu þegar allt kemur til alls. Ég fjalla um heilsuna út frá hugmyndafræði þeirri sem hefur verið mér ofarlega í huga í allnokkur ár og það er hugmyndafræðin sem komið hefur til mín í heilun og ýmis konar miðlun. Segja má að efnislíkaminn sé einungis örlítill hluti birtingar þess sköpunarkrafts sem ég fjalla nánar um á eftir og í manninum býr.

Líkaminn er skapaður af þessum krafti og er nokkurs konar tæki sálarinnar til þess að upplifa sjálfa sig efnislega og áþreifanlega. Ég mun ekki skila hér til lesandans öðrum viðhorfum en þeim sem ég tel mig þurfa að segja frá og vill vera fulltrúi fyrir. Önnur viðhorf eiga sér aðra skýrendur og þeir munu færa þér þau ef þeir telja þess þörf. Heilun, hvað er það? Heilun er til af ýmsum toga, það er að segja virkjun kærleiksorku okkar og heimsins birtist á mismunandi hátt. Nefna má handayfirlagningu sem margir hafa kynnst, einnig er svokölluð fjarheilun þar sem kærleiksorkan er virkjuð til þess að vinna í orku fólks sem ekki er á sama stað og sá sem að heiluninni starfar. Heilun vinnur í orkusviði þess sem hana þiggur, hvort heldur sem er á líkama, huga eða í tilfinningum þess sem unnið er með. Hinn innsti kjarni hugmyndafræðinnar eða heimspekinnar á bak við heilun er að við finnum hver við raunverulega erum og hvert lífshlutverk okkar er. Þá er ég að meina innst í vitund okkar og veruleika, ekki einungis á yfirborðinu. Við erum öll komin frá einni uppsprettu, sköpunarkrafti þeim sem oft er nefndur Guð en einnig Almættið eða eitthvað enn annað og er nafnið í raun ekkert aðalatriði.

Þessi kraftur sköpunar sem býr í sérhverri manneskju, er aðeins misjafnlega greinilegur eða birtur eftir því hvers konar lífi við höfum lifað og hvers konar manneskjur við erum. Því er heimspeki heilunar ekki sammála Ýmsum trúarlegum útleggingum þar sem sagt er að Guð eða sköpunarkrafturinn búi ekki í manninum  sjálfum. Tenging við þennan kraft er í gegn um okkur sjálf og ef við byggjum ekki yfir neista af þessum krafti gætum við ekki fundið hann og skynjað í okkar eigin lífi. Við getum ekki upplifað þennan Guðlega sköpunarkraft nema samsvörun sé til við hann í okkar eigin tilveru, okkar eigin orkusviði og líkama. Birtingarmyndir þessa Guðlega krafts eru margvíslegar en við getum fundið okkur  nálgast hann ef við finnum í okkur vaxandi óskilyrtan kærleika gagnvart hverju sem er, vaxandi umburðarlyndi gagnvart öllu lífi og vaxandi mátt til þess að skapa í trú á þennan kraft það líf sem við viljum innst inni lifa. Það líf sem þessi sköpunarkraftur óhindraður skapar er ekki fullt af takmörkunum þeim sem óttinn við skort á einhverju sviði setur okkur í lífinu. Til þess að við getum fundið þennan kraft og kærleika í okkur verðum við að byrja hið innra með okkur sjálfum. Ef við getum ekki horft á okkur sjálf af umburðarlyndi og kærleika er borin von að við getum gert slíkt hið sama við aðra.

Ef við byrjum ekki á okkur sjálfum verður áfram til staðar togstreita hjá okkur sem veldur ójafnvægi og jafnvel sjúkdómum ef togstreitan varir lengi. Ef við búum yfir ótta við að okkur skorti, ást, peninga, mat eða eittvað annað erum við að virkja sköpunarkraftinn okkar til þess að skapa okkur veröld skorts og lítils kærleika. Það er vegna þess að ótti okkar notar orku okkar og þar sem orka huga okkar er, þar er sköpunin sem á sér stað á  hverjum tíma. Heilsa mannsins er að miklu eða jafnvel öllu leyti mótuð eða sköpuð af einstaklingnum sjálfum. Til eru mörg dæmi þess að fólk hefur læknast af sjúkdómum sem nútíma læknisfræði hefur talið „ólæknandi“. Eitt sinn heyrði ég í útvarpi talað við konu sem hafði læknast af krabbameini sem talið var mjög alvarlegt. Hún lýsti því hvernig hugarfar hennar hefði breyst við að heyra það að hún gæti jafnvel átt aðeins mjög skamman tíma eftir af þessari jarðvist. Hún fór að taka eftir litlu hlutunum í lífinu sem eru ekki sjálfgefnir eins og til dæmis því að hún mætti vera þakklát fyrir að geta þó ekki væri nema staðið við eldhúsvaskinn heima hjá sér  og þvegið upp. Þessi kraftur sem konan nýtti sér er ein birtingarmynd lítt eða ekkert hefts Guðlegs sköpunarkrafts og er vel þekktur í starfi þeirra sem vinna með orku. Lífsorku mannsins, hvort sem það er við heilun, blómadropameðferð, höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun eða ýmislegt fleira þar sem sótt er inn á við. Þar er svo dæmi sé tekið vel þekkt hve sterk þessi „orka þakklætisins“ getur verið ef manneskjan nær að finna hana flæða með sér, frá hjartanu, innsta kjarna sínum. Það er þarna í huga og tilfinningum okkar sem við finnum þessi tæki sem geta nýst okkur mjög vel við að byggja heilsu okkar upp.

Vitund mannsins má skipta í þrennt,undirvitund, dagvitund og yfirvitund
Yfirvitundin er tengd uppsprettunni sem við komum öll frá og þar vitum við hver vilji okkar er með þessu lífi sem við lifum núna en til þess að finna okkar innstu ósk eða lífsverkefni okkar þurfum við að opna upp í þessa vitund. Það er til dæmis hægt að gera með hugleiðslu eða jóga. Dagvitundin er það sem við erum meðvitað með hugann við dags daglega. Í undirvitundinni geymist gjarnan það sem hindrar okkur í því að koma því í verk sem við komum til jarðvistarinnar til að gera. Það getur verið að þar geymist orka sem staðnað hefur við áföll sem orðið hafa á lífsleiðinni. Við getum komið því svo fyrir að þessi orka verði okkur býsna fjarlæg vegna þess að áföllin voru svo erfið viðfangs þegar þau gerðust að við lokuðum þau inni svo rækilega að meðvitað erum við ekki nema mjög lauslega tengd við þessi áföll, ef nokkuð. Til þess að þessi orka haldi ekki áfram að naga okkur og skaða heilsufarið verðum við að opna áföllin og jafnvel horfast í augu við okkur sjálf þegar þau gerðust.

Við megum hins vegar ekki festast í því að vera alltaf að vinna í okkur því þá erum við ennþá að gefa þessum hlutum orku og leyfa þeim að hafa áhrif á okkur. Við verðum að geta sleppt þeim, það er að segja leyft þeim að hafa gerst en skipt um þá orku sem við tengjum við þá. Það getur reynst hægara sagt en gert en ef við byrjum og gefumst ekki upp fyrir hlutunum verður þetta smám saman léttara. Hver veit nema við höfum komið með það inn í lífið að horfast í augu við einmitt slíka hluti eins og þá sem við höfum verið að geyma með okkur, kannski í langan tíma. Efsti hluti myndarinnar er yfirvitundin, miðhlutinn er dagvitundin og neðsti hlutinn er undirvitundin. Lengst til vinstri er vitund manneskju sem er með vitundarhlutana skýrt afmarkaða og ef til vill lauslega tengda. Við brotnu lóðréttu línuna gerist eitthvað, viðkomandi manneskja ákveður að breyta einhverju í lífi sínu og fer að leita svara við því hver hún er og hvert er lífshlutverk hennar. Við það verður hún sífellt meðvitaðri um bæði yfir- og undirvitund sína og að lokum verður dagvitundin orðin meðvituð um alla hluti í bæði yfir- og undirvitundinni. Þá er manneskjan orðin fær um að skapa líf sitt meðvitað. Mörkin milli hluta meðvitundarinnar eyðast og hætta að vera greinileg eins og áður var.

 Til þess að heilun verði þarf sá sem hana þiggur að vera tilbúinn eða samþykkur heiluninni helst á öllum stigum vitundar sinnar, annars er hætt við að hún verði ekki eins árangursrík og hægt væri. Sá frjálsi vilji sem okkur er gefinn gerir það að verkum að ef við erum ekki samþykk heilun getum við haldið henni frá okkur. Við þurfum að gefa okkur sjálfum tækifæri til þess að blómstra, sýna okkur sjálfum kærleika, ekki á eigingjarnan hátt, heldur á hinn hljóðláta hátt sem hinn umburðarlyndi kærleikur sem kemur að innan getur einn gert. Þegar okkur tekst, þó ekki sé nema örfáar mínútur á dag í byrjun, að halda huganum einbeittum að því sem við viljum vera og gera í tengslum við þann mesta kærleika sem við búum yfir erum við á réttri leið. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þetta sé endilega auðvelt í byrjun en það verður léttara með tímanum og æfingunni. Við náum ekki árangri í neinu nema við leggjum einhvern hluta af okkur sjálfum í viðfangsefnið. Við megum bara ekki gleyma því að vera fyrst og síðast jákvæð gagnvart okkar innsta, hinum guðlega neista sem býr með okkur og hætta að dæma okkur og aðra. Þegar við stígum út úr dómunum um aðra og okkur sjálf finnum við fyrir frelsi þess sem þarf ekki á því að halda að ímynda sér að hann eða hún sé eitthvað betri eða verri manneskja en hinir, einungis muna eftir því hver maður er. Lykillinn er kærleikur og það að uppgötva sjálfan sig og síðan í framhaldinu skapa sig  eins og maður vill í sínum innsta kjarna vera. Ég geri mér grein fyrir því að þessi grein getur ekki ein og sér gefið glögga mynd af því sem felst í þeirri hugmyndafræði sem býr á bak við heilun í víðasta skilningi. Hins vegar hefur það sýnt sig að  þeir sem eru tilbúnir að gefa breytingum rými í lífi sínu hafa gert kraftaverk á sjálfum sér með því að breyta um hugsunarhátt. Með því að nýta þann hluta sköpunarkraftsins sem tengdur er huganum er mestra breytinga að vænta á tilveru okkar. Við getum breytt um mataræði og lífsvenjur en ef við sleppum ekki um leið tökunum á því sem geymist í undirvitundinni og virkjum sköpunarkraftinn okkar á jákvæðan uppbyggjandi hátt getur verið að áhrif þess sem þar býr verði til þess að breytingarnar sem við gerum dugi ekki einar og sér til að bjarga heilsunni. Það er breyting hugsunarháttar á þennan veg sem getur virkilega breytt heilsu okkar sjálfra og mun ef og þegar hún gerist verða til þess að hlutir eins og hugmyndir heilla þjóða um heilsufar breytast. Það gerist hins vegar ekki nema einstaklingar þjóðfélagsins verði meðvitaðir um að breyta um hugsunarhátt. Það gerist ekki endilega með kollsteypum eða á einni nóttu en það mun seint gerast ef ekki er lagt af stað. Þessi leið kallar okkur hvert og eitt til ábyrgðar á eigin lífi. Það liggur fyrir að þessi ábyrgð er okkar og því meira sem við gerum okkur grein fyrir ábyrgðinni, því fyrr getum við farið að byggja upp og breyta líðan okkar. Ef við ekki tökum ábyrgð á lífi okkar og heilsu afhendum við öðrum beint eða óbeint þessa ábyrgð. Hafa  aðrir tíma til þess að koma með heilsu fyrir okkur á silfurfati þegar við þurfum á því að halda? Flestir eru mjög uppteknir þessi árin og hafa því sennilega ekki tíma til að koma með heilsuna til okkar fyrr en þeir eru hættir að vinna og komnir á eftirlaun. Er það þá ekki fullseint fyrir okkur mörg hver? Ef til vill er það svo. Þess vegna er best að gefa sjálfum sér tækifæri til að skapa eigin heilsu með sínum eigin sköpunarkrafti. Frelsið sem felst í því að bera ábyrgð á þessu sjálfur birtist meðal annars á því sem ég lýsti áður. Við þurfum ekki að bíða eftir því að aðrir komi með það sem við þurfum.  Sköpum okkar eigin tilveru, eftirlátum það ekki öðrum nema vera sátt við það sem þeir skapa. Hefur þú hugleitt hver þú ert og hvert er þitt innsta markmið í lífinu? Viltu takast á hendur það verk að komast að því hafirðu ekki þegar gert það? Það er hins vegar víst að leggir þú af stað í þess háttar ferð munir þú heilsa því sem þú óttast mest í lífinu og líst þér á þá ögrun? Er það ekki ögrun lífs þíns hvort eð er? Þú munt ekki hitta fyrir dýpstu gleði þína eða verða vitni að þinni mestu dýrð ef þú horfist ekki heldur í augu við þinn stærsta ótta í lífinu eða gerir þér grein fyrir því hvernig þér hefur liðið verst. Aðeins með því að horfa á þig af umburðarlyndi þess sem ekkert og engan dæmir munt þú upplifa ótrúlegustu hluti að huga þinn gæti vart órað fyrir. Megir þú skapa þína framtíð með þínum eigin krafti. Höfundur er búfræðikandidat og og hefur numið heilun í sambandi við Healer practitioner Associatrion International.Flokkar:Hugur og sál

Skildu eftir svar

%d bloggers like this: