Nýjar leiðir í krabbameinslækningum haust 1998

Coley´s Toxins
Ein þeirra læknismeðferða við krabbameini sem nú er talin „óhefðbundin“ er að nota svokölluð „Coley´s Toxins“ (Coleys eitur). Nafnið er dregið af skurðlækninum Wiliam B. Coley sem uppgötvaði fyrir allt að því tilviljun að stundum læknaðist krabbamein á háu stigi ef sjúklingurinn veiktist af hitasótt. Þegar hitasóttin rénaði hafði krabbameinið einnig horfið eða læknast. Fyrsti sjúklingurinn sem læknaðist með þessari aðferð hafði fjórum sinnum farið í skurðaðgerð en meinsemdin alltaf tekið sig upp aftur.

Hann sýktist fyrir tilviljun af alvarlegu tilfelli af húðsýkingu og læknaðist þá einnig af krabbameininu og lifði lengi eftir það. Coley vissi um tíu dauðvona krabbameinssjúklinga og gerði tilraun með að sýkja þá með sama sjúkdómi. Sjö þeirra tókst honum ekki að sýkja en þrír þeirra fengu sjúkdóminn. Tveir þeirra dóu fljótlega, eins og reyndar mátti búast við, en einn þeirra læknaðist fullkomlega og dó löngu síðar úr allt öðrum sjúkdómi. Coley fékk sýklafræðing til að búa til „dautt“ bóluefni úr streptococcus erysipelas og annarri bakteríu sem nú er kölluð serratia marcescens. Hann fór síðan að nota þetta bóluefni á sjúklinga sem töldust „vonlaus“ krabbameinstilfelli.

Margir þeirra fengu bata en þó ekki allir. Coley´s Toxins var notað í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Belgíu og víðar. Þetta var um síðustu aldamót en byrjað var að nota Coley´s Toxins nokkrum árum fyrir þau. Nokkuð dró úr notkun á Coley´s Toxins eftir lát Coleys, aðallega af tveimur ástæðum. Önnur var sú almenna trú að geislalækningar væru endanleg lausn á krabbameinsvandamálinu, aðeins þyrfti að finna út hvernig nota ætti geislana. Hin ástæðan var alger þekkingarskortur á starfsemi ónæmiskerfisins á þessum árum. Árið 1953 stofnsetti dóttir Coleys, Helen Coley Nauts, krabbameinsrannsóknarstofnun sem m.a. hefur rannsakað sjúkraskýrslur fjölda sjúklinga sem fengu krabbameinsmeðferð Coleys.

Af 896 sjúklingum sem staðfest hafði verið með smásjárathugun að höfðu krabbamein voru 428 lifandi að 5 árum liðnum. Margir þessir sjúklingar lifðu til hárrar elli og dóu úr allt öðrum sjúkdómi en krabbameini. Af 523 tilfellum krabbameins, sem ekki var talið skurðtækt, lifðu 238 frá 5 árum upp í 60 ár. Á meðan Coley lifði gerði hann töluverðar breytingar á meðferð sinni. Árið 1925 byrjaði hann að sprauta efninu beint í æð. Seinna var farið að sprauta lifandi eða dauðum bakteríum beint í æxlið sem oft visnar og deyr þar sem efnið nær að verka.

Rétt fyrir dauða sinn fór Coley að nota það sem kallað er Shwartzman-viðbrögð, kennt við vísindamann með því nafni. Þá er bakteríum eða bakteríueitri sprautað beint inn í æxlið. Fjórum sólarhringum síðar fær sjúklingurinn síðan aðra samskonar sprautu, en þá í æð. Við þetta visnar oft sá hluti æxlisins sem sprautað var í. Þessi aðferð er svo endurtekin á fjögurra daga fresti og þá stungið á nýja og nýja staði í æxlinu í hvert skipti.

Sé stungið á sama stað hefur þetta lítil áhrif. Þessu er haldið áfram, oft í þrjá til fjóra mánuði með stuttum hléum, þar sem sjúklingurinn er „hvíldur“, svo að næmi hans gagnvart meðferðinni haldist en Coley taldi að væri það ekki gert hætti meðferðin smátt og smátt að verka. Í þeim tilfellum að ekki væri hægt að komast að æxlinu eða að meiri hluti þess hafði verið tekinn með skurðaðgerð voru sprautur með eitrinu gefnar undir húð eða í vöðva þrisvar sinnum á viku í þrjár til fjórar vikur og síðan gert hlé í 7 – 10 daga áður en byrjað var aftur. Viðbrögð sjúklinga gagnvart Coley´s Toxins voru yfirleitt, að þeir fengu sótthita með köldu sem oftast stóð í u.þ.b. fimm tíma. Eftir því sem sótthitinn varð meiri því betri voru batahorfur sjúklingsins.

Reynslan sýndi að ekki borgaði sig að láta sjúklingana fá meðferðina með of stuttu millibili og gott var að „hvíla“ þá annað slagið eins og áður var getið. Ekki má gleyma því að á þessum árum var sáralítið vitað um það sem nú er kallað ónæmiskerfi og hugtök eins og „ónæmisbæling“ eða „ónæmishvati“ voru ekki til. Coley gerði sér samt ljóst að ónæmiskerfið gat fjarlægt dauðar krabbameinsfrumur sem verkanir meðferðarinnar skildu eftir sig.

Það var m.a. ástæða þess að hann taldi að nauðsynlegt væri að „hvíla“ sjúklinginn á meðferðinni, svo að ónæmiskerfið fengi tíma til að hreinsa út dauðar frumur. Varúð varð að hafa vegna Shwartzman-áhrifanna áðurnefndu. Þá var sýklaeitrinu sprautað beint inn í æxlið. Fengi sjúklingurinn aðra sprautu í æð eftir skemmri tíma en tvo sólarhringa gátu lífshættuleg viðbrögð komið fram sem lýstu sér t.d. sem óeðlileg samloðun blóðfruma, blæðingar og eyðilegging innkirtla t.d. nýrnahettna, briskirtils og heiladinguls. Í þannig tilfellum losnar heilmikið af efni sem nú er kallað tumor necrosis factor.

Af þessari ástæðu er ekki ráðlegt að gefa Coley´s Toxins í æð fyrr en liðnir eru að minnsta kosti fjórir sólarhringar, áður en seinni sprautan er gefin. Á tímabilinu 1955-1963 hafði Coley´s Toxins aftur verið tekið í notkun í Bandaríkjunum, en því hafði verið hætt í nokkur ár. Í lok þess tímabils tók gildi svokölluð „Kefauver-Harris Amendment“ reglugerð. Þá var Coley´s Toxins dæmt ólögmætt og bannað að nota það. Í Evrópu hafði Coley´s Toxins verið notað dálítið, sérstaklega í Austantjaldslöndum. Í München í Þýskalandi var lítið fyrirtæki sem framleiddi það undir nafninu „Vaccineurin“.

Þetta fyrirtæki hét Submedia og framleiddi efnið á árunum 1914-1981. Ýmsir krabbameinsfræðingar í mörgum löndum notuðu efnið á meðan það var fáanlegt. Merkilegt er að það var oft notað til að draga úr kvölum. Nú hefur komið í ljós að það hvetur myndun endorfína (líkamsmorfína) í líkamanum. Árið 1976 voru sett lög í Vestur-Þýskalandi sem svipaði mjög til bandarísku laganna áðurnefndu og árið 1986 var framleiðsla Vaccineurin bönnuð og fyrirtækið sem bjó það til hætti störfum. Margir krabbameinsfræðingar, einkanlega í Austur-Evrópu, urðu þó mjög óhressir við þetta.

Nú er aftur farið að nota Coley´s Toxins á nokkrum stöðum vestanhafs. Greinarhöfundur veit um dr. Don Carrow, lækni í Clearwater, Florida, dr. Jose Monjas í Guatemala City og Gerson Hospital í Tijuna í Mexikó, rétt sunnan við bandarísku landamærin. Vel má vera að víðar sé hægt að fá þessa meðferð þó að greinarhöfundi sé það ekki kunnugt. Coley´s Toxins er vafalaust ekkert endanlegt svar við krabbameinsvandamálinu sem stöðugt virðist verða meira og meira óviðráðanlegt með núverandi krabbameinslækningum. Coley´s Toxins gefur þó visst fyrirheit um að sennilega dyljist endanlega lausnin í starfsemi ónæmiskerfisins og að þar felist lokasvarið.

Heimild að mestu úr Townsend Letter for Doctors and Patients, ág.-sept. 1997.

Höfundur: Ævar Jóhannesson haust 1998



Flokkar:Krabbamein