Heilsuhringurinn 25 ára Stofnaður í ágúst 1978

Þegar við hverfum aftur til þessa tíma þegar Heilsuhringurinn var stofnaður koma margar myndir upp í hugann. Ég sé fyrir mér allar heimsóknirnar til brautryðjandans Marteins M. Skaftfells heitins. Hann var einn þessara kröftugu baráttumanna sem var eins og sniðinn fyrir hlutverk brautryðjandans, að leiða starfið hin fyrstu spor. Upphaf þess framtaks lá í því að innflutningur á heilsubótarefnum var mjög miklum erfiðleikum háður. Fjöldi bætiefna sem voru frjáls í nágrannalöndum okkar fengu ekki náð hjá lyfjaeftirlitinu. Var ekki annað að sjá en að eftirlitið væri í fullu starfi hjá apótekurum landsins við að halda niðri öllum þeim innflutningi sem hugsanlega gæti minnkað hefðbundin lyfjakaup. Einnig blundaði sú þrá hjá Marteini að miðla fróðleik um hvaðeina sem að gagni mætti koma varðandi hollefni og heilsurækt og þaðan er nafn ritsins komið. Áður en Marteinn M. Skaftfells gerðist innflytjandi hollefna var hann kennari. Frá þessum árum átti hann marga vini. Meðal þeirra var Helgi heitinn Tryggvason yfirkennari, en hann lagði mikinn skerf til upphafsára Heilsuhringsins. 1. tölublað 1. árgangs kom út í ágúst 1978 og þá voru eftirtaldir í stjórn: Marteinn M. Skaftfells formaður, Elsa Vilmundardóttir, Helgi Tryggvason, Kristinn Sigurjónsson og Loftur Guðmundsson. Þeir sem koma nálægt félagsmálum vita að fyrstu skrefin eru þau erfiðustu. Samt gerist ekkert án allra sjálfboðaliðanna sem á eftir koma og halda uppi þeim hugsjónum sem starfið er byggt á. Í gegnum tíðina hefur úrvals fólk gefið starfinu krafta sína og gert Heilsuhringinn og rit hans að virtum vettvangi fyrir óhefðbundnar lækningar. Þegar ég fór að starfa í þessum félagsskap var í gangi tilraun yfirvalda til að koma á flúorblöndun drykkjarvatns. Gegn þessari vá vann Heilsuhringurinn af öllu sínu afli og vegna þeirrar mótspyrnu lagðist hugmyndin af og nú er eingöngu talað um flúormeðferð sem beinist að hverjum einstaklingi fyrir sig, en blöndun í vatn er algjörlega út úr umræðunni, sem betur fer. Þrátt fyrir að margt góðra manna og kvenna hafi lagt starfinu mikið og gott lið er ekki hjá því komist að nefna sérstaklega þátt Ævars Jóhannessonar, sem með greinarskrifum sínum hefur haldið blaðinu á háu plani áratugum saman. Í upphafi var tímaritið Hollefni og heilsurækt prentað í svart/hvítu og var þéttskrifað völdu efni. Mikil útlitsleg umskipti urðu þegar farið var að prenta kápuna í lit en það hófst árið 1986 með gjörbreyttri forsíðu. Um leið var notað tækifærið til að bæta nafni Heilsuhringsins á forsíðuna. Það nafn er mjög lýsandi fyrir hugsjónir félagsins. Tekur utan um heildarhyggju og vinnur með allt það sem lýtur að heilsu og getur verið til uppbyggingar og betri líðanar. Árið 1991 bar blaðið eingöngu nafnið Heilsuhringurinn en Hollefni og heilsurækt féll úr notkun. Á þeim tímamótum getum við sagt að blaðið sé komið með útlit og nafn við hæfi fyrir framtíðina og vonandi verður efnið áfram frjótt og vekjandi fyrir þjóðfélagið.

Að bæta heilsuna er að bæta heiminn
Það liggur mikil heimspeki á bak við sjúkdóma mannkynsins. Hvernig verða þeir til ? Eru þeir eingöngu afleiðing af röngu atferli í þessu lífi eða eiga þeir jafnvel einnig orsök sína að leita enn lengra aftur í tímann? Þessum spurningum hef ég velt mikið fyrir mér í gegnum langt líf og svörin sem ég vil setja fram nú á 68. aldursári eru einhvern veginn svona:

Sjúkdómar eru áhrifamikil tæki til að þroska manninn
Þeir kenna okkur auðmýkt sem við erum mjög þurfandi fyrir. Þeir kenna okkur þolgæði sem okkur er nauðsynlegt að þroska. Þeir krefja okkur um að taka afstöðu til grundvallargilda. Þeir kenna okkur að líta á lífið með heildrænum hætti í stað þess að brjóta allt niður í minnstu einingar og smáatriði og jafnvel týna okkur þar.

Sjúkdómar eiga orsök sína meðal annars út fyrir þetta líf
Lífið er sífelld hringrás og andinn er eilífur. Við fæðumst og deyjum. Hvert lífsskeið er mjög knappt, aðeins fáeinir áratugir. Á þessum stutta tíma getum við ósköp lítlu áorkað. Við gerum ótal villur og þurfum að greiða þær réttu verði. Gerum við það ekki í þessu lífi þá flytjum við syndirnar með okkur til hins næsta og þær birtast þar sem sjúkdómar af öllum gerðum.

Sjúkdómar verða einnig til vegna rangrar breytni
Stefnur og skoðanir eru jafn margar eins og mennirnir. Oftast er einstaklingurinn ánægður með sínar matarvenjur og aðra breytni, að svo miklu leyti sem hann brýtur slíkt til mergjar. Þó svo að hver einasta athöfn sé vegin og metin, er ólíkt hvaða áhrif hún hefur á hvern og einn, svo mismunandi eru forsendurnar, hugarfarið og líkamsbyggingin. Það sem einn lítur á sem synd sér annar sem eðlilega breytni og sálarlífið hefur því mismunandi áhrif á heilbrigði þessara einstaklinga. Vitundarstigið ræður miklu um framvinduna enda er ljóst að sálarlífið leikur mjög veigamikið hlutverk í viðhaldi líkamans.

Aðrar hugleiðingar um sjúkdóma.
Hvernig stendur á því að skynlausar skepnurnar geta haldið heilsu en maðurinn með alla sína þekkingu lendir í blindgötu ? Af hverju eru mennirnir að draga upp línurit yfir efnasamsetningar og velta fyrir sér gnægð eða vöntun á öllum mögulegum vítamínum, steinefnum og snefilefnum út í það óendanlega? Þarf hver maður að vera háskólagenginn í næringarfræði til að geta lifað ? Af hverju lítum við ekki í kringum okkur og skoðum náttúruna og meðbræður úr dýraríkinu? Af hverju eru sterkbyggð dýr sem borða eingöngu gras, með fullkomna líkamsbyggingu og heilsu? Í hverju er leyndardómurinn fólginn að þessi einfalda fæða nægir til að byggja upp flókinn líkama og viðhalda honum ? Erum við að gera rétt þegar við sjóðum og steikjum fæðuna? Hvað verður um lífið sem hríslast um fæðuna? Hvað þolir viðkvæmt grænmetið að ganga í gegnum svo það haldi öllu sínu ? Það er til fólk sem segir að við séum að villast á veginum og þurfum að snúa okkur til einfaldleika, nægjusemi, glaðlyndi og góðvildar. Með því hugarfari er starfsemi líkamans sett í heilbrigða umgjörð. Í dag snúast vangaveltur mínar um hið heildræna ferli sem ekki má ganga gegn ef við viljum fylgja lífsstraumnum sjálfum. Heilsuhringurinn á að baki merkt starf og mun vonandi verða áfram góður vettvangur fyrir fólk sem vill bæta heilsuna og byggja upp betri líðan á allan hátt. Ósk mín á þessum tímamótum er að hugsjónir Heilsuhringsins nái fram að ganga eins og þær birtast í hverju blaði: „Stefna félagsins er að vinna með náttúrunni gegn sjúkdómum og efla heilbrigði landsmanna.“ Megi þessi ósk verða leiðarljós félagsins á komandi árum og með þeirri ósk árna ég félaginu og því góða fólki sem ber starfið uppi allra heilla.



Flokkar:Greinar og viðtöl