Langvarandi nef- og ennisholusýkingar stafa af sveppum

Sennilega valda sveppir meirihluta allra bólgusjúkdóma í nef- og ennisholum. Svo er að minnsta kosti álitið í stuttri grein í Towsend Letter for Doctors and Patients í júní 2000. ,,Þetta er byltingarkennd hugmynd sem gefur milljónum einstaklinga sem þjást af þessu vandamáli nýja von“, segir dr. Jens Ponikau sem stjórnaði hópi rannsóknarmanna við Mayo sjúkrahúsið í Rochester, Minnesota í Bandaríkjunum. „Þartil nú hefur orsök þessa sjúkdóms ekki verið þekkt“.

Með nýrri tækni við að safna og rannsaka slím úr nefgöngum gátu vísindamennirnir sýnt fram á, að 202 sjúklingar af 210 með króniskar nef- eða ennisholusýkingar voru með sveppi í slíminu frá þessum stöðum. Til viðbótar fundu þeir hvítar blóðfrumur sem nefndar eru  eósenfílur  frá næstum öllum sjúklingum sem fóru í aðgerð vegna sepa (polyps), sem taka þurfti úr nefholi.Eósenfílur eru hvítar blóðfrumur sem sérstaklega finnast í vefjum og blóði sem verður fyrir ónæmishvatningu, t.d. af ofnæmi eða sníkjudýrasýkingu.

Ályktunin sem rannsóknarmennirnir drógu af þessu var að „sveppir séu sennilega ástæðan fyrir næstum öllum þessum vandamálum“. Þeir bættu við að þetta væru í sjálfu sér ekki ofnæmisviðbrögð. Frekar mætti kalla það ónæmisviðbrögð. Þessi uppgötvun var birt í septemberhefti tíma- ritsins Mayo Clinic Proceedings, 1999. Áður hafði verið talið að minna en 10% sjúklinga með sýkingar í nefholi væru ofnæmir fyrir sveppum. Þó að eósenfílur fyndust í næstum öllum sýnum úr nefholi sjúkling-anna, fundu vísindamennirnir samt ekki ónæmisglobúlin E, sem er talið merki um ofnæmi.

Þeir drógu þá ályktun af þessu, að ,,sýkingin“ væri ónæmisviðbrögð líkamans gegn sveppum en ekki eiginlegt ofnæmi. Þetta gæti skýrt hversvegna and-histamín-lyf gagnast ekki, því að þau gagnast fyrst og fremst gegn ofnæmiseinkennum en ekki gegn ónæmisviðbrögðum af öðrum ástæðum. Sennilega mætti í ljósi þessarar uppgötvunar nota viðeigandi sveppalyf til að lækna þannig sýkingar í nefholi, en greinin segir ekkert um hvaða sveppir vísindamennirnir telja að oftast valdi þessum ónæmisviðbrögðum.

Höfundur: Ævar Jóhannesson árið 2000



Flokkar:Úr einu í annað

Flokkar/Tögg, ,