Meðhöndlun með ilmkjarnaolíum ,,Aromatherapy“

Jurtir hafa verið meðvitað notaðar af mönnum í gegnum aldirnar til að auka vellíðan og eru elstu heimildir þar að lútandi um 4000 ára gamlar og komnar frá Súmerum. Þekkingin hefur síðan borist áfram kynslóða á milli til okkar daga. Orðið „aromatherapy“ var aftur á móti fyrst notað 1928 í vísindalegri ritgerð franska efnafræðingsins Réne Maurice Gattefosse sem er talinn faðir nútíma ilmolíumeðferðar. Hann gaf síðan út bók með sama nafni 1927 og er hún enn þann dag í dag biblía margra sem nota ilmolíur af einhverri alvöru.Tuttugasta öldin hefur í okkar vestræna heimi einkennst af mikilli efnishyggju og þröngsýni gagnvartnáttúrlegum meðferðarformum og gefið þeim nafnið óhefðbundnar lækningar.

Það finnst mér lýsa mjög vel þeim hroka og virðingarleys sem þessar aldagömlu aðferðir, sem náttúran býður okkur uppá, hafamátt þola. En jákvæðar breytingar hafa orðið á síðustu tveimur áratugum eða svo þannig að í dag eru leiðir eins og nudd, ilmolíumeðferð, svæðameðferð, nálastungur o.fl. sjálfsagður og eðlilegur hluti af lífsstíl stórs hluta fólks og margir innan heilbrigðisstétta eru farnir að bera sig eftir aukinni þekkingu á sviði svokallaðra óhefðbundinna aðferða til að nota með hinum hefðbundnu. Við erum smám saman að átta okkur á því að maðurinn er ein heild og þarf því að meðhöndlast sem slíkur í stað þess að einblína á að halda niðri einkennum, sem eru eðlileg leið líkamans til að segja okkur að eitthvað sé í ólagi og að nú þurfum við að gera eitthvað í okkar málum.

Það má þó ekki líta þannig á að þeir sem stunda og nema gömlu fræðin séu á nokkurn hátt mótfallnir framþróun á sviði vísinda, það er langt í frá enda hefur aukin tækni gefið okkur sem störfum með ilmolíur byr undir báða vængi því stöðugt fjölgar þeim er njóta virðingar á sviði rannsókna á þessu sviði og eru að komast að því með starfi sínu hve mikið þær hafa til síns ágætis á sviði lækninga. Olíurnar eru nú í orðsins fyllstu merkingu greindar í frumeindir sínar og innihald þeirra skoðað og mælt með tilliti til efnafræði. Niðurstöðurnar eru okkur í hag þ.e. þær sýna samþjöppuð náttúruleg efni sem geta haft mjög jákvæð áhrif á líkama okkar og sál.

Hugtakið aromatherapy má skilgreina sem markvissa meðhöndlun á ilmkjarnaolíum undir eftirliti fagmanns með það að leiðarljósi að bæta eða viðhalda góðri andlegri og/eða líkamlegri heilsu og að koma í veg fyrir að einstaklingurinn veikist, ásamt því að vinna á ójafnvægi ýmiskonar sem kann að vera til staðar. Til að ná þessum árangri eru olíurnar notaðar áýmsa vegu og fer það eftir því hvað og hvern er verið að meðhöndla hverju sinni, hvaða aðferðum er  beitt til að koma þeim á áfangastað eða inní blóðrás líkamans. Algengast er að nota þær til innöndunar en vísindamenn hafa í gegnum kynslóðir gert margar tilraunir til að svara spurningunni um hvernig lykt og ilmur hefur áhrif á okkur, en árangur þeirra verið misjafn.

Nýlega hafa þó komið fram rann- sóknir sem varpa nýju ljósi á þessi fræði, þ.e.a.s. lyktarskynið og virkni þess. Leitin að þeim þáttum  sem mestu máli skipta hefur leitt rannsóknarmenn að heilastarfseminni, því nefið er aðeins lítill hluti af því ferli nema lykt. Lyktarmólikúl berast með innöndun og koma þar fyrst að því sem kallast í íslenskum orðabókum lyktarklumba (olfactory  bulb) sem er í raun upphaf lyktartaugarinnar og er staðsett í nefgöngum á móts við augun. Hún er þakin þunnri himnu sem hefur að geyma milljónir taugafrumna. Á þeim eru einskonar bifhár sem geta borið óendanlegt magn upplýsinga. Þessar upplýsingar fást við hverja innöndun eða með öðrum orðum í hvert sinn er við drögum andann finnum við lykt.

Ólíkt heyrnarskyni og jónskyni sem byggist á ljósi og hljóði byggist lykt eingöngu á því að lyktarmólikúl berist að nefi sem samstundis sendir skilaboð til viðkomandi hluta heilans eða limbic-hluta sem stýrir og nemur hvata og taugaboð. Þar snertir ilmurinn strax okkar innsta kjarna áður en heilabörkurinn sem skilgreinir  áreiti kemst að. Limbic-hluti heilans hefur yfir boðefnum að ráða, s.s. encefalin (dregur úr sársauka og eykur vellíðan), endorfin (hefur svipaða virkni), noradrenalin (örvandi og heldur okkur vakandi) og serotonin (slakar og róar). Þannig að limbic-hluti heilans sendir þau boðefni um líkamann sem viðkomandi lykt framkallar og örvar.

Dæmi um vandamál sem meðhöndluð eru með innöndunaraðferðinni eru t.d. ýmsir kvillar í öndunarfærum, einbeitingarskortur og svefnleysi svo fátt eitt sé nefnt. Dæmi um góðan árangur innöndunarmeðferðar er tilraun sem gerð var á elliheimili í Bretlandi á deild fyrir órólega og illa áttaða einstaklinga og fólst í því að Lavender olía var sett í loftræstikerfi deildarinnar. Mjög fljótlega varð starfsfólk og aðstendendur vart við töluverða breytingu á líðan vistmanna til batnaðar, sem gerði það að verkum að notkun bæði svefnlyfja og  róandi lyfja minnkaði til muna. Einu kvartanirnar varðandi tilrauninavoru þær að næturvaktin átti erfitt með að halda sér vakandi.

Annað algengt meðferðarform er ilmolíunudd en með því  er framkvæmd tvíþætt vinna, annars vegar að koma viðeigandi olíublöndum inn í blóðrás í gegnum húð og hinsvegar að vinna á einum stærsta orsakavaldi sjúkdóma í okkar nútíma þjóðfélagi, streitunni. Ósjálfráða taugakerfið getur ekki greint á milli áreita sem við verðum fyrir, hvort þau stafa af umferðaröngþveiti eða af því að við erum elt af mannýgu nauti, og þess vegna bregst líkaminn við á sama hátt. Árásarflótta viðbragðið (fight or flight syndrome) er fullkomlega eðlilegt viðbragð en brýnt er að við greinum það strax og nýtum orkuna sem það leysir úr læðingi á sama hátt og við myndum gera ef við værum á flótta undan nauti. Takist það ekki eða vari lengi getur það valdið alvarlegri veiklun eða sjúkdómi.

Nýlegar rannsóknir á samvirkni huga og líkama gefa til kynna að við erum í stöðugri viðbragðsstöðu líkt og hlaupari við rásmarkið, þar sem við höfum aðlagast áreitinu. Af þessu leiðir að streituvakar flæða og vöðvar spennast. Ilmolíunudd getur verið hjálplegt á þann hátt að sé það rétt framkvæmt örvar það súrefnisríkt blóðflæði til stífra vöðva. Á sömu forsendum eykur það virkni sogæðakerfis og þar af leiðandi losun úrgangs og eiturefna frá líkamanum. Nudd af þessu tagi, framkvæmt af góðum meðhöndlara sem hefur tilfinningu fyrir notalegu umhverfi og gæði snertingar, vekur upp „parasympatiska“ (sef) taugakerfið og framkallar slökun. Aðrar góðar aðferðir eru t.d.  ilmolíuböð, en þar eru olíurnar settar út í baðvatn blandaðar feitum olíum eða rjóma. Þegar meðhöndluð eru afmörkuð svæði á líkamanum  eru oft notaðar grisjur vættar í olíublöndum og lagðar á viðkomandi  vanda sem gæti stafað af gigt, áverka eða bruna, svo eitthvað sé nefnt.

Í einstaka tilfellum eru olíurnar notaðar óblandaðar beint á húð en það er óráðlegt nema undir   eftirliti fagmanns. Síðast en ekki síst er svo inntaka olíanna um munn en það meðferðarform er ekki á færi nema þeirra sem hafa mikla þekkingu á innihaldi hverrar olíu, því sum efni þeirra geta reynst skaðleg þeim sem taka þau inn. Allar metnaðarfullar meðhöndlanir með ilmolíum eru klæðskerasaumaðar handa hverjum og einum bæði hvað varðar meðferðaraðferðir og val á olíu því eins og Marguerite Maury einn af frumkvöðlum í nútíma aromatherapy sagði: „Til að ná til þess sértaka í hverjum og einum þurfum við sérstaka aðferð því sérhvert okkar er einstakt skilaboð.“ Þó meðhöndlun með ilmkjarnaolíum sé mild og mjúk aðferð hafa olíurnar styrk til að seilast djúpt í sálartetrið og eru bæði róandi fyrir hugann og upplífgandi fyrir andann og hafa þar af leiðandi óteljandi áhrif á líkamlegu starfsemina.

Höfundur: Margrét Alice Birgisdóttir  – skrifað árið 2000



Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir