Úr einu í annað – Haust 2002

Hér birtast 3 stuttar greinar fyrirsagnir þeirra eru:

  • Kalk og magnesíum í fæðu og nýrnasteinar.
  • Bætiefni hindra taugaskaða hjá geðsjúkum (Tardive Dyskinesia) og bæta árangur geðlyfja. 
  • Geta sveiflur eða titringur af ákveðinni tíðni læknað?

Kalk og magnesíum í fæðu og nýrnasteinar
Stundum hefur fólki sem fengið hefur nýrnasteina mörgum sinnum og er með mikið kalk í þvaginu verið ráðlagt að nota fæðu með litlu kalki. Könnun sem sagt var frá í New England Journal of Medicine 2002;346:77-84 bendir þó til að þetta sé ekki góð hugmynd. Bornir voru saman tveir hópar. Annar  hópurinn fékk fæði með ,,normal“ kalkinnihaldi, eða um 1200mg á dag en litlu af dýrapróteini og salti. Hinn hópurinn fékk aðeins 400mg af kalki á dag, en að öðru leyti var fæðið það sama hjá báðum hópunum. Valið var tilviljunarkennt í hópana. Eftir 5 ár höfðu 20% þeirra sem notuðu meira af kalkinu aftur fengið nýrnasteinana en 39,4% þeirra sem minna fengu af kalkinu, eða hátt í tvöfalt fleiri. Hjá þeim sem meira notuð af kalki minnkaði oxalsýra í þvagi um 7,2mg á dag en hjá þeim sem minna kalk fengu jókst oxalsýran um 5,4mg á dag. Kalkið virðist því beinlínis hafa minnkað oxalsýruna, og því dregið úr líkum á nýrnasteinum úr oxalsýru. Þetta minnir mig á grein sem ég las fyrir nálægt 20 árum um nýrnasteina.

Greinin sem var í tímaritinu ,,Prevention magazine“, sagði m.a. frá tilraun sem gerð var á músum, að mig minnir.  Stór hópur músa var alinn á fóðri sem í var bætt miklu af oxalsýru. Helmingur músanna fékk auk þess magnesíum í fóðrinu. Að vissum tíma liðnum voru allar mýsnar aflífaðar og nýru þeirra og þvagfæri skoðuð. Þær mýs sem ekki fengu magnesíum voru flestar komnar með nýrnasteina en allar mýsnar í þeim hópi sem fékk magnesíum voru lausar við steina í þvagfærunum. Skoðun höfundar þeirrar greinar var að nýrnasteinar myndist fyrst og fremst vegna skorts á magnesíum, því að oxalsýra myndi ekki steina, sé nægilegt magnesíum til staðar í þvaginu. Þá myndast magnesíum oxalat, sem helst uppleyst í þvaginu. Annars myndar oxalsýran kalsíum oxalat sem getur orðið nægilega mikið til að það fari að falla út og mynda steina. Það gerist þó miklu síður ef drukkið er mikið vatn.

Sé skortur á bæði kalki og magnesíum til að binda oxalsýruna, eins og sennilega hefur verið í dæminu hér á undan, fara sennilega að falla út kristallar úr óbundinni oxalsýru, en það má trúlega koma í veg fyrir með því að nota meira kalk eða magnesíum. Best er vitanlega að hafa nóg af báðum efnunum en þá myndast tæplega neinir nýrnasteinar, sem innihalda oxalsýru eða oxalsýrusölt. Lærdómurinn sem af þessu má draga er að fólk sem fengið hefur nýrnasteina á að drekka meira vatn og umfram allt að nota meira af magnesíum, annað hvort úr fæðunni eða nota það sem fæðubótarefni. Heimildanna að áðurnefndum fróðleik er getið í greininni og auk þess er grein um þetta efni í Townsend Letter for Doctors and Patients, maí 2002.
Æ.J.

Bætiefni hindra taugaskaða hjá geðsjúkum (Tardive Dyskinesia) og bæta árangur geðlyfja
Í tímaritinu American Journal of Psychiatry 2001;158(9):1511-4 og nokkrum öðrum greinum er sagt frá því að pyridoxin (B6-vítamín) (og reyndar fleiri bætiefni) hafi reynst vel til að hindra og/eða bæta sjúkdóm sem nefndur er „tardive dyskinesia“, sem ég hef ekkert nafn á íslensku yfir. Þessi sjúkdómur hrjáir einkum fólk sem lengi hefur notað geðlyf við geðklofa og er oft talinn vera hliðarverkun geðlyfjanna. Greinin í American Journal of Psychiatry segir frá könnun, sem gerð var á 15 geðklofasjúklingum og var tvíblind víxlprófun. Sjúklingarnir fengu annaðhvort óvirkt gervilyf (placebo) eða B6-vítamín, 100mg á dag fyrstu vikuna, 200mg aðra, 300mg þriðju og 400mg á dag þá fjórðu og síðan 400mg á dag eftir það. Þessi sjúkdómur lýsir sér sem ýmiskonar ósjálfráð taugaviðbrögð og hreyfingar, t.d. grettur, munnhreyfingar, útlimahreyfingar, höfuðhreyfingar og hreyfingar á tungunni svo að eitthvað sé nefnt.

Niðurstaðan var sú að flest þessi einkenni löguðust eitthvað eða töluvert eftir að farið var að nota vítamínið. Batinn fór a koma í ljós á þriðju vikunni og hélt áfram næstu vikurnar. Engra hliðarverkana varð vart af því að nota vítamínið. Rétt er að geta þess að fyrst var skrifað um að nota B6-vítamín í þessum tilgangi fyrir meira en tveimur áratugum, árið 1978 í Journal og Clinical Psychiatry. Hvers vegna svo langur tími leið áður en aftur var farið að prófa vítamínmeðferðina er erfitt að segja, nema um sé að ræða þá tregðu sem oft verður vart, að nota bætiefni eða önnur næringarefni til að lækna eða bæta einhvern sjúkdóm, en nota frekar einhver tilbúin efnasambönd, sem oft eru líkamanum framandi og við höfum raunar enga hugmynd um hvaða langtímaverkanir hafa. Læknisfræðin hefur fá ráð við þessum sjúkdómi og því er mjög gleðilegt ef hægt er að hjálpa fólki sem þjáist af honum á svona einfaldan hátt.

Fleiri bætiefni en B6-vítamín hafa reynst gagnleg við „tardive dyskinesia“. R.A. Kunin sýndi góðan árangur af að nota B3 (níasín eða nikótínamíð) og steinefnið mangan. D.R. Hawkins hefur sagt frá að hann hafi gefið fleiri en 61 þúsund sjúklinga sinna B3-, C- og B6-vítamín (Journal of Orthomolecular Med. 1989) með fullkomnum árangri. Fleiri bætiefni t.d. E-vítamín, lesitín, ómissandi fitusýrur (omega-3 og omega-6) og amínósýran tryptófan hafa einnig verið notuð. Það nýjasta sem heyrst hefur um þetta eru rannsóknir dr. David Horrobins, sem fyrir löngu er orðinn heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á ómissandi fitusýrum og tengsl þeirra við sjúkdóma og heilbrigði.

Nýjar rannsóknir hans benda til að ,,tardive dyskinesia“ sé ekki hliðarverkun af geðveikilyfjum, heldur hluti af sjúkdómnum sjálfum. Hann upptötvaði að fitusýra í lýsi EPA (eicosapentaensýra) gat lagað „tardive dyskinesia“ einkennin hjá langvarandi geðklofasjúklingum, sem tóku Closapine, án þess að það bæri árangur (Closapine er lyf sem notað er við geðveiki). Í þeim tilfellum löguðust 69% sjúklinganna sem fengu EPA en aðeins 9% þeirra sem aðeins fengu Closapine. Af því að álitið er að „tardive dyskinesia“ sé merki um eyðileggingu taugafruma (neuronal damage) gæti þetta leitt til allt að því byltingar í langtíma meðferð sjúklinga með geðklofa af þessari gerð. Helstu heimildir, auk þeirra heimilda sem getið er í greininni er grein í Townsend Letter for Doctors and Patients, apríl 2002 eftir dr.Walter Lemmo og ritstjórnarrabb eftir Greg Schilhab í Kanadíska tímaritinu Nutrition and Mental Health, sumar 2002. Æ.J.

Geta sveiflur eða titringur af ákveðinni tíðni læknað?
Vísindamenn við ,,Fauna Communications Research Institute“ í Norður-Karólínufylki í Bandaríkjunum hafa uppgötvað, að titringur sem myndast, þegar kettir og dýr af kattaætt mala, flýtir fyrir því að bein og önnur líffæri í þessum dýrum grói og þau fái heilsu á ný eftir slys eða veikindi. Þegar heimiliskettir mala myndast sveiflur með tíðni frá 27-44 sveiflur á sek. en villt dýr af kattaætt mynda 20-50 sveiflur á sek. þegar þau mala. Áhugavert er að sveiflur á þessu tíðnisviði flýta fyrir því að bein grói í fólki og beinin öðlist styrk, eins og nýlegar kannanir benda til. Þó að oftast sé litið svo á að malið í kettinum sé merki um vellíðan, hefur komið í ljós að kettir mala einnig, þó að þeir séu veikir eða meiddir. Því mætti hugsa sér að heilsubætandi sveiflurnar, sem myndast við malið sé ein ástæðan fyrir þjóðsögunni um að kettir hafi níu líf.

Í könnun sem sagt var frá í tímariti bandarísku dýralæknasamtakanna (The Journal of the American Veterinary Medical Association) segir frá að 90% af 132 köttum sem féllu fram af húsum að meðaltali niður fimm og hálfa hæð (ca. 15-17m), lifðu fallið af. Sá sem féll úr mestri hæð, sem var 45 hæðir (ca 135m) lifði samt fallið af. Hugmyndin um það að titringur eða þrýstingur hafi áhrif á heilbrigði beina er alls ekki ný af nálinni. Í grein í Science News í nóvember 1999 segir greinarhöfundur, Janet Raloff að rannsóknir frá árinu 1950 sýndu að bein hafa ,,piezo-electric“ eiginleika, þ.e. að við sveigju eða þrýsting mynda þau rafspennu eða rafstraum. Svo virðist að þessi rafstraumur sé ómisandi til að bein grói eðlilega og skorti þennan ómissandi þátt veikjast þau. Það gerist t.d. ef dvalið er lengi utan aðdráttarsviðs jarðarinnar, eins og Kenneth J. Mc.Load og Clint Rubin við Ríkisháskóla New York borgar við Stony Brook hafa bent á.

Bara það að ganga, hlaupa og halda jafnvæginu, veldur því að vöðvarnir reyna á sig og hreyfa beinin sem þá mynda örlítinn rafstraum. Rannsóknarmenn hafa í áratugi verið að prófa og nota rafstraum og segulsvið til að lækna brotin bein og lagfæra beingisnun og bandaríska matvæla og lyfjaeftirlitið (FDA), hefur samþykkt tæki sem myndar rafsegulsvið til að hjálpa beinum, sem ekki vilja gróa, til að gróa eðlilega. Í grein sinni segir Janet Raloff frá mismunandi lækningaaðferðum við að nota rafsegulsvið til að fást við, bæði liðagigt og beingisnun. Læknarnir Roy Aaron og Deborah Ciombor við Brown Læknaháskólann (Providence, Rhode Island) notuðu púlseraða rafsegulsviðsmeðferð frá vír sem undinn var þannig, að vöfin mynduðu hólk utan um sjúka svæðið.

Þessi aðferð var notuð við naggrísi. Þegar dýrin voru 18 mánaða virtust þau flest vera einkennalítil og sum verkjalaus. Öll dýr sem ekki fengu rafsegulsviðs-meðferðina til samanburðar, voru afmynduð af liðagigt. Aaron og félagar fundu það út, að samskonar meðferð notuð við fólk, dró úr bólgum og verkjum, sennilega vegna náttúrulegra bólgu- og kvalastillandi efna sem mynduðust í líkamanum. Kenneth McLoad, áðurnefndur, ásamt fleirum smíðuðu nokkurskonar ,,víbrator“ sem einna helst líkist „baðvog sem staðið er á og er með handföngum til að halda í“. Forkönnun sem stóð í eitt ár og 50 konur tóku þátt í með því að standa á tækinu í 10 mín. kvölds og morgna, bendir til að með tækinu megi seinka beingisnun hjá eldri konum. Tilraunir á sauðfé benda til, að með því að þrefalda sveifluhraðann upp í 90 sveiflur á sek. sé raunverulega hægt að hjálpa beinum að gróa. Kannski hafa fótanuddtækin, sællar minningar, sem allir þurftu að eignast í þá daga, ekki verið svo vitlaus hugmynd.

Heimild: Townsend Letter for Doctors and Patients, maí 2002
Höfundur Ævar Jóhannesson árið 2002.



Flokkar:Úr einu í annað, Skrif Ævars Jóhannessonar